18.12.1942
Neðri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (3311)

68. mál, vegagerð og símalagning

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Ég sé, að hér eru hvorki 1. né 2. flm. þessarar þáltill. viðstaddir, og vil ég sem 3. flm. því segja um þáltill. örfá orð.

Hér í þessari þáltill. er farið fram á, að Alþ. skori á ríkisstj. að láta rannsaka, hvort ekki sé hægt að gera umbætur á vinnuaðferðum við vega- og símalagningar í dreifbýlinu. Það er svo um okkur Íslendinga, að við stöndum aftarlega í mörgum verklegum framkvæmdum hvað snertir vinnuaðferðir við þær. Við höfum rekið okkur á það í vegagerð okkar, þegar við á síðustu tveimur árum höfum fengið að sjá, hvernig Ameríkumenn hafa unnið hér að vegagerð, því að þeir hafa komið með ýmsar nýjungar í þeirri grein, sem ekki hafa þekkzt hér, um notkun verkfæra. Við höfum notað við okkar vegagerð aðeins mjög lítið af vélum. Má segja, að við höfum ekki notað þær við vegagerð, aðrar en bíla til malarflutninga, og svo veghefla, sem aukizt hefur notkun á hjá okkur á síðustu árum. Býst ég við, að við gætum haft gott af að rannsaka og athuga, hvernig vinnubrögð eru í þessum efnum í þeim löndum, sem lengst eru komin í þessum málum, og að kynnast því, sem við höfum ekki getað notað vegna féleysis og annars.

Hv. þm. Hafnf. (EmJ) talaði um það hér nýlega, hve við værum aftarlega með vinnuaðferðir við hafnargerðir okkar. Ég býst við, að svipað eigi sér stað með vinnuaðferðir við bryggjugerðir.

Auk þess, er við kemur vegalagningum, er þáltill. þessi um að skora á ríkisstj. að láta gera athugun á því, hvort ekki muni kleift að leggja símalínur á einhvern ódýrari hátt en nú er gert hér á landi. Við vitum t.d., að það að leggja eina símalinu, sem kannske er lítið notuð, er ákaflega dýrt. En í Ameríku er mjög farið að nota aðrar aðferðir við símalagningar heldur en hér hefur tíðkazt. Þeir eru hættir að nota staura, heldur festa símalínurnar með öðrum hætti, sem ég veit að vísu ekki, hvernig er gert. En þetta viljum við flm. þáltill. láta rannsaka og athuga og reyna þær vinnuaðferðir í þessu efni, sem til framfara horfa.

Ég hygg rétt, að þáltill. fari til n. og þá helzt samgmn.