18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (3144)

94. mál, húsaleiga

Frsm. (Lúðvík Jósefsson):

Ég hélt, að eigi gerðist þörf að draga hér lengi umr. um viðskipti kaupfélagsins á Hornafirði við austfirzka útgerðarmenn, en eftir að hafa heyrt ræðu hv. þm. A.-Sk., þá býst ég við, að eigi verði hjá komizt að athuga þetta mál nánar. Hv. síðasti ræðumaður gaf hér skýrslu um þetta, sem hann byggði á sögusögn kaupfélagsstjórans á Hornafirði. En ég komst að því við að hlusta á ræðu hv. þm., að hann veit ekkert um, hvernig leigukjörum er í rauninni háttað þarna á staðnum. Hann segir, að fyrst hefðu bátar greitt 1/12 part aflahlutar í leigu, síðan hafði kaupfélagið lækkað leiguna niður í 1/16, þar næst í 1/20 og nú síðast í 1/25 part. Þetta má segja ókunnugum, og er hér að sönnu um brot af sannleika að ræða. Sannleikurinn allur er sá, að á þessum tíma hefur aflahluturinn breytzt úr 1/16 niður í 1/22, svo að tölur þær, sem hv. þm. las upp, gefa enga hugmynd um leiguna, fyrst hann tók ekki til greina það, sem ég sagði um breytingu aflahlutarins á þessum tíma. Um ljósagjaldið sagði hv. þm., að þar væri um sérstök kjör að ræða, og svo mun vera, því að þau kjör eru orðin fræg um allt land, og skal ég minnast nánar á það atriði. Annars staðar er venja að láta ljósagjaldið vera innifalið í húsnæðinu, en í Hornafirði er svo háttað, að þar greiðir hver bátur 11/2–2 skp. í ljósagjald. Kaupfélagið hefur lánað eina 40 króna lukt, og tekið 1 skp. í leigu fyrir hana, en útgerðarmönnunum var ekki leyft að koma með sína eigin lukt, þótt þeir fegnir vildu. Ég get tekið fram, að það mun ekki vera stjórn kaupfélagsins, sem þessu ræður, heldur kaupfélagsstjórinn sjálfur, Jón Ívarsson.

Þá er sú fullyrðing hv. þm., að ég hafi aðeins getið um í grg. frv. stærstu bátana, sem greiddu í leigu 8000 krónur á síðustu vertíð, en láðst að geta um minni bátana, sem voru 2/5 af bátunum, og hafi greitt 2000 krónur í leigu. Þetta er mjög fjarri sanni fyrir þá menn, sem þekkja málavexti, og upphæðin getur all, ekki staðizt. Ég átti nýlega ásamt hv. meðflm. í Rvík í viðskiptum við Jón Ívarsson út af þessu atriði, og hann setti sem lágmarksleigu fyrir hvern bát 2700 krónur auk prósentna. Hann setti 2500 krónur sem lágmarksgjald, og þar með fellur sú fullyrðing hv. síðasta ræðumanns, að hver hinna minni báta hafi greitt 2000 krónur í leigu á síðustu vertíð. Enn fremur velur kaupfélagið stærstu bátana úr, og raunin mun verða sú á næstu vertíð, að það verði aðeins stærri bátarnir, sem fái pláss þarna.

Eitt atriði er þó, sem hv. þm. A.-Sk. viðuzkennir, að sé ekki alls kostar réttmætt, en það er, að kaupfélagið skuli áskilja sér rétt til að selja aflann. Þetta atriði er hv. þm. kunnugt um, og ég er sannfærður um, ef hann hefði vitað hið sanna hvað öðru viðvíkur, þá myndi hann viðurkenna óréttlæti það, sem þarna á sér stað.

Ég vil taka það fram, að kaupfélagið hefur ekki getað séð um sölu fiskjarins eins og það ætti að gera, þar eð það áskilur sér rétt til þess að selja hann. Það sem sé áskilur sér þennan rétt, en vill ekki ábyrgjast söluna. Þegar svo fer, að kaupfélagið fær ekki skip, þá verða sjómennirnir að sitja auðum höndum og geta ekki farið á sjó, enda þótt útgerðarmennirnir gætu útvegað skip til að kaupa fiskinn. Á þessu sést, að hér er um sérstæð leigukjör að ræða. Kaupfélagið áskilur sér rétt til að selja aflann og nýtur fyrir það ekki minna en 3% umboðslaun, en útgerðarmönnunum er meinað að selja hann, þó að þeir eigi þess kost. Í frv. er bannað að slík fríðindi eigi sér stað.

Að endingu vil ég taka fram, að þetta frv. er ekki eingöngu fyrir Hornafjörð, heldur er það gildandi almennt. Það er sem sagt þannig, að þeir, sem eiga verstöðvar, eru óbundnir um það samkv. úrskurði húsaleigun. Reykjavíkur að hækka húsaleigu, enda hafa þeir allir gert það verulega og mundu sérstaklega gera það, þegar þeir sjá þetta góða fordæmi frá Hornafirði. Kaupfélagið í Hornafirði hefur fengið að taka eins mikið á hverju ári eftir vertíðina eins og eignarverð stöðvarinnar er, og þá sýnist ekki hart að kaupfélaginu gengið, þó að það ásamt öðrum yrði bundið með l. til að taka eitthvað lægri leigu eftir stöðina og hefði þar ekki jafnóbundnar hendur og áður.

Ég vil einnig geta þess, að nú að undanförnu hefur staðið yfir allsnörp deila milli austfirzkra útgerðarmanna og kaupfélagsins í Hornafirði í sambandi við komandi vertíð, og hefur helzt litið út fyrir, að þeir færu ekki suður vegna þeirra ókjara, sem þar eru, og hafa þeir beðið mig og fleiri að reyna að fá þar bót á ráðna. Við höfum farið samningaleiðina eins lengi og unnt hefur verið. Útgerðarmenn hafa boðizt til að borga a.m.k. helmingi hærri leigu en víðsvegar annars staðar þekkist, svo að ég tel ekki rangt farið að, þótt þessi lagaákvæði yrðu samþ. hér og síður en svo farið illa með þann aðila, sem hér hefur verið mest rætt um. Ég vil undirstrika, að þetta gildir um leigu í öðrum verstöðvum alveg eins og í Hornafirði og hér er ekki farið fram á neina ósanngirni, heldur það, sem flestir munu mæla, að sé sanngjarnt gagnvart útgerðarstöðvum yfirleitt.