07.12.1942
Efri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (3195)

18. mál, skógræktarstöðin í Hvammi í Dölum

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Ég þarf aðeins að gera aths. við það, sem hv. þm. Str. sagði.

Ég held, að ekki verði hjá því komizt að breyta orðalagi þessarar till. til þess að tryggja það, að jörðin leggist ekki í eyði. Ég hygg, að ekki verði búið á nefndri jörð nema með því að hafa sauðfé, en það ætti ekki heldur að vera nein þörf á því að leggja alla jörðina undir skógrækt ríkisins.

Það er satt, sem hv. þm. Str. sagði, að það verða aldrei ræktaðir stórir bæjarskógar með því að kaupa til þeirra plöntur nema með geysimiklum tilkostnaði. Það verður því að kenna fólki að ala upp plönturnar heima hjá sér. Í þessum skógræktarstöðvum verða aldrei heldur aldar upp allar þær plöntur, sem þörf er á, heldur ættu þær miklu fremur að verða nokkurs konar skólar til þess að kenna fólki smám saman að ala sjálft upp plöntur. En slíkt er tiltölulega auðlært, þótt það sé allmikill vandi og menn verði að sýna mikla natni við það starf. En að lokum þetta. Það, sem aðallega vakir fyrir mér og hv. þm. Dal., er, að jörðin leggist ekki í eyði, en til þess að tryggja það álít ég, að nauðsynlegt sé að breyta orðalagi till.