09.02.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3371)

46. mál, flugmál Íslendinga

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. — Hv. allshn. hefur, eins og hv. frsm. gat um, tekið til athugunar brtt. á þskj. 166. Ég hafði vænzt þess, að n. hefði kallað okkur flm. brtt. á fund sinn, er hún ræddi brtt., til þess að n. gæfi okkur kost á því að ræða þetta atriði við nm., og hefði þá ekki verið óhugsandi, að komast hefði mátt að samkomulagi um þetta mál. En þetta var nú ekki gert, og hefur n. ekki komizt að samkomulagi um brtt., og hafa því nm. óbundnar hendur við atkvgr. um þáltill.

Hv. frsm. lét svo um mælt, að brtt. á þskj. 166 væri óþörf og ætti ekki heima í þessari þáltill. Hann sagði, að till. væri ekki um annað en rannsókn á skilyrðum fyrir byggingu flugvalla og flugskýla og þess vegna kæmi brtt. á þskj. 166 málinu ekkert við. Ég vil leyfa mér að benda á, að svo er ekki. Till., eins og hún er á þskj. 153 (en þannig hefur n. fallizt á hana), er meira en þetta, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa niðurlag síðari mgr. hennar, en það er á þessa leið: „Skulu athuganir þessar og undirbúningur framkvæmd með það fyrir augum, að ríkissjóður veiti Flugfélagi Íslands og flugmálum landsins í heild öflugan stuðning: Þannig er þá þáltill. á þskj. 153 um tvö atriði: Í fyrsta lagi athugun á skilyrðum fyrir byggingu flugvalla, og í öðru lagi að slá því föstu, að ríkissjóður veiti Flugfélagi Íslands öflugan styrk. Ég segi fyrir mitt leyti, að ef till. hefði aðeins falið í sér fyrra atriðið, þá hefði mér ekki þótt ástæða til að bera fram brtt. á þskj. 166. Ástæðan var síðasta mgr. till. Fyrst hún er fram komin, þá finnst mér ástæða fyrir Alþ. að athuga framtíðarfjárhags samband ríkissjóðs og þessa fyrirtækis.

Ég vil skjóta því fram, án þess að það sé bindandi, að það er ekki útilokað, að hægt sé að ná samkomulagi um, að þetta atriði verði fellt niður, og þá væri niður fallin sú ástæða, sem ég hafði fyrir því að bera fram brtt. á þskj. 166. Annars mætti fresta umr. og athuga, hvort ekki væri hægt að gera þetta. Það þyrfti ekki að tefja málið verulega.