02.04.1943
Neðri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (3270)

122. mál, tímarit til rökræðna um landsmál

Pétur Ottesen:

Það getur nú náttúrlega vel farið svo fyrir mér eins og frsm. minni hl. að dómi fyrsta flm. þessa frv., að ég geti heldur ekki með neinum rökum mælt neitt á móti því, sem í þessu frv. stendur, hvorki hvað snertir efni þess eða form, því að það er helzt á flm. að skilja, að eiginlega væri ekki hægt að segja neitt til að andmæla þessu frv., a.m.k. ekki að hans dómi. Frsm. minni hl. hefur reifað þetta mál, að því er mér virðist, mjög ýtarlega, og gerði grein fyrir því, hvernig það kemur honum fyrir sjónir. mér virðist, að frv. það, sem hér liggur fyrir, hafi ákaflega litlar líkur til að ná tilgangi, sem flm. þess ætlast til, að það geti náð, sem mér skilt vera að koma á framfæri betur en nú er mismunandi stjórnmálaskoðunum eða mismunandi afstöðu til deilumála, bæði á Alþ., í blöðum og tímaritum og á mannamótum, og greiða götu almennings til skilnings á þessu, og svo hitt, að þetta eigi að vera til stórra úrbóta frá því, sem nú er í þessum efnum, og það er alveg rétt og verður að viðurkennast alveg fullkomlega, að því er snertir málflutning og ekki sízt í blöðum og tímaritum, að honum er mjög áfátt, og mælir því enginn gegn, en að þetta frv., sem hér liggur fyrir geti orðið til þess að bæta úr því, það get ég engan veginn skilið. Hér er gefið út mikið af pólitískum blöðum og tímaritum, og það heldur vitanlega áfram þrátt fyrir þetta tímarit, eins og verið hefur. Svo er annað það, að hvað þetta tímarit snertir, eru nokkrar líkur til, að hið sama verði uppi á teningnum, þegar flokkarnir fara að velja menn bæði í ritnefnd og til þess að skrifa greinar í það. Ætli þeir mundu ekki velja sína sterkustu áróðursmenn, eins og þeir velja þá nú til að standa fyrir blaðaskrifum og tímaritaskrifum, sem er háttur allra flokka? Ég sé ekki, að útgáfa þessa tímarits stefni að öðru en að bæta við og auka í þessu efni pólitískan reipdrátt, pólitísk slagsmál og pólitískt rifrildi í landinu, og það er gert ráð fyrir því beinlínis, að í þessu riti á ekki að ræða neitt nema deilumál milli flokkanna. Nú er það vitað, að þrátt fyrir togstreytu flokkanna er margt, sem betur fer, sem þeir geta sameinast um og stefnir til umbóta í þessu landi, en mer skilst, að allar umræður um það eigi að vera útilokaðar í þessu tímariti, því að það er skýrt tekið fram, að hér á eingöngu að ræða um það, sem er deilt um og er ágreiningur um milli flokkanna, svo að ég sé ekki annað en að með þessu tímariti sé eingöngu stefnt inn á rifrildisbrautina. Ég álít nú, að það sé nóg af rifrildi í landi okkar og ekki beinlínis ástæða til að auka málflutninginn á þeim grundvelli. Við höfum áreiðanlega haft nóg af slíkum málflutningi, þótt ekki hafi verið sett nein opinber ákvæði til þess að stofna til og undirbúa rifrildi í landinu, eins og beinlínis er gert með ákvæðum þessa frv., ef það verður samþykkt í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir.

Frsm. meiri hl. fór inn á ýmis ákvæði í þessu frv., sem segja má. að séu beinlinis furðuleg. Að því leyti, sem tilgangur þessa frv. er sá að koma á framfæri við fólkið mismunandi við horfum stjórnmálaflokka til landsmála, er byrjað á því strax í 2. gr. að útiloka þar stjórnmálaskoðanir þess flokks eða þeirra flokka, sem ekki eru lengra komnir í því að byggja upp sína stefnu í landinu en það, að þeir séu búnir að koma því þannig fyrir, að þeir eigi 3 fulltrúa á Alþ. Við þurfum ekki að fara langt aftur í að rekja sögu stjórnmálaflokkanna til þess að sjá, hvernig þeir hefðu verið staddir, ef þetta rit hefði verið til fyrir 20–30) árum. Þá átti Alþýðuflokkurinn lengi einn fulltrúa á Alþingi. Hann hefði ekki mátt koma einni línu inn í þetta rit. Sósíalistaflokkurinn var lengi ekki liðsterkur á þ., og ég vil sérstaklega benda hv. þm. A.-Húnv. á það, af því að ég veit, að hann vill mjög eindregið hlúa að öllum þeim málflutningi, sem getur orðið til hagsbóta í dreifbýli þessa lands og í sveitunum, að t.d. Bændaflokkurinn hefði ekki getað komizt að með einn einasta staf. Hann átti lengi 3 fulltrúa á þingi, en síðan ekki nema 2, og þegar svo var komið, hefði átt að útiloka hann frá að birta ritgerðir í þessu riti, en vitanlega ætti hann sömu áhugamálin fyrir því, þó að hann missti einn fulltrúa. Það er mikið talað um það hér í þessu frv. að jafna upp á milli stjórnmálaflokkanna og það er farið svo nákvæmlega í það, að það á ekki einasta að telja orðin, það á að telja stafina, til þess að ekkert hallist á að því er lengd ritgerðanna snertir. Það er ekki hægt að setja nein ákvæði um það beinlinis í lagaformi, hve kjarnyrtar greinarnar megi vera. Það fer eftir rithæfni þess manns og hæfileikum, sem á að standa fyrir skrifum þessum af hálfu hvers flokks, en mér skilst þó, ef ekkert á að gera upp milli flokkanna, gæti þó út af borið. Það er einmitt gert ráð fyrir, að birtar verði greinar eftir aðra aðila. Það er nú æðsti valdsmaður landsins. Við skulum ekki gera ráð fyrir, að hann skrifi út frá pólitísku sjónarmiði. Það á einnig að birta ávörp, sem ráðherrar flytja. Það eru engar takmarkanir á því, hve oft þeir flytji ávörp. Það fer alveg eftir því, hvað oft þeir vilja komast að í útvarpi og víðar til þess að tala við þjóðina. Nú getur vel komið til, — og það er eðlilegt —, að skipulag flokkaskiptingarinnar verði þannig, að til verði raunverulegur meiri hl. Við skulum segja, að svo stæði á. Ætli það gæti ekki farið að hallast á í þessu riti, miðað við stærð þess, um málflutninginn, eins og hann kæmi fyrir þjóðina, þegar eins og 3—4–5 ráðh. gætu tekið svo og svo mikið af rúmi þess til þess að koma á framfæri við þjóðina rökstuðningi fyrir þeim stefnumálum, sem þeir berðust fyrir og auðvitað í samræmi við stefnu þess flokks, sem ræður meiri hl. á Alþ. og skipar menn í stj. Ég held, að þetta sé ekki nægilega athugað í sambandi við þessa gullvog, sem á að vega það, að ekkert hallist á um aðstöðu stjórnmálaflokkanna í landinu, sein eiga aðgang að þessu tímariti. Það er tekið skýrt fram, að aðrir stjórnmálaflokkar en þeir, sem eiga 3 fulltrúa á Alþ., geti ekki átt þess nokkurn kost að koma greinum í þetta rit, en svo ég haldi mér við 2. gr. frv. og fari ekki út fyrir hana, þá er í henni stofnað til þess, að það jafnvægi, sem þar er gert ráð fyrir, geti raskazt, því að þar er ákveðið, að það sé ritn., sem skipuð er einum manni úr hverjum stjórnmálaflokki, og hún á að dæma um það, hvort ritgerðirnar séu birtingarhæfar. Nú skulum við hugsa okkur, að meiri hl. ritn. gæti komið sér saman um það, að sá stjórnmálaflokkur, sem hefði sérstöðu í einhverju, skyldi ekki fá tækifæri til þess að koma sínu máli á framfæri, þá gæti meiri hl. sagt, að ritgerðin væri ekki birtingarhæf, og þar með er honum opnuð leið til þess að útiloka að meira eða minna leyti þátttöku þess flokks í deilum í tímaritinu. Ég vil benda á þetta og verð að telja það mikið missmíði á frv., þegar verið er að tala um, að ekki eigi að halla á stjórnmálaflokkana Um málflutning í þessu tímariti.

Mér skildist, að l. flm. þessa frv. vildi gera lítið úr því, sem frsm. minni hl. sagði um það, að ef til vill gætu trúmál eða greinar um trúmál komizt inn í þetta tímarit. Hv. 1. flm. þessa frv., þm. A.-Húnv., áleit þetta hreinustu fjarstæðu, því að enginn stjórnmálaflokkanna hefði neitt á stefnuskrá sinni um þau mál. Hér er verið að búa til löggjöf, sem vitanlega tekur ekki einungis til yfirstandandi tíma. Það veit enginn, hvað fyrir kann að koma í þessu efni, þó svo að það standi hér í 1. gr., að tilefnið til þess, að þetta tímarit er gefið út, sé meðferð mála á Alþ., þá veit ég ekki, hver á að útiloka, að trúmáladeilur komi upp á Alþingi. Þess vegna er það ekki nein fjarstæða, sem frsm. minni hl. sagði, að forðast yrði að deila um trúmál. Það er ekkert, sem útilokar það, að þessar deilur geti komið upp og það eru allar dyr opnar til þess, að svo megi verða.

1. flm. þessa frv., hv. þm. A.-Húnv., færði það fram, að því er mér virtist sem ástæðu með því, að útilokaðir væru menn frá minni flokkunum frá því að koma sínum málum á framfæri, að það væri svo ákaflega hættulegt, að margir flokkar yrðu í landinu, og þess vegna væri ekki ástæða til að ýta undir það, með því að litlir flokkar kæmu að málum sínum í þessu efni. Við getum náttúrlega verið sammála um það, að ekki sé heppilegt, að margir flokkar starfi á hverjum tíma. Vitanlega leiðir af því glundroði og því meiri, sem meira ber á milli hjá flokkunum, og erfiðleika um samkomulag vegna þess, að efnin eru misskipt í þjóðfélaginu. En hitt er athugandi, hvort þetta er leiðin til þess að koma í veg fyrir, að margir flokkar rísi upp í landinu. Mér skilst, að aðaltilgangurinn, sem þetta frv. byggist á, sé að þroska dómgreind hjá almenningi í landinu. Því að hvaða hagur gæti verið í því að koma á framfæri mismunandi skoðunum, ef það væri ekki til þess, að dómgreind sú, sem er hjá almenningi, fái notið sín. Úr því að hv. 1. flm. byggir á dómgreind manna í landinu, hvers vegna á dómgreindin ekki að geta notið sín gagnvart skoðunum litlu flokkanna eins og stóru flokkanna'? Hitt getur svo verið mjög tvíeggjað gagnvart flokkaskiptingunni og afstöðunni til flokkaskipunarinnar, ef verið er að setja ákvæði inn í löggjöfina, sem fela það í sér, hverja skoðun einstakir menn kunna að hafa á dómgreind almennings í landinu. Ég held, að það séu nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort útiloka eigi litla flokkana frá því að komast að í slíku tímariti, og hvort það eigi nokkurn þátt í því að útiloka það, að margir stjórnmálaflokkar rísi upp í landinu. Mér skilst, að það geti brugðið til beggja vona, ef það er tilgangurinn, eins og það virðist vera hjá 1. flm. frv., hv. þm. A.-Húnv.

Það er enn fremur talað um það hér í 2. gr., svo að ég víki enn að henni, að öllum hliðstæðum stjórnmálaflokkum í landinu sé gefinn kostur þess að fá í sama hefti birtar ritgerðir. Það á að skapa þeim öllum sömu aðstöðu í þessu tímariti. Ég veit ekki, hve mikið 1. flm. leggur í hliðstæða stjórnmálaflokka. Það má leggja í það ýmsa mismunandi merkingu, því að það er náttúrlega vitað, að skoðanir þessara flokka eru ekki hliðstæðar, því að þar ber margt á milli. Ég bendi aðeins á þetta í samræmi við þá gagnrýni, sem ég hef komið hér fram með í sambandi við þetta frv. Ég held þess vegna, ef menn vildu gera ráðstafanir, sem einhvers mætti vænta af til þess að ráða bót á því, sem áfátt er í málflutningi stjórnmálaflokkanna í baráttu þeirra í blöðum og tímaritum, sérstaklega í blöðum, sem mjög mikið er gefið út af, þá sé miklu nær að gefa ekki út nein flokksblöð, heldur flyttu þá flokkarnir í einu og sama blaðinu fram skoðanir sínar. Það er vitanlega allt annað að vera með slíkri breyt. en að fara að bæta við, eins og málflutningurinn er í flokksblöðunum.

Svo er nú gert ráð fyrir, að það eigi að fara að setja upp sérstakt póstflutningakerfi í viðbót við það, sem fyrir er, til þess að koma þessu tímariti á framfæri við almenning. Það er gert ráð fyrir, að það fari eftir þeim leiðum, sem aðrar póstsendingar fara nú í í landinu á næstu höfn eða póstbílaafgreiðslu, en svo eigi bæjarstjórnir og hreppsnefndir að taka við þar og koma svo þessu riti, að því er mér skilst áleiðis. Þetta er nú náttúrlega ákaflega óheppilegt fyrirkomulag, og mjög vafasamt raunverulega, hvort það dregur nokkuð úr kostnaðinum við útsendingu ritsins, þó að kostnaðinum sé skipt niður á fleiri aðila. Ég held, að það sé kostnaðarminnst að láta það fara áfram eftir sömu leiðum alveg til enda, eins og aðrar póstsendingar fara nú, og vera ekkert að blanda hreppsn. inn í þetta. Ég held, ef nauðsynlegt þætti að létta undir með ríkissjóði með þetta, að heppilegra væri að leggja nýja skatta til þess.

Í 6. gr. er gert ráð fyrir, svo að ég drepi lítið eitt á framkvæmdaratriði að því er þetta snertir, að verzlunarfyrirtæki, sem rekin kunna að vera af ríkinu, birti auglýsingar í þessu tímariti, og er þá gert ráð fyrir, að þau birti ekki annars staðar auglýsingar sínar. Nú má segja, að það sé kannske ekki ástæða til fyrir verzlanir, sem ríkið rekur, að vera að auglýsa neitt að því leyti, sem þær hafa einkasölu á vörum, sem þær selja, en að því leyti, sem ríkið kann að reka fyrirtæki í samkeppni við önnur fyrirtæki í landinu, er þetta léleg auglýsingaaðferð að koma auglýsingum í línurit, sem kemur út 4 sinnum á ári.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv., en held, að eins og háttað er hér hjá okkur sé ekki hyggilegt að fara að samþykkja lög, sem hafa þann tilgang einan að ræða um deilumál, sem hljóta að verða rifrildismál, og að fara að gefa út tímarit til þess að hella olíu í hinn sílogandi ófriðareld stjórnmálaflokkanna, það held ég, að sé ekki æskilegt. Þess vegna væri vafalaust langréttast að láta þetta frv. hvíla sig, en snúa sér þá heldur að öðrum óleystum vandamálum, sem fyrir liggja, og beita orku og getu til þess hér á Alþ, og annars staðar, að þar fáist bót á ráðin. Ég held, að það sé undir öllum kringumstæðum miklu hyggilegra og vænlegra til árangurs.