02.04.1943
Neðri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (3269)

122. mál, tímarit til rökræðna um landsmál

Jón Pálmason:

Herra forseti. — Frsm. minni hl. hefur nú haldið hér langa ræðu og komið víða við í sambandi við þetta mál. Væri ekki nema sanngjarnt, að ég viki að nokkru að þeim atriðum, sem hann talaði um, og skal ég víkja að þeim athugasemdum, sem hann hafði að gera við einstakar greinar þessa máls.

Honum þótti það athugavert, að í þessu fyrirhugaða riti ætti ekki aðrir flokkar að hafa leyfi til að birta ritgerðir en þeir, sem hafa 3 fulltrúa á þ. Ætlun okkar flm. er sú, að þetta rit verði til þess að rökræða stjórnmál meðal þeirra flokka, sem hafa fylgi í landinu, og við teljum að stjórnmálaflokkar eigi ekki verulegt fylgi, ef þeir geta ekki komið að þrem fulltrúum eins og nú er háttað. Hann var að tala um, að það gæti verið flokkar, sem ekki kæmu neinum fulltrúa að, og að þeir, sem ættu fæsta fulltrúa hefðu mesta þörf fyrir þetta rit. Ég held, að það sé viðurkennd regla, ekki einasta hér á landi, heldur úti um heim, að því fleiri sem stjórnmálaflokkarnir eru í einu landi, því minni líkur eru til, að lýðræðið fái að njóta sín, og einmitt með því að gera smáu flokkunum auðveldara að berjast fyrir skoðun sinni, eru meiri líkur til, að það verði meira um myndun nýrra flokka en nú er. Ég álít, að það eigi fremur að setja skorður við myndun nýrra stjórnmálaflokka, heldur en að gera þeim auðveldara fyrir með því að ýta undir það, að þeir komi skoðunum sínum á framfæri. Þessi athugasemd hv. frsm. minni hl. er því að mínu áliti lítils virði.

Þá talaði hann um í sambandi við 2. gr., að það gilti meira, hvaða efni ritgerðirnar hefðu að geyma, sem birtust í þessu riti, en hvað þær væru langar: Þetta er regla, sem á við um allar ritgerðir og allar ræður, hvar sem þær eru fluttar, en í þessu tilfelli, sem hér um ræðir, eru það stjórnmálaflokkarnir, hver í sínu lagi, sem bera ábyrgð hver á sinni ritgerð, og ef þeir nota meira rúm en þörf er á til að setja fram skoðun sína, kemur það þeim í koll, en sá, sem getur komið mestu efni í sem minnst mál, nýtur sín að öðru jöfnu hefur í þeim rökræðum, sem hér um ræðir.

Þá er frsm. minni hl. að víkja að því, að athugavert sé, að ritn. sé skipuð einum manni frá hverjum stjórnmálaflokki, og sagði, að meiri hl. gæti þá komið í veg fyrir, að eitthvert mál væri tekið til umr. í ritinu, þótt minni hl. óskaði þess mjög fastlega. Það er svo, að samkvæmt þeim reglum, sem upp eru settar í þessu frv., er gert ráð fyrir, að algert jafnrétti ríki milli þeirra flokka, sem fá ritgerðir birtar í ritinu, sem kemur út 4 sinnum á ári, og að meiri hl. ritn. fari að bola einhverjum af þessum flokkum frá því að taka þátt í þeim rökræðum, sem hér um ræðir, þykir mér mjög ólíklegt. Hitt er svo annað mál, og ekki með öllu óhugsandi, að meiri hl. gæti ákveðið gegn vilja minni hl., að einhver deilumál yrðu tekin til umr. í ritinu, en önnur látin víkja, sem mætti telja að væru meira aðkallandi. Þetta atriði er til athugunar, og er ekkert því til fyrirstöðu, að það verði athugað, ef það gæti orðið til þess, að fyllra jafnrétti gilti í þessu efni, því að það er tilgangurinn. Þá var ræðumaður að tala um, að það væri lítil ábyrgð á hendur flokkunum, að því er snerti meiðyrði og annað, sem sagt væri. Út af fyrir sig held ég, að ekki sé hætt við þessu, en ef kröfur koma fram á hendur ritinu fyrir eitthvað, sem er illa sagt, virðist mér eðlilegt að taka það svo, að hver sá flokkur, sem stendur að því, beri ábyrgð gagnvart ritinu, en ekki það í heild sinni. Ég held því, að þessi athugasemd sé lítils virði.

Hann var að tala um, að kjósendur væru fleiri en heimilisfeður í landinu, og væri mótsögn í því, að ekki ætti að senda ritið til fleiri en þeirra, sem hefðu yfir heimili að ráða. Það er vitanlegt, að á hverju heimili eru fleiri kjósendur en heimilisfaðirinn, en það er gert ráð fyrir því, með þetta rit eins og stjórnmálablöðin, sem send eru inn á heimilin, að allir heimilismenn hafi aðgang að því. Þessi athugasemd held ég því, að hafi ekki við nein rök að styðjast.

Þetta eru þær einstöku athugasemdir, sem frsm. minni hl. hafði að flytja um einstakar gr. frv., en hinar almennu athugasemdir, sem hann eyddi svo að segja öllum sínum ræðutíma í, eru náttúrlega miklu meira virði, og valda því, að hve miklu leyti menn geta hallazt að því, sem þar er flutt.

Eins og ég veik að við 1. umr., er tilgangur okkar flm. sá, að með þessu sé hægt að koma í veg fyrir, að stjórnmálabaráttan verði jafn siðlaus og áður og með því sé reynt að koma því til leiðar, að fólk fái sem réttastar upplýsingar um afstöðuna til þeirra höfuðdeilumála, sem uppi eru á hverjum tíma. Ræðumaður eyddi miklu af ræðutíma sínum í að ræða þá miklu hættu, sem stafaði af því, ef farið yrði að ræða trúarbrögð í þessu riti. Það er nú tekið fram í 1. gr. frv., að þetta á ekki að vera neitt trúmálarit, svo að hættan er ekki mikil, og þegar síðari ræðumaður var að halda sinn trúmálafyrirlestur áðan, var ég satt að segja ekki grunlaus um, að eitthvað væri laust í heila hans, sem ekki hefði verið laust áður, því að mér fannst hann vera að halda fyrirlestur um efni, sem kom málinu ekki neitt við, og átti engan veginn heima í sambandi við það. Hitt er svo annað atriði, sem hann veik að í sinni ræðu, að það gæti verið hættulegt að stofna til svona útgáfu, því að það gæti auðveldað glæframönnum að koma skoðunum sínum út meðal þjóðarinnar, og þarna kemur hv. þm. að atriði, sem vel ber að tala um og stendur í beinu sambandi við það, hvernig ber að haga stjórnmálabaráttunni á komandi tímum. Ég er ekki svo trúaður á það, að það sé eðlilegt eða hægt að koma í veg fyrir, að þessir flokkar geti flutt mál sitt meðal þjóðarinnar, en ég hef svo mikla trú á málstað þess flokks, sem ég fylgi, að ég vit heldur hafa tækifæri til þess að ræða þau mál, sem uppi eru á hverjum tíma, vitandi, að fólkið gæti fylgzt með því, heldur en að vita, að svo og svo mikið af óhróðri fari út meðal fólksins, án þess að honum verði nokkurn tíma svarað.

Frsm. minni hl. játaði afdráttarlaust, að ritháttur íslenzkra blaða væri þannig á síðari árum, að af því stafaði hætta fyrir stjórnarfar okkar. Það er ekkert undarlegt, þó að þm. játi þetta. Það er á almanna vitorði, en það er líka á allra vitorði, að margir sjá ekki nema einstök blöð, og það kemur mér sízt á óvart, þó að fulltrúum Framsfl. sé í nöp við rit, þar sem allir flokkar eiga að geta komið fram sínum röksemdum, því að mér vitanlega hefur enginn flokkur gengið eins langt eins og Framsfl. í því að reyna að útiloka blöð og rit annara flokka en sín eigin, og þess vegna er eðlilegt, að menn úr þeim flokki vilji halda þeirri aðstöðu að geta haldið fjölda fólks frá því að sjá nokkur önnur pólitísk rit en þau, sem þeir gefa út. Ég skal ekki segja um, hvort það er nokkuð fleira, sem kemur til greina hjá ræðumanni, og skal ekki segja, að svo geti ekki farið, að ýmislegt verði ekki rétt, sem í þessu riti verður sagt, en sá er munurinn, að það eru möguleikar til þess fyrir hvern stjórnmálaflfokk, sem hlut á að máli, að svara þannig, að hver kjósandi í landinu hafi tækifæri til þess að sjá málið flutt frá öllum þeim hliðum, sem baráttuaðilar standa að.

Síðasti ræðumaður sagði eitthvað á þá leið, að blöðin gerðu allt of lítið að því að birta leiðréttingar, þegar sannað væri, að þau færu með rangt mál, og hann telur, að bóta sé þörf á því sviði. Þarna tel ég, að frsm. minni hl. játi, að við erum að fara inn á línu, sem hann telur nauðsynlegt, að farið sé inn á, því að það er á engan hátt hægt að fá betra tækifæri til þess að koma að leiðréttingum heldur en með því, að hver einasti heimilisfaðir á landinu fái skýrslu um það, hvaða afstöðu hver stjórnmálaflokkur hefur til deilumálanna, og geti dæmt um það. Þá er ekki eins mikil hætta á blekkingum frá öðrum aðilanum.

Ég vil benda frsm. minni hl. á það, að hann er ekki í samræmi við sjálfan sig, þegar hann talar um, að það sé of lítið að miða við, að flokkur eigi 3 fulltrúa á þingi, en að hinu leytinu er hann hræddur um, að flokkar fengju tækifæri til þess að birta skoðanir sínar í þessu riti. Það sjá allir, að hér er um mótsögn að ræða, því að öruggasta tryggingin fyrir því, að vandræðamenn í pólitískum efnum fái ekki komið skoðunum sínum að í ritinu, er sú, að svo sé um búið, að flokkarnir verði að hafa ákveðið fylgi til þess að verða þátttakendur.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að taka fram varðandi þau atriði, sem frsm. minni hl. hefur hér flutt. Mér virðist allar þær röksemdir, sem hann flutti vera þess eðlis, að þær komi málinu ekki við eða þær voru byggðar á misskilningi á þeim hugmyndum og tilgangi, sem fyrir flm. þessa frv. vakir til úrbóta á því slæma ástandi, sem hefur ríkt í þessu efni meðal íslenzku þjóðarinnar á undanförnum árum.