05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (3347)

64. mál, Vesturheimsblöðin Heimskringla og Lögberg

Gísli Jónsson:

Ég vildi minnast á það í sambandi við frv. þetta, að ég er alveg sammála því, að styrkja beri Vesturheimsblöðin, þó að ég geti hins vegar ekki neitað því, að aðferðin, sem fara á til þess, þyki mér harla einkennileg. Mér finnst það miklu heppilegri braut og eðlilegri, að þetta væri styrkur frá ríkinu sjálfu. Ég tel það mjög varhugaverða leið, sem farið er fram á, að farin verði með frv. þessu. Hví skyldi flm. ekki, fyrst hann á annað borð valdi þessa leið, telja upp fleiri félög og stofnanir? Hér er til kaupþing, félag þvottakvenna og fleiri félög, svo og pólitísku flokkarnir. Er nokkur ástæða til að undanskilja þessi og önnur félagasambönd? Það er langeðlilegast, að hér sé um að ræða beinan styrk frá ríkinu, enda er það skemmtilegast fyrir blöðin sjálf. Þessu vil ég beina til n., er fær þetta mál til meðferðar. Má vera, að hv. flm. hafi þessa hugmynd sína að einhverju leyti frá því, hvernig farið er að útbreiða Tímann, en ég vil ekki verða til þess, að farið verði eins að með Vesturheimsblöðin, heldur að styrkurinn til þeirra verði veittur á annan og heilbrigðari hátt.