04.12.1942
Neðri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (3243)

15. mál, hafnargerð í Bolungavík

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Þáltill. þessi á þskj. 19 stefnir að því, að hafnarmál Bolvíkinga séu tekin til athugunar að nýju og hafinn undirbúningur framkvæmda á breiðar í grundvelli en áður hefur verið. Áður en ég ræði um nauðsyn þessa máls, vil ég drepa á nokkur atriði í sögu hafnarmála í Bolungavík.

Árið 1911 er fyrst hafizt handa um að koma upp brimbrjót í Bolungavík. Hann mun nú vera orðinn 156 metrar að lengd. Árið 1909 er samþ. fyrsta fjárveitingin til mannvirkisins, 1000 kr. Árið 1913 er samþ. 20 þús. kr. fjárveiting gegn jafnmiklu framlagi annars staðar að. Segja má, að frá árinu 1911 hafi verið unnið óslitið að mannvirki þessu, og hefur ríkissjóður veitt til þess rúmlega 300 þús. kr., en úr hreppssjóði Hólshrepps hafa verið lagðar fram 230 þús. kr. Heildarupphæðin er því nokkuð á sjötta hundrað þús. kr. Ég tel ekki þörf að rekja sögu málsins nákvæmlega, en á það má þó drepa, að í framkvæmd verksins hafa verið stigin nokkur víxlspor, sem að vísu má réttlæta með því, að þetta var einhver fyrsta hafnargerð, sem í var ráðizt hér á landi. Má segja, að þessi víxlspor hafi orðið mikilvæg fyrir þjóðina í heild, því að með þeim hefur hún öðlazt reynslu, sem að gagni hefur komið. En aðstaða til hafnargerðar var þarna örðug, því að þetta mannvirki varð að reisa fyrir opnu hafi, en þarna er stórbrimasamt, eins og kunnugt er.

Þó að nú sé svo komið, að í Bolungavík sé 156 metra brimbrjótur, er auðsæ nauðsyn, að lengra verði haldið. Bolungavík er ein mesta verstöð vestan lands, þó að nokkuð af útgerð hafi flutzt þaðan til annarra staða, einkum að því er hin stærri skip snertir. En þessi brottflutningur er því að kenna, að hafnarskilyrði eru ekki góð. Með 156 metra brimbrjót er ekki hægt að gera út stærri skip en 8–10 smálesta vélbáta. Brimbrjóturinn nær ekki lengra en svo, að þegar ókyrrt er í sjó, er ekki hægt að leggla skipum við hann. Þá er ekki heldur hægt að hafa bátana á víkinni innan við hann, því að þar brýtur sjóinn, og verður því að setja þá eftir hverja ferð. En ef sæmilegar gæftir eru, má hafa bátana á floti við brimbrjótinn. — Eins og af þessu sést, er útgerð í Bolungavík þröngur stakkur skorinn, ekki sízt þegar þess er gætt, að þróun í útgerðarmálum okkar hefur meir og meir farið í þá átt að fjölga stærri skipunum. Bolvíkingar hafa því orðið að standa í stað eða dragast jafnvel aftur úr í þeirri þróun. Þetta er hörmuleg staðreynd. Bolvíkingar hafa jafnan átt allt undir sjósókninni, og svo er enn. Ef þeir eiga að geta haldið áfram að reka útgerð, þá getur það ekki orðið með öðrum hætti en þeim, að þeir fái að sækja sjó við svipuð skilyrði og þau, sem tíðkast annars staðar á Vestf jörðum. Þá er að spyrja: Eru möguleikar til þess, að þetta geti orðið? Ég vil ekki fullyrða of mikið, en leyfi mér þó að benda á það, að fyrir liggja vísindalegar rannsóknir um þetta. Það mun vera skoðun verkfræðinga, sem þetta hafa athugað, að mikið megi gera til þess að bæta hafnarskilyrði í Bolungavík. Árið 1939 mun hafa farið fram síðasta endurbót og viðgerð á brimbrjótnum, og hefur hann síðan staðið óhaggaður þrátt fyrir mikil brim. Þetta er því að þakka, að reynsla sú, sem áður hafði fengizt, hefur verið hagnýtt eftir föngum. Nokkru áður hafði verið lagt grjót utanvert við brimbrjótinn til að varna því, að undan honum græfist og missig yrði á honum, og var jafnframt steypt steinsteypulag ofan á fremsta hluta grjótsins. Dýptarmælingar hafa sýnt, að við enda brimbrjótsins er 3 m dýpi, sem helzt 70–80 m fram af honum. Botninn er þar fastur og gott bryggjustæði. Fyrir innan brimbrjótinn er nokkru grynnra, en þó mun vera tiltölulega auðvelt að dýpka bátalægið þar.

Ég ætla ekki að fara að bollaleggja um það, hvaða framkvæmdir muni vera heppilegastar til þess að skapa Bolvíkingum sæmileg hafnarskilyrði, en samkvæmt áætlun verkfræðinga mundi verða mikil bót að því að lengja brimbrjótinn um 70–80 m. Enn fremur mætti verða mikil bót að því að koma upp nýjum bryggjum fyrir innan, við Vikurbotninn, því að þegar þangað er komið, hefði sjór allur brotnað á öldubrjótnum sjálfum, og gætu þá bátar haldizt þar við að jafnaði. En aðalatriðið er, að þegar sé hafizt handa um að athuga þetta mál og gera áætlanir um framkvæmdir, eins og farið er fram á í þessari þáltill., og væri þá fyrsta stigið að fá umsögn vitamálastjóra um það, hvernig hentugast væri að haga framkvæmdum.

Ég held, að ég þurfi ekki að fjölyrða um það, að Bolungavík er staður, sem getur átt sér mikla framtíð, og mér er óhætt að segja, að Bolvíkingar byggja miklar vonir á því, að hv. Alþ. taki vel þessari málaleitun. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að í Bolungavík hefur verið lagt talsvert kapp á að afla nýrra framleiðslutækja. Bátasmíðar hafa að vísu ekki orðið eins miklar þar og sums staðar annars staðar, en þar hefur verið komið upp stóru hraðfrystihúsi og einnig verksmiðju til vinnslu úr fiskbeinum.

Ég vil að lokum óska þess, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. sjútvn.