16.01.1943
Efri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Magnús Jónsson:

Ég vildi aðeins í tilefni af ummælum hv. þm. Str. (HermJ) um brtt. á þskj. 213 1ýsa því sem minni skoðun, að ég veit ekki til, að neitt sé, sem gefur tilefni til þess að telja nýbyggingarsjóði á neinn hátt sameign ríkissjóðs og útgerðarmanna þeirra, sem leggja í nýbyggingarsjóði. Það er alveg tvímælalaust og skýrt fram tekið, að nýbyggingarsjóðirnir eru eign þeirra, sem í þá sjóði legga. Og hvað sem löggjafarvaldið kann að gera siðar, þá er það ekki eftir núgildandi l., svo að ég viti til, nein ástæða til að ætla, að það, sem byggt er fyrir nýbyggingarsjóðina, svo sem togarar, eigi að vera sameign ríkisins og þess félags, sem nýbyggingarsjóðurinn á í hverju tilfelli. Ég veit, að fyrrverandi hæstv. viðskmrh. (EystJ) og fyrrverandi hæstv. forsrh. (ÓTh) hafa hvorugur átt við þetta, sem mér skildist. hv. þm. Str, vildi nú leggja inn í þeirra ummæli, þegar þeir voru að tala um, að það mætti segja, að í raun og veru væri það, sem lagt væri í nýbyggingarsjóði, tekið þar með í alþjóðar þágu. En það kom ekkert við eignarrétti þeirra yfir fénu, sem í sjóðina legðu, heldur væri það þannig tekið í þágu ríkissjóðs, að annars, ef ekki væri lagt í þessa sjóði, þyrfti ríkissjóður að hlaupa undir bagga í atvinnuleysi til þess að bæta úr því. Vitaskuld eru nýbyggingasjóðir. algerlega einkaeign þeirra félaga, sem mynda þessa nýbyggingasjóði, þó að þeir séu myndaðir, samt sem áður í alþjóðar þágu og geti orðið í ríkissjóðs þágu þannig lagað, að öflug útgerð, sem tryggð er með nýbyggingasjóðum, geti komið í veg fyrir að ríkissjóður þurfi að hlaupa undir bagga með atvinnu. Ég man heldur ekki til þess, að fé úr nýbyggingasjóðum megi taka í skatta. En það felst ekki í því, þó að í svip verði að taka fé úr varasjóði til að greiða skatta.

Ég er í „prinsipinu“ meðmæltur þessari brtt. En ég er ekki viss um, að hún nái tilgangi sínum eins og hún er. Það er ólíkt háttað um þetta tvennt, sem hún er um, vátryggingarféð og fé nýbyggingasjóða. Vátryggingaféð er greitt út þannig, að það er skýrt fram tekið, hvað það sé, að það er vátryggingarfé, strax og viðtakandi tekur við því. En ég veit ekki til, að í nýbyggingasjóð komi neitt fé, sem standi einhver skilríki fyrir, þegar það kemur inn, að það sé nýbyggingasjóðsfé, og verður því ekki fyrr en eftir á, að þessi ákvæði gætu komið til nota um þetta fé.

Og ég get enn fremur ekki verið viss um, hvað með þessu vinnst af því, sem fyrir hv. flm. brtt. vakir, þó að brtt. yrði samþ., því að mér skilst, að afhendingarskyldan sé eftir sem áður, því að hún felst í 3. gr. Og 4. gr. frv. er í raun og veru ekki nema um víssa ráðstöfun viðkomandi því, sem í 3. gr. segir, og er um það, að setja megi reglugerð til þess að tryggja, að ákvæðum, sem eru í 3. gr. um afhending gjaldeyrisins til bankanna, sé byggt. Ég er ekki viss um, að þetta fé, sem getið er í brtt., sleppi við afhendingarskylduna, þó að brtt. væri samþ. En mér finnst, að það sé þó megintilgangurinn með brtt. að undanþiggja þetta fé þeirri afhendingu. Það er vissulega óeðlilegt, að maður sé skyldaður til að afhenda fé, sem hann hefur fullan eignarrétt á, þannig að hann verði að selja það banka og kaupa það svo aftur af bankanum síðar. Ég veit nátturlega ekki, ef á að setja ákvæði um þetta í reglugerð, hvort það sakaði að setja um þetta ákvæði í l. eins og áminningu um, hvað gera skyldi.

Brtt. hv. fjhn. finnst mér næstum brosleg, þessi streita, að geta ómögulega látið af því, sem einu sinni er byrjað á, og kemur fram í því formi, að mér skilst, að ríkisstj, sé alveg ómögulegt að framkvæma þetta, sem brtt. er um. Ég get hugsað mér, að í Þaralátursfirði, Kvískerjum og Grímsey mætti kannske finna einhverja menn, sem ekki væri hægt að segja um, að væru að einhverju leyti háðir á þann hátt, sem ekki mætti vera eftir þessari brtt., því að það má ekki skipa (eftir brtt.) í Viðskiptaráðið fulltrúa sérstakra stétta eða félaga né heldur menn, sem eiga beinna hagsmuna að gæta í sambandi vri störf ráðsins eða eru í þjónustu aðila, sem svo er ástatt um. Nei, það dygði ekki. — Bóndinn í Furufirði yrði sjálfsagt fulltrúi bænda. — Hæstv. fjmrh. sagði, að stj. mundi skipa í ráðið beztu menn, sem hún finndi til þess, og það vil ég láta fylgja þessu frv., að hæstv. ríkisstj. bara gerði það. Og mér er sama um það, hvort samkomulag er um þessa brtt. milli ríkisstj. og n. eða ekki, ég greiði atkv. á móti þessari brtt., af því að ég álít, að hún sé brosleg, en ég skal ekki fara frekar út í það, því að ástæðu fyrir því hef ég greint við 1. umr. málsins.