06.01.1943
Neðri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (3129)

76. mál, lögreglustjórn

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem ég flyt hér á þskj. 106 ásamt hv. þm. Snæf. og hv. 2. þm. Eyf. miðar að því, að úr l. verði felld undanþáguheimild um, að lögreglustjórinn í Rvík þurfi ekki að fullnægja dómaraskilyrðum samkv. 32. gr. laga nr. 85 23. júní 1936, hvað það snertir að hafa lokið lögfræðiprófi. Sú undanþága var sett inn í l. nr. 67 31. des. 1939, um dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimtur o.fl. í Rvík.

Með l. frá 1928 var svo ákveðið, að tollstjóraembætti, lögmanns- og lögreglustjóra skyldu vera í Rvík. Lögreglustjóraembættinu fylgdi dómsvald í sakamálum og Iögreglumálum. Þegar tímar liðu, þótti auðsætt, að það væri ekki hentugt, að sama embættinu fylgdi bæði dómsvald og löggæzla. 1939 var svo þessu embættiskipt og dómsvaldið tekið undan embættinu, með l. nr. 67 1939.

Þegar frv. til þeirra l. kom upphaflega fram, var ekki sérstaklega kveðið á um það, hverjum skilyrðum viðkomandi embættismenn skyldu fullnægja, hvort þeir skyldu fullnægja hinum almennu dómaraskilyrðum eða ekki. En þetta leiddi af sjálfu sér bæði um lögmann og um tollstjóra, að óhjákvæmilegt var, að þeir væru lögfræðimenntaðir menn. Í frv. var sem sagt ekkert tekið fram um þetta, en gert virðist hafa verið ráð fyrir því af hv. Ed., en þar var frv. flutt, að þessum skilyrðum væri fullnægt. Sést þetta glöggt á því, að hæstiréttur, sem sagt er í grg., að hafi litið yfir frv., minnist ekkert á þetta atriði í umsögn sinni um málið og hefur áreiðanlega verið talið eðlilegast af hálfu réttarins, að hinum almennu dómaraskilyrðum væri fullnægt. Það má líka benda á til stuðnings því, að hv. Ed. leit einnig svo á, að í d. kemur fram brtt. frá hv. þm. S.-Þ., hv. núv. þm. Dal. og hv. núv. 1. þm. Eyf. um, að þessum embættismönnum skuli öllum skylt að taka á sig þá kvöð að gegna setudómarastörfum, þegar því væri að skipta. Á þeirri brtt. sést, að flm. hennar hafa litið svo á, að allir þessir embættismenn hlytu að fullnægja því skilyrði að vera lögfræðimenntaðir menn, þar sem ólögfróða menn er ekki hægt að skipa sem setudómara.

Það er fyrst í áliti allshn. í Nd., sem till. kemur fram til breyt. að því er lögreglustjóraembættið snertir og þó ekki einróma, því að hv. 2. þm. Eyf. skrifaði undir með fyrirvara.

Ég hygg, að óþarft sé að rekja meðferð málsins frekar, og það, hvernig til er komin undanþágan í 1. gr. l. nr. 67 frá 1939. Aðalatriðið er, að Alþ. gefi þessu frekari gaum nú en það virtist gera þá. Næsta skrefið var, að í samræmi við þetta ákvæði var strax eða mjög skömmu eftir að l. voru. sett, í ársbyrjun 1940, settur ólöglærður maður i lögreglustjóraembættið án þess þó, að embættið væri auglýst til umsóknar svo sem annars tíðkast eða nokkrum manni úr lögfræðingastétt gefið tækifæri til að sækja um það. Þetta sætti að vonum mikilli gagnrýni, og athygli var vakin á því, hversu fjarstætt það væri, að lögreglustjóri höfuðborgarinnar þyrfti ekki að hafa lögfræðilega þekkingu, eins og þó var skylt um alla aðra lögreglustjóra landsins, í smærri bæjum, enda er auðsætt, að það verður ekki unað við það ósamræmi.

Að vísu hefur því verið slegið fram, að með skiptingu embættisins hefði það orðið óþarft, að lögreglustjóri hefði lögfræðimenntun, en það er fjarri sanni, því að iðulega koma fyrir atvik, sem gera það ýmist auðveldara fyrir lögreglustjórann eða beinlínis nauðsynlegt að hafa lögfræðimenntun, og er auðsætt, að starf hans hnígur til úrlausnar mörgum atriðum, sem snerta lögfræðileg efni.

Sú staðhæfing, að lögreglustjórinn þurfi ekki að vera lögfræðilega menntaður maður, samræmist illa þeirri ráðstöfun, að honum var skipaður löglærður fulltrúi, og hefur skortur lögreglustjóra á lagaþekkingu verið réttlættur með því, að hann hefði löglærðan fulltrúa. En ef farið væri inn á þá braut almennt, værum við komnir út á hálan is. Ég hygg t.d., eins og að er vikið í grg. frv., að það þætti einkennilegt, ef haldið væri fram, að skipstjóri þyrfti ekki að vera siglingamenntaður, ef stýrimaður hans hefði slíka menntun. Það er eindregin skoðun okkar flm., að við svo búið verði ekki unað, og að undanþáguheimildin verði að falla burt.

Ég vil benda á það, þegar þetta mál var til umr. hér 1939, var mjög glögglega tekið fram af núv. hv. 2. þm. Eyf., hversu fjarri réttu lagi þetta væri. Síðan hefur það verið ítrekað svo að segja einróma af lögfræðingastétt landsins. Þá var líka bent á það í umr. 1939, að okkur vantaði ekki fyrst og fremst mann í þetta embætti, sem kynni að stjórna her. Ég hygg, að þetta sé rétt. Þjóðin er ekki þannig, að hún hafi þörf fyrir heraga, enda er það viðhorf ríkjandi enn, að til þess beri litla nauðsyn. Hitt er annað mál, að það ber að hafa skipan lögreglumála í landinu sem öruggasta, og er fjarri því, að sú trygging fáist með því að hafa í lögreglustjóraembættinu í höfuðborg landsins mann, sem ekki hefur lögfræðiþekkingu. Ég held þvert á móti. Ég ætla ekki að rekja þær afleiðingar, sem þessi embættisveiting hefur haft. Ég vil aðeins benda á það, að því hefur mjög verið haldið á lofti, að manni þeim, sem í embættið var skipaður, hafi verið gefinn kostur á að mennta sig sérstaklega til að geta rækt embættið. Það er í sjálfu sér ágætt, en það eru engin rök í málinu. Mátti ekki veita öðrum manni með lögfræðiþekkingu sams konar tækifæri?

Mér finnst rétt að lokum að drepa á eitt atriði, það, að ekki hafi verið völ á lögfræðimenntuðum manni í embættið. Fjær sannleikanum verður ekki komizt. Það var engin tilraun gerð til þess að fá slíkan mann, svo að vitað sé, því að embættinu var ekki slegið upp. Hitt er á allra vitorði, að meðal manna í lögfræðingastétt voru menn, sem vel mátti trúa fyrir embættinu, enda mætti það fyrr vera og auglýsa meiri fátækt heillar stéttar en hægt er að drótta að henni.

Ég vænti, að hv. d. taki þessu máli vel og sú leiðrétting fáist, sem farið er fram á í frv., þannig að við verði unað. Óska ég, að frv. verði vísað til allshn., að lokinni þessari umr.