12.03.1943
Neðri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (3060)

21. mál, virkjun Andakílsár

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

horseti. — Það hefur margt borið á góma við þessar umr., og hefur EOl, 2. þm. Reykv., talað í 11/2 tíma og komið viða við, ekki einungis um þessi mál. heldur og mörg önnur og yfirleitt viðhorfið í þessu máli. Það mundi taka langan tíma að svara því öllu, og ætla ég ekki að leggja út í það. En ég vil víkja að nokkrum atriðum í ræðu hv. þm. Borgf. Get ég þá lýst yfir því, að ég tel það sjálfsagt, að fjhn. ræði við flm. frv., fyrst þeir óska þess. Því að þótt við höfum okkar skoðanir, þá raskar það ekki því, að við getum rætt um ýmsar þær leiðir í þessu máli, sem hér koma til mála.

Hv. þm. Borgf. segir, að sér þyki leitt, að ekki hafi orðið samkomulag um að samþykkja þetta frv. eins og það kom fyrir. Ég vil aftur á móti segja, að það er undarlegt, að fhn. frv. vilja ekki ganga inn á þá leið, sem við viljum fara. því að það finnst okkur tryggja hag þeirra bezt.

Ég viðurkenni, að rannsókn þessa máls er ekki komin nema skammt á veg, og það þarf að gera nánari rannsóknir, áður en fullnaðarákvörðun um stefnu í þessum málum er tekin. Ég lýsti því yfir, að mþn í rafmagnsmálum væri ekki komin nema stutt áleiðis í verkefni sínu og hún hefði aðeins vegna eftirgangsmuna út af þessu frv. og frv. um virkjun Fljótaár skilað þessum ummælum, sem við höfum lagt til grundvallar brtt. okkar.

En um mörg atriði þarf enga rannsókn, engar umsagnir eða álitsgerðir verkfræðinga, bara skynsamlega athugun til að sjá, að ódýrara er að virkja fyrir þéttbýli en dreifbýli, og það er unnt að slá því föstu, að hægt verður að fá ódýrt rafmagn, ef aðeins er virkjað fyrir stærstu byggðir, en hitt látið eiga sig. Deilan, sem hér stendur milli meiri hl. og minni hl., er um það, hvort halda eigi áfram að virkja eingöngu fyrir þéttbýlið eða líka fyrir strjálbýlið. Ég veit, að hv. þm. Borgf. vill gjarnan leggja sitt lóð á þá metaskálina að útiloka ekki sveitirnar frá rafmagninu.

Hitt er rannsóknaratriði, sem ekki er fullkomlega upplýst, hvort hagkvæmara er að byggja smáar eða stórar stöðvar og svo leiðslur frá stóru stöðvunum út um fleiri héruð.

Þá eru nokkur atriði í ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem ég vil drepa á. Hann sagði, að við í meiri hl. fjhn. hefðum snúizt í málinu, en það er ekki rétt. Við í raforkumálanefnd vikum að vísu að því sem hugsanlegum möguleika að virkja aðeins tvö vötn, Sogið og Laxá, en slógum því aldrei föstu. Hinu slógum við aftur á móti föstu, að ef Andakílsá yrði virkjuð, þyrfti að virkja hana fyrir stærra svæði en gert er ráð fyrir í frv. n.

Þá sagði þessi hv. þm., að auðséð væri, að það yrði mun ódýrari virkjun, ef aðeins yrði virkjað fyrir það svæði sem frv. fer fram á, heldur en fyrir stærra svæði. Þetta vita allir. Ég hygg, að á bak við málstað andstæðinga okkar í meiri hl. n. liggi það, að rafmagnið verði dýrara fyrir kaupstaðina, ef sveitirnar fá að vera með, en auðvitað datt okkur ekki annað í hug en ríkið legði fram fé í þetta.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi það hina mestu fjarstæðu að hafa leiðslurnar langar og áleit það ógerning að leggja leiðslur yfir Holtavörðuheiði yfir í Stranda- og Húnavatnssýslur. En þessum hv. þm. og fleirum, er samþykkja vildu Fljótaárvirkjunina, fannst engin fjarstæða að leggja leiðslur yfir Siglufjarðar skarð, enda þótt þar sé miklu hættara við bilunum, því að þar, sem vegurinn liggur yfir skarðið, er hæðin 602 metrar, en Holtavörðuheiði er aðeins 302 metrar, þar sem hún er hæst. Allt þetta tal um Holtavörðuheiði er hin mesta fjarstæða, því að rafmagnsleiðslur liggja yfir heiðarnar hér austur frá, og enda þótt bilanir komi fyrir, þá er það ekkert nýtt, og enginn getur við því spornað. En Holtavörðuheiði, — þar er ekki um nein fjöll og firnindi að ræða, og er furðulegt, að menn skuli tala um hana sem óyfirstíganlega hindrun. (PO: Ekki hefur landssíminn staðið sig vel þar). Rétt er það, en allt getur bilað, en það er sízt meiri hætta á Holtavörðuheiði en viða annars staðar á landinu.

Annars get ég sagt, að það er ekki aðalatriðið fyrir okkur, að leitt verði rafmagn yfir Holtavörðuheiði, og við erum fúsir til að ganga inn á aðrar leiðir, ef betri eru. Hitt er annað mál, að við viljum ákveðið, að virkjað verði af ríkinu, og jafnhliða til kaupstaða, kauptúna og sveita. Það er aðalatriðið hjá okkur og byggist á því, að sýnt þykir, að rafmagn kemst aldrei út um sveitirnar, nema ríkið standi fyrir virkjuninni. Hv. 2. þm. Reykv. taldi það hina mestu fjarstæðu, að ríkið stæði fyrir þessum rekstri, og er það furðulegt af ríkisrekstrarmanni að vera. Þeim, sem lengi hafa starfað á Alþ. eins og hv. þm. Borgf., ætti að vera ljóst, að það er eitt af helstu störfum þingsins að skipta ríkisfénu í gagnlegar framkvæmdir, svo sem síma, vegi og brýr, og öllum, sem um þessi mál hugsa, ætti að vera ljóst, að framkvæmdir í þessum efnum væru ekki komnar jafnlangt og raun er á orðin, ef ekki hefði verið lagt mikið fé í þær af ríkisins hálfu.

Það er viðurkennt, að enda þótt dýrt sé að leggja síma, vegi og brýr, þá er þó enn dýrara að veita rafmagni út um byggðir landsins, og þess vegna er fjarstæða að ætla, að rafmagn komist nokkurn tíma til allra landsmanna nema með ríkishjálp. Við vitum, að rafmagnsmál eru kerfismál, þannig að kapp er mikið milli sveita og kaupstaða, og á meðan ekki er fundið fast kerfi fyrir landið, þá verður allt á ringulreið, því að þá verður virkjað þar, sem staðhættir eru beztir, án tillits til þeirra staða, sem verr eru settir.

Þegar talað er um, að öðru máli gegni um síma og vegi en rafmagnið, þá er það ekki nema orðaleikur, því að rafmagn er ekki síður eftirsótt þægindi en hitt, og að ætla sér að virkja aðeins það, sem þægilegast er, en skilja aðra staði eftir, það er fjarstæða. Sjálfsagt er slíkt að skapi hv. 2. þm. Reykv., sem telur heppilegt að leggja ýmsa hluta landsins í eyði og færa fólkið saman í þétt byggðarlög.

Um það, hvort ríkið skuli virkja eða ekki, stendur aðaldeilan nú. Hitt dettur engum í hug, að þetta verði framkvæmt alls staðar í einu, að sjálfsögðu verður þessu líkt háttað og með vegi, síma o.s.frv., að menn verða að fikra sig áfram. Allir hv. þm. eru sammála um að reyna að koma ríkisveginum sem lengst inn í sín héruð, og svipuðu máli gegnir um rafmagnið.

Það virðist nú vera í uppsiglingu svipuð deila og þegar fyrst var byrjað á símalagningu hér á landi. Það kom upp allsnörp deila, og voru kallaðir saman mótmælafundir víðs vegar um land. Sumir vilja nú láta virkja hingað og þangað og láta sér á sama standa, þótt dreifbýlið verði útundan.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að óheppilegt væri, ef ríkið ræki þetta, sökum þess að áhugi ríkisstjórna á hverjum tíma væri mjög msjafn, þá vil ég segja það, að áhugi ríkisstjórna hefur verið mjög misjafn, hvað snertir síma og vegi en ekki hefur staðið á því, að ýtt yrði undir þau mál hér á Alþ., og sama mun verða um rafmagnsmál.

Það var eitt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, sem ég gladdist yfir að heyra. Hann sagði, að einstaklingskrafturinn nyti sín betur, ef ríkið væri ekki að vasast í þessum málum. Það er ánægjulegt fyrir okkur sjálfstæðismenn að heyra slík ummæli frá þessum manni, sem er yfirlýstur sósíalisti. (EOI: Ég sagði. að kraftur fjöldans og félaga nyti sín betur, ef ríkið væri ekki að vasast í þessu). Þarna kom hv. þm. inn á stefnu okkar sjálfstæðismanna. Við viljum einmitt, að einstaklings- og félagsframtakið fái notið sín, þegar um atvinnurekstur er að ræða, svo sem verzlun, iðnað, búskap og því um líkt. Þar á ríkisrekstur ekki við, en öðru máli gegnir um rafmagnið, því að það er hliðstætt vega- og símalagningu. Það er enginn atvinnurekstur, heldur heyrir það undir ríkið. (EOl: Ekki álíta kapítalistarnir í Ameríku það. — SkG: En hvað er með Stalín?). Ýmsir voru mótfallnir því fyrst í stað, að síminn yrði rekinn af ríkinu, en nú óskapast enginn út af því. Ríkið á að taka að sér forustuna í þessum málum og ákveða, hvar orkastöðvarnar skuli standa, og sjá um, að leiðslurnar komist út til allra héraða landsins. (PO: Er það þetta, sem hv. meiri hl. býður upp á?). Já, það er einnlitt þetta. Svo er eitt, sem sérstaklega er gott við þetta fyrirkomulag; það er öryggið, en það er því meira sem orkustöðvarnar eru stærri og fullkomnari. Þetta er hin ákveðna stefna meiri hl. fjhn., en eftir að þetta allt er komið í kring, þá er samt eftir mikið verkefni fyrir héruðin, sem sé að koma upp spennustöðvum og veita rafmagninu þaðan út um byggðina, og það er mikið og erfitt verkefni. Svo yrði ágreiningur um það, hve dýrt skyldi selja rafmagnið á þessum og þessum stað. Það hefði vissulega verið hægt að hafa símagjöldin lægri, ef sími hefði aðeins verið lagður til stærstu kaupstaðanna, en því stærra sem kerfið er, því hærri eru gjöldin, og sá ótti margra hv. þm. er á rökum reistur, að rafmagnið verði dýrara fyrir kaupstaðina, ef sveitirnar verða teknar með. (EOl: Er ekki meining hv. meiri hl., að svo sé? ). Jú, það er svo.

Varðandi ummæli hv. 2. þm. Reykv, um landbúnaðinn, þá mun ég ekki ræða um það, enda þótt þessi mál snerti landbúnaðinn óbeinlínis, því að ef ég ætti að svara öllu, sem fram kom í ræðu hv. þm. um þau mál, þá mundi þar verða nægilegt verkefni fram til matar, og mun ég þess vegna ganga fram hjá því. Það er að vísu rétt hjá þessum hv. þm., að rafmagnsmálin snerta, landbúnaðinn óbeinlínis, því að framtíð hans á mikið undir rafmagninu.

Ég vil endurtaka það, að meiri hl. telur sjálfsagt að verða við tilmælum hv. flm. frv. þessa, þm. Borgf., um að eiga tal við hann um þetta mál, ef samkomulag gæti náðst, en við ætlumst til, að það verði við þessa umr., því að það mun of seint við 3. umr.

Ég tel mig nú hafa gert grein fyrir hinum helztu ágreiningsefnum, sem uppi eru um þetta mál. — Hvort ríkið eigi að taka á sig ábyrgðina eða hvort leyft skuli einstökum héruðum að virkja, og þá auðvitað á ábyrgð ríkisins, — það er að vísu engin stefna, heldur héldi aðeins við þeirri ringulreið, sem nú er í þessum málum. Hitt er svo annað mál, — sem óútkljáð er, þó að við höfum slegið fram skoðunum um það, og það er rannsóknarefni, eins og hv. þm. Borgf. tók réttilega fram, — hve langt á að fara í því að hafa stórar virkjanir og fáar eða smærri og fleiri. Það er efni, sem kemur smátt og smátt til athugunar, eftir því sem þekking og reynsla og rannsóknir leiða betur í ljós.