09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

168. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason):

Mér kom það á óvart, að hv. 6. þm. Reykv. skyldi flytja brtt., sem alveg umskapar frv., og hafði mér skilizt annað eftir umr., sem fram fóru í allshn.

Mér virðist það orka mjög tvímælis að láta l. orka svona langt til baka. Nú hefur hv. 6. þm. Reykv. horfið að því ráði að flytja brtt., sem gerbreytir frv. Ef hún nær samþykki, verður það á valdi ríkisstj. að ákveða hve háa upphæð skuli greiða. En það er hið mesta öryggisleysi fyrir viðkomendur, að hún ákveði það, hve meðlagið skuli vera hátt. Það á heldur að ákveða það með lögum, og er það eðlileg krafa, að þetta fólk, sem hér á hlut að máli, njóti sama öryggis og annað fólk, sem greiðslu fær frá því opinbera, þótt þessi hv. þm. telji viðkomandi sveitar- og bæjarstj. bezt færar um að dæma um, hversu há meðlögin eigi að vera.

Nú er það svo, að gengið er út frá þeim upphæðum, sem voru fyrir stríð í þessu efni. Og ég geri ráð fyrir, að þær hafi verið ákveðnar að mjög vel rannsökuðu máli. Og í þessu frv. er ekki farið fram á neitt annað heldur en það, að þessar greiðslur séu hækkaðar nákvæmlega í samræmi við aðrar greiðslur þess opinbera. Á meðlagsupphæðina, eins og hún var ákveðin 1940, á að bætast 10% og svo vísitöluhækkun að vera gerð á þeirri upphæð, sem þá kemur fram. Og þetta samsvarar því, að það væri greidd uppbót á meðlagsupphæðina eins og hún var ákveðin 1937 og svo verðlagsuppbót. Hér er því ekki um neina ósanngirni að ræða, heldur ekkert annað en það, að þessar mæður fái sömu uppbætur eins og aðrir, sem njóta greiðslna frá hinu opinbera.

Annað atriði, sem fært hefur verið fram sem rök á móti því, að þessi háttur væri upp tekinn, — sem hefur nú samt verið viðurkennt af öllum, að væri sanngjarnt að taka upp — er það, að með þessu móti mundi vera gert erfitt í framkvæmd að afgreiða þessi meðlög. Og skilst mér, að þá sé ætt við það, að oddvitar eigi erfitt með að reikna þessar upphæðir út. Mér finnst satt að segja seilzt nokkuð langt til röksemda, þegar slíkt er borið fram sem röksemd. Því að þetta er mjög auðvelt fyrir oddvita og jafnauðvelt að fást við og aðrar greiðslur þess opinbera. Formenn hvers einasta smáverkalýðsfélags í landinu verða t.d. að reikna kaup út samkv. vísitölu á hverjum mánuði. Hver einasti verkstjóri verður að gera þetta einnig. Og hver oddviti v erður að gera þetta líka, sem hefur með höndum einhverjar greiðslur, sem reikna skal vísitöluuppbót á. Og slíkur reikningur er ekki erfiðari í þessum tilfellum, sem hér er um að ræða, heldur en í öðrum tilfellum, svo sem þegar um kauptaxta er að ræða.

Ég vil þess vegna mjög eindregið óska eftir því, að hv. þd. vildi fallast á að samþ. frv. þetta óbreytt eins og það kom frá allshn.