14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Hermann Jónasson:

Það var aðeins til þess að leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. Ég undirstrikaði alveg sérstaklega þessi 2 atriði, að ég áliti mikilvægt, að störfin væru svo samræmd og þetta væri rétt spor, en hitt held ég, að sé skynsamlegt fyrir okkur að gera okkur ljóst, þó að þessi spor séu rétt, þá eru þau ekki stór samanborið við það, sem gera þarf. Þetta er atriði, sem þm. yfirleitt eru sammála um, en við getum gjarna gert okkur það ljóst nú þegar, ef við ætlum okkur að lifa, verðum við að taka betur á, og þrátt fyrir það að vel takist um framkvæmd á þessu atriði, þá býst ég við, að flestir þm. geri sér það ljóst, að það er sennilega ekki hægt án þess að lækka dýrtíðina að semja fjárlög fyrir árið 1944, svo að í nokkru lagi sé og nokkurt vit sé í, og við eigum eftir áfanga, sem er langur, og þar sem landsmenn munu þurfa nokkuð að sér að leggja. Ég held, að það sé rangt að tala um það hér í þessum d. á þ. og blanda því inn í umr., að stj. sé skipuð með sérstökum hætti. Hér hafa góðir og gegnir borgarar tekið að sér stjórn á framkvæmdavaldi ríkisins, sem þ. gat ekki komið sér saman um. Það er aðeins eitt, sem fyrir mér vakir,. og það er það, að ég álít, að ef til vill hefði það verið betri vinnuaðferð að koma sér saman við þ. um skipun þessarar n. — og ég er nærri viss um, að till. hennar um nefndarskipunina hefðu verið teknar til greina — heldur en að stj. hafi þennan stranga fyrirvara um, hvernig takist um skipun n. Ég álít, að það hefði verið réttara með tilliti til þess að koma samstarfinu milli þ. og stj. í betri og eðlilegri farveg að koma sér saman um þessa menn. Sú reynsla, sem stj. hefur af því að vinna með þ., þó að það sé ósamstætt. hefði átt að sýna henni, að með þessu mátti fá þ. til þess að stíga skrefið með stj. og taka þátt í framkvæmdunum. Þetta álít ég þýðingarmikið, vegna þess að ég álit a.m.k. án þess að spá nokkru um það að óathuguðu máli, að nauðsynlegt sé og gott að viðhafa þau vinnubrögð milli þ. og stj., sem geri samstarfið betra, og það af þeim ástæðum, sem ég greindi, að þetta samstarf getur orðið nauðsynlegt á stærra vettvangi. En það bíða okkar svo mikil átök nú í dýrtíðarmálunum, að ég held, að það væri góð byrjun að reyna dálítið á samstarfið milli þ. og stj. einmitt í þessu máli. Það er og gott að þreifa fyrir sér smám saman, en hitt er öllu lakara, ef kemst inn tortryggni, sem ekki má vera til staðar, þegar byrjað er á stóru málunum, sem framundan eru.