22.01.1943
Neðri deild: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (3201)

107. mál, sala á jarðeignum ríkisins

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Efni þessa frv. er í aðalatriðum skýrt í grg., en það fjallar um að heimila ríkinu að selja jarðir sínar, bæði jarðeignir jarðakaupasjóðs og þjóð- og kirkjujarðir, að undanskildum þeim jörðum, sem um er getið í 2. gr. frv. Það hefur komið í ljós, eins og raunar vænta mátti, að meðan kreppan stóð yfir neyddust ýmsir bændur til þess að selja ríkinu fasteignir sínar. Það var ekki nema um tvennt að ræða fyrir þá, annaðhvort að selja jarðirnar einstaklingum og verða ef til vill að flytja burt af þeim um leið, eða að selja þær jarðakaupasjóði og sitja áfram með þeim kostum, sem í boði voru af hans hálfu. En nú hefur fjárhagur margra bænda batnað mjög, og hafa því komið fram margar óskir um það, að þeir gætu fengið jarðirnar keyptar að nýju með sömu kjörum og þær voru seldar. Við flm. þessa frv. sjáum ekki ástæðu til annars en að þetta sé heimilað, einkum þar sem við teljum tvímælalaust heppilegra, að jarðir séu í eigu ábúanda en að þær séu setnar af leiguliðum. Reynslan hefur líka sýnt það og sannað, að sjálfseignarjarðir hafa almennt verið miklu betur setnar en hinar. — Annars sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta að sinni, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn.