30.11.1942
Neðri deild: 7. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (3233)

5. mál, hafnarskilyrði á Þórshöfn

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. — Þessi till. til þál. er á þskj. 5 og fjallar um það, að rannsókn verði til fullnaðar gerð um skilyrði til hafnargerðar á Þórshöfn. Hafnarskilyrði á Þórshöfn voru nokkuð rannsökuð sumarið 1935, og var þá dýpi hafnarinnar mælt og hafnarstæðið kannað. Síðan voru sett l. um hafnargerð á Þórshöfn, og voru framkvæmd hafnarmannvirki þar síðustu árin fyrir stríðið fyrir — ef ég man rétt — um 100 þús. kr. Þarna er nú brimbrjótur og hafnarbryggja, sem minni skip geta legið við, svo sem stærri vélskip og togarar. Þetta hefur orðið til mikils hagræðis í seinni tíð. M.a. hafa fisktökuskip, sem tekið hafa fisk í ís, getað afgreitt sig við bryggju.

En úti fyrir höfninni er blindskerjagarður, sem stærri skip komast ekki yfir nema um háflóð. Afleiðing af því er sú, að ekki geta nema minni skip komizt þar út og inn, hvenær sem er. Þegar hafnarskilyrðin voru athuguð 1935, virtist sérfræðingi þeim frá vitamálaskrifstofunni, sem hafði þessa rannsókn með höndum, þessi skerjagarður vera klöpp og illa vinnandi og taldi því ekki á því stigi málsins fært að ráðast í að sprengja skarð í skerjagarðinn. Síðan mun hafa komið í ljós, þegar brimbrjóturinn var gerður, að undirstaða hans, sem ýmislegt hafði bent til, að væri klöpp, var það ekki, heldur laust grjót, sem aftur gefur hugboð um, að svo geti einnig verið um blindskerjagarðinn, að í honum sé ekki klöpp, heldur laust grjót. Hér í þessu frv. er farið fram á, að þetta verði athugað nánar og með fullkomnari tækjum heldur en fyrir hendi voru 1935, þegar hafnarskilyrði voru rannsökuð á þessum stað. Ég hygg, að vitamálastjóri hafi nokkurn áhuga á því að láta þessa athugun fram fara.

Í grg. frv. er nokkuð að því vikið, hver útgerðarskilyrði eru á þessum stað, og skal ég ekki að svo komnu fara nánar út í það.

Vænti ég, að mál þetta fái greiða afgreiðslu hér á hæstv. Alþ. og að því verði vel tekið. Það hefur verið ákveðið, að tvær umr. skuli vera um málið, og vil ég leggja til, að því verði að þessari fyrri umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.