10.12.1942
Neðri deild: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í C-deild Alþingistíðinda. (3084)

35. mál, brúargerð

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Austur-Skaftafellssýsla er sýsla mikilla sanda og mikilla sæva. Lega sýslunnar veldur því, að svo er. Verulegur hluti sögu hennar er bundinn við baráttu sýslubúa við vötnin, svaðilfarir í ferðalögum og því um líkt. Það er orðin sérstök íþrótt að fara yfir vötnin, og við það hefur myndazt orðið „vatnamenn“. Vestur-Skaftfellingar tóku að nota bíla, áður en fljót þeirra höfðu verið brúuð, og voru bílstjórarnir þá jafnvel stundum nefndir „vatnabílstjórar“. Á s.l. árum hefur verið brúað margt þeirra vatna, sem voru helzti farartálminn, einkum í Vestur-Skaftafellssýslu. Til þess liggja tvær meginástæður, að byrjað var á vestursýslunni. Það var eðlilegast að halda þjóðleiðinni áfram austur yfir og gera hana sem öruggasta, en í öðru lagi er það svo, að þó að Austur-Skaftfellingar séu illa settir, hvað hafnir snertir og samgöngur á sjó, eru Vestur-Skaftfellingar enn verr settir, því að við strönd vestursýslunnar er enginn afgreiðslustaður, enda treysta sýslubúar nær eingöngu á vegasambandið um að koma frá sér afurðum sínum og flytja að sér. Nú er hægt að ferðast um Vestur-Skaftafellssýlu svo að kalla þurrum fótum allt austur að Djúpá í Fljótshverfi, en einnig hún er komin í brúalög. Er þess að vænta, að ekki dragist lengi að reisa þá brú, og má í því sambandi minna á þál., sem flutt var á Alþ. í sumar í þessari hv. d., því til áherzlu. Röðin er því komin að Austur-Skaftafellssýslu, en enn eru þar mjög fáar brýr.

Aðalhindrunin á akveginum í kringum land er kaflinn um Austur-Skaftafellssýslu ásamt nokkrum hluta Suður-Múlasýslu, og þarf ekki ýkja stórt átak til að tengja saman akvegasambandið. Hlýt ég að líta svo á, að að því beri að stefna, að hægt sé að tengja saman akvegina með því að fylla í þetta skarð á akbrautinni kringum land.

Þegar Djúpá í Fljótshverfi hefur verið brúuð, nær akvegasambandið að Núpsvötnum. Yfir þau verður að treysta á hestana. Það má vera, að fundin verði upp einhvers konar vélknúin tæki til að komast á yfir vötn, en slíkt liggur ekki fyrir nú. — Þegar yfir Núpsvötnin er komið, tekur við Skeiðarársandur, og hann er bílfær. Það lægi beinast við að hafa sérstakan bíl til flutninga á þeim sandi, um 30–40 km. veg. Yfir Skeiðará verður að treysta á fylgd frá Skaftafelli, eða, ef áin er ófær, yfir jökulinn. Þá er komið í Öræfin, og þar taka við bifreiðar. Með nokkrum smábrúm má gera þá leið örugga.

Á Breiðamerkursandi eru allmörg vötn, sem erfitt er að brúa, en svo hagar til, að þau falla flest til sævar i einum ós. Lægi því beinast við að hafa ferju yfir ósinn. Þegar komið er yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi, sem ferja er á, er opin leið til Hornafjarðar, með því að reisa nokkrar brýr og gera dálitlar vegabætur frá því, sem nú er. Og með frv. þessu er mörkuð sú stefna, sem fylgja verður til að gera þá leið örugga. Fyrir austan Hornafjörð er aðaltorfæran Jökulsá í Lóni. Það er því einkum á fjórum stöðum, sem ferja þarf yfir vötnin, yfir Núpsvötn, Skeiðará, Breiðamerkurós og Jökulsá á Breiðamerkursandi. Að öðru leyti er næsta opin leið til að tengja saman akbrautina.

Það, sem ég hef sagt, mun nægja til að sýna, að ekki þarf ýkja stórt átak, miðað við það, sem búið er að gera. Brýr þær, sem taldar eru í frv., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 52, yrðu smáar, að undantekinni brú á Jökulsá í Lóni. Hún yrði álíka stór og Markarfljótsbrúin. En fyrsta skrefið er að taka þessar brýr inn í brúalög, og til þess er frv. flutt. Ég vil að lokum leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og samgmn.