07.12.1942
Efri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (3188)

18. mál, skógræktarstöðin í Hvammi í Dölum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil taka það fram, út af ummælum hv. þm. S.-Þ., að ég tel ekki þessa þáltill. vera neinn ágang við mig. Ég álit þvert á móti, að á bak við hana sé velvilji til okkar Dalamanna. En þó að viljinn sé góður, vantar kunnleik á högum öllum, svo að óvíst er, að hverjum notum þáltill. kæmi, ef hún væri samþ. í því formi, sem hún er í. Á henni eru ýmsir ágallar, en ég get verið stuttorður um þá, af því að till. fer til landbn., en þar á ég sæti.

Ég álít, að tilgangi till. megi eins ná með því að taka þann hluta af Hvammslandi, sem bezt er fallinn til skógræktar, t.d. 40–50 ha, og gera þar tilraunir til algerðrar friðunar, en taka helzt þá staði, þar sem kvistar eru fyrir. Hitt virðist allt um of í fang færzt, að gera allt Hvammsland skógi vaxið. Landið nær allt upp í háfjallgarð. Þarna er líka eitthvert bezta túnstæði í sýslunni og lítill ávinningur að gera það hrísi vaxið. Ég hygg, að allt eins heppilegt væri að hafa þarna fullkomna tilraunastöð á takmörkuðu svæði.

Samkv. till. virðist ætlunin sú, að jörðin verði tekin af kirkjujarðasjóði og lögð undir aðra stofnun. Við það yrði prestakallið prestsseturslaust og því verra til umsóknar. Á Staðarfelli verður að vera bústjóri, og veitir ekki af nytjum þar fyrir skólann og heimilið, sem þar er.

Ég hygg, að óráð sé að samþykkja till. eins og hún liggur fyrir. Það þarf að sneiða af henni og lagfæra hana.

Ég veit ekki, hvað hv. þm. S.-Þ. meinar með „skeifumynduðu landi“, hvort hann meinar, að Hofakur, sem er líka kirkjujörð, sé einnig tekinn undir skógrækt þessa. Það er skakkt, sem stendur í grg. tili., að séra Kjartan Helgason hafi ræktað björk. Aftur á móti voru hjá honum mikil og stór reynitré.

Ég vil að lokum skjóta því fram til athugunar, hvort stofnun skógræktarstöðvar í Dalasýslu gæti ekki farið sæmilega úr hendi með töluverðum breyt. frá þáltill. Hins vegar er ég á sama máli og hv. flm. um það, að þarna er land mjög vel fallið til skógræktar.