26.02.1943
Neðri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (3298)

143. mál, meðalalýsi

Emil Jónsson:

Það er rétt, sem segir í grg. Frv. er fram komið vegna frv., sem rannsóknaráð ríkisins samþykkti að senda til ríkisstj. með tilmælum um, að það kæmi fram hér á þ., þótt það frv., sem hér liggur fyrir, sé að verulegu leyti frábrugðið hinu, sem rannsóknaráð ríkisins samþykkti og hér hefur verið nefnt.

Ég skal í stuttu máli leyfa mér að gera grein fyrir, hvað fyrir ráðinu vakti, þegar það sendi þetta frv. til stj. Það hefur verið unnið að undirbúningi þess síðan sumarið 1941 og hefur því verið á döfinni hátt á annað ár. Það, sem fyrir ráðinu vakti með samningu þessa frv., var að skapa möguleika til fullkominna dýrarannsókna á lýsi, sem flutt er út. Það má telja, að vel sé séð fyrir vítaminrannsóknum með þeim rannsóknum, sem nú fara fram í landinu, því að allt lýsi er rannsakað, og fylgir vottorð með nálega hverri sendingu. Enda er það vegna þess, sem sú greiðsla fæst fyrir þessa vöru, sem efni standa til. Allt öðru máli gegnir um D-vítamínrannsóknirnar. Það þarf að gera þær á dýrum, og sá dýrastofn, sem er hér á landi, leyfir ekki, að gerðar séu nema 15–20 „analyser“ á ári. Lýsisútflutningurinn er um 4000 tonn, þannig að það er hægt, ef gerður er með þessum dýrum sá mesti fjöldi tilrauna, sem unnt er, að komast í eina tilraun fyrir hver 200 tonn, og það er talið allt of lítið. Til þess að hagnaður sé af þessum D-vítaminrannsóknum, þarf að fjölda tilraununum a.m.k..um helming, og sennilega meira, ef vel á að vera, þannig að tilraunirnar verði 50–60 og upp í 100 á ári, svo að ein tilraun komi á hver 50 tonn lýsis. Þetta er auðskilið mál, því að það hefur sýnt sig, að vítaminmagnið er mjög breytilegt. Það getur breytzt frá því að vera fyrir neðan 100 einingar og upp í að vera 300 einingar, svo að það veltur mikið á, að rétt sé skýrt frá í hvert sinn. þó vil ég taka það fram, að þetta fjörefnamagn mun vera það mikið í öllu okkar lýsi, að það uppfylli þær lágmarkskröfur, sem til þess eru gerðar, sem munu vera, eftir því, sem ég bezt veit, 70–80 einingar, en hagnaður okkar af lýsissölunni ætti að vera því meiri sem D-vitamínmagnið er meira. Nú er það svo, að þetta magn er ekki hið sama hvar sem er á landinu, og auk þess breytilegt eftir árstíðum, svo að það gæti verið tilhneiging til þess að skjóta sér undan þessari rannsókn og láta rannsaka aðeins það lýsi, sem hefur mest vitamínmagn. Í þessu er sú hætta, að ekki verði eins skipulagsbundnar rannsóknir á þessu eins og þurfa að vera, og það er ástæðan til þess, að. við töldum heppilegra að taka þennan kostnað með heildargjaldi heldur en að taka fyrir hverja prófun, sem líka er hægt og verður að gera, ef þ. sér sér ekki fært að lögfesta þetta eins og n. leggur til. En heppilegast mun verða, að gjaldið sé tekið af sölu á þessari vörutegund, og rannsóknin verði svo gerð á þann hátt, sem heppilegast þætti, þannig að prófun væri gerð af sölu frá öllum landshlutum og öllum vöruflokkum.

Fyrir okkur er ekkert aðalatriði, hvaðan peningarnir koma, hvort ríkissjóður leggur fram rannsóknartækin og annan kostnað að einhverju leyti, eða einhver annar gerir það. Aðalatriðið er, að það sé gert, sem fyrir okkur vakti. Eins og þetta frv. kemur frá sjútvn. er það um verkun og mat á meðalalýsi. Nú mun samkvæmt matsl. vera fyrirskipað mat á vörunni, þannig að hún uppfylli einhverjar lágmarkskröfur til þess að geta talizt söluhæf á markaði. Út af því, sem fyrr segir, er ekki um það að ræða, því að það er nokkurn veginn víst fyrirfram, að þessi vara uppfyllir þær lágmarkskröfur, sem gerðar eru til hennar, en það er verið að reyna að „constatera“ í hverju tilfelli það vitamínmagn, sem er í lýsinu á hverjum tíma.

Ég hefði talið heppilegt og æskilegt, að sjútvn. hefði séð sér fært að ræða þetta mál við þá menn, sem hafa kynnt sér það og leyft rannsóknaráði ríkisins að fylgjast með því, sem gert var, því að ég held ekki, að frv. þetta tryggi nægilega framgang þessa máls.

Það er ekki tækifæri til að prófa nú nema mjög lítinn hluta af lýsi á þennan hátt, eða um 1/4 eða 1/5 hluta af því, sem helzt þyrfti að prófa. Til þess að geta gert þetta eins og ætlað er og þyrfti að gera, þyrfti í fyrsta lagi að leggja í kostnað við það. Ef ætlazt er til þess, að þessi kostnaður verði borinn uppi af ríkinu heldur en af útflytjendum, er ekkert við því að segja. Það næst sami árangur fyrir því. Fyrir stríð var áætlaður kostnaður af þessu á ár i 25 þús. kr., en gera má ráð fyrir, að hann yrði nú 50 — 60 þús. kr. á ári. En árið 1941, þegar frv. til l. um þetta efni var samþ., var fjárhagur ríkissjóðs ekki eins og hann er nú, og þess vegna var þá reynt að koma ríkissjóði hjá því að greiða þessa upphæð. En ef hv. alþm. vilja afgreiða málið á þann hátt, að ríkissjóður greiði þennan kostnað, hef ég ekkert við það að athuga. En komið geta þeir tímar, að ríkissjóður vilji hliðra sér hjá því að borga þessa upphæð. Og eðlilegra væri, að þeir, sem nytu þeirra hlunninda, sem rannsóknir þessar veita, greiddu a.m.k. nokkurn hluta af kostnaðinum við þessar rannsóknir. Enda hefur forstjóri Félags íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, sem er í rannsóknaráði og mundi hafa þetta mál með höndum, tjáð í sambandi við þetta frv., að hann sé inni á þeirri hugmynd, að framleiðendur greiddu þennan kostnað.

Ég teldi því æskilegt, ef hv. sjútvn. sæi sér fært, að hún hefði um þetta mál nokkru meiri samráð við þá aðila, sem hafa haft með þessi mál að gera, heldur en hún hefur gert til þessa, áður en málinu er ráðið til endanlegra lykta.