25.01.1943
Neðri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (3221)

107. mál, sala á jarðeignum ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Ég hef litlu að svara í þessu máli. Ég vil benda hv. 10. landsk., sem ef til vill vildi láta kalla sig öðru nafni, á það, að það er fjarri lagi, að það sé mest af jörðum, sem ríkið á í hans umdæmi. Það er rétt, ef meðaltalið er tekið eitt, en það er ekki rétt, ef sýslan er tekin í heild. Þá hafa margar sýslur eins og t.d. Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla, Suður-Múlasýsla o.fl. meira af opinberum jörðum en Vestur-Skaftafellssýsla.

Ég vil benda á það, að ég þarf engu að svara hv. 7. þm. Reykv. öðru en því, að síðan ég talaði seinast, hafa tveir hv. þm. Sjálfstfl. talað og samþ. með þögninni þau flokkssjónarmið, sem hv. þm. lýsti og ég drap á viðvíkjandi þeim kröfum, sem knýr flokkinn til að vera með styrkjum.

Þá vil ég benda á það viðvíkjandi dæminu, sem hv. síðasti ræðumaður, þm. A.-Húnv., tók um fasteignamatið, að hann nefndi það ekki, að síðasta mat væri lægra en matið 1930, heldur gat hann um undanfarandi mat. Annars skal ég ekki fara meira út í það. Viðvíkjandi matinu, sem hann gat um á jörð í N.-Ísafjarðarsýslu, vil ég taka það fram, að það var mat héraðsnefndarinnar, sem hann kærði yfir, en það var of lágt vegna þess, að það var byggt á röngum upplýsingum frá ábúanda jarðarinnar sjálfum, og hefur nú verið leiðrétt af yfirmatsn. Fyrra matið var einnig byggt á útvegsmöguleikum, sem þá voru fyrir hendi, en eru nú horfnir. Annars þarf ég ekki að svara þessu frekar.

Ef svo skyldi fara, sem ég vænti, að ekki verði, að þetta frv. fari til 2. umr. og landbn., þá sé ég mér ekki annað fært en að koma fram með brtt. við það á síðara stigi málsins. Ég tel rétt að skylda þá, sem eiga margar jarðir, til þess að selja ábúendum þær með matsverði, en skylda svo aftur ábúendurna til að gera þær að ættaróðulum. Ég mun leggja til að skylda þá kunningja Gísla Sveinssonar, sem eiga margar jarðir, sumar leigðar og aðrar ekki, til þess að selja þær með matsverði, og ég mun leggja til, að maðurinn, sem á 24 jarðir og leigir þær út með okurleigu, verði skyldaður til að selja ábúendum þær með matsverði og láta laxveiðina fylgja. Þegar svo þessar brtt. eru fram komnar við frv. og því þannig breytt, hlakka ég til að sjá, hvern byr það fær í þinginu.