18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (3242)

109. mál, virkjun Fossár í Ólafsvíkurhreppi

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Í kauptúnunum Ólafsvík og Hellissandi ásamt Fróðárhreppi eru nú um 1000 íbúar. Þarna er talsverð útgerð og tvö hraðfrystihús. Þarna vantar hins vegar alla raforku til almenningsafnota og til rekstrar hraðfrystihúsanna. Fyrir tveimur árum var gerð rannsókn á möguleikum til að virkja fossá, og liggur nú fyrir nákvæm áætlun um virkjun þessa. Það hefur sýnt sig, að þessi á liggur sérstaklega vel við og er mjög heppileg til virkjunar. Samkvæmt áætlun mun kostnaður við virkjunina, þ.e.a.s. við orkuverið og háspennulínurnar, nema um 11/2 millj. kr. Lágspennukerfið mun svo kosta um 200 þús. kr.

Ætlazt er til, að þarna verði reist 1000 hestafla stöð, en úr ánni má hins vegar vinna allt að 2000 hestöfl. Rafmagnseftirlit ríkisins telur, að hagstætt sé með núverandi verðlagi að virkjunarkostnaður fari ekki fram úr 1500 kr. hvert hestafl.

Á þinginu í sumar flutti þáverandi þm. Snæf. frv. í þessa átt, um ríkisábyrgð fyrir láni til virkjunar á Fossá, og var það sent til fjvn., en það kom þaðan ekki aftur.

Á þessu þingi hafa verið flutt nokkur frv. um virkjanir, t.d. Andakílsár í Borgarfirði, Fljótaar og Tungufoss, og er þetta frv. þeim frv. mjög shlj.

Hér hef ég farið fram á, að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs allt að 1100 þús. kr. lán fyrir Ólafsvíkurhrepp og Neshrepp til rafvirkjunar að meðtöldum háspennulínum og afspennistöðvum.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta, en legg til, að þessu frv. verði, að lokinni 1. umr., vísað til 2. umr. og fjhn., sem væntanlega sendir það Rafmagnseftirliti ríkisins til umsagnar.