11.12.1942
Neðri deild: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (3097)

39. mál, húsaleiga

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég hygg, að það sé alveg rétt hjá hv. flm., að það sé mjög hæpið, að vel sé séð fyrir þessum málum í kaupstöðum landsins með því, að fasteignamatsn. hafi þessi mál með höndum, því að þær eru skipaðar nokkuð með hliðsjón af öðru en ætlazt er til með húsaleigul. Því var það, að á sínum tíma, þegar ég hafði með undirbúning húsaleigul. að gera, þá var sett inn í þau, að það skyldi heimilt með reglugerð af hálfu ríkisstj. að gera aðra skipan í kaupstöðum með 300 íbúa eða fleiri, og voru þessi fyrirmæli í 9. gr. l. nr. 106 8. sept. 1941. Þegar ég hafði með þessi mál að gera, var mér ljóst það sama, sem hv. flm. segir nú, að í sumum kaupstöðum var eðlilegra, að sérstök n. fjallaði um þessi mál en að fasteignan. hefði þau með höndum. Ég hafði hugsað mér að leita álits bæjarstjórnanna um þetta, en svo tóku aðrir við þessum málum, og mun ekkert hafa verið aðgert síðan. En jafnvel þó að þessi heimild sé til um að gera með reglugerð aðra skipun á þessu, hygg ég, að nauðsynlegt sé að taka til athugunar nú á yfirstandandi þingi skipun þessara mála yfirleitt, hvað snertir kaupstaði landsins. Þar sem bæði hv. flm. og ég eigum sæti í þeirri n., sem fjallar um þetta mál, hygg ég rétt, að tekið verði til yfirvegunar í n., hvernig framkvæmd húsaleigul. er komið fyrir í kaupstöðum landsins. Ég get ekki sagt um það að svo komnu máli, hvort rétt sé, að n. séu kosnar af bæjarstjórnum eða, eins og nú er, að hæstiréttur skipi formann og ríkisstj. tvo. Það má vel vera, að bæjarstjórnirnar ættu að hafa meiri íhlutunarrétt, þó að ég telji máske rétt, að hæstiréttur ætti að skipa formann n., en hinir, hvort sem þeir væru 2 eða 4, væru kosnir af hlutaðeigandi bæjarstjórn. Allt kemur þetta til athugunar á sínum tíma í n., en ég vildi benda á þetta, og ég hygg, að það sé rétt hjá hv. flm., að þegar sé fyrir höndum ástæða til að framkvæma þessa breyt., þótt ríkisstj. hafi ekki séð ástæðu til þess.