06.01.1943
Efri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (3380)

84. mál, menntamálaráð Íslands

Flm. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. Það, sem felst í þessu frv. á þskj. 118, er fyrst og fremst það að auka áhrif listamanna i menntamálaráði Íslands og bæta úr ástandi, sem skapazt hefur. Hér er gerð till. um, að auk þeirra 5 manna, sem kosnir eru af Alþ. í menntamálaráð, séu skipaðir 4 menn í ráðið í viðbót, sem séu tilnefndir af félögum í Bandalagi íslenzkra listamanna, einn frá hverju félagi.

Það ætti ekki að þurfa að fylgja þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum, því að þetta mál allt, sem snertir menntamálaráð, er þjóðkunnug.

Hv. þd. er kunnugt, að starfsvið menntamálaráðs hefur á undanförnum árum verið aukið mjög mikið. Fyrst og fremst hefur það frá byrjun haft með málefni myndlistamanna að gera, svo sem kaup á myndum til myndasafns ríkisins. Síðan fékk það í hendur bókaútgáfu menningarsjóðs og síðast alla úthlutun á styrkjum, sem Alþ. veitir til listamanna og rithöfunda. Starfsvið menntamálaráðs er því víðtækt og hefur verið aukið mjög á síðustu árum, og það snýr mestallt að listamönnum.

Hins vegar er kunnugt, að risið hefur óánægja með starf menntamálaráðs. Myndlistamenn hafa hvað eftir annað kvartað undan ráðinu og sent slíka kvörtun til Alþ., sem fyrst og fremst hefur verið um það, hvernig myndir hafa verið valdar við kaup á þeim til listasafns ríkisins, og hefur þar verið farið fram á, þegar þannig væru keyptar myndir, þá væri hafður maður frá myndlistamönnum með í ráðum. Þarf þessu til sönnunar ekki annað en að fletta upp skjölum, sem myndlistamenn hafa sent Alþ. Og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér nokkur atriði úr þessum skjölum, sem myndlistamenn sendu Alþ., sem fela í sér kvörtun út af störfum menntamálaráðs.

„Fyrir ekki allmörgum árum var stofnað hér menntamálaráð, sem hafa átti umsjón með menningarmálum þjóðarinnar. Hvað myndlist viðkemur er það verk þess að úthluta styrkjum til myndlistamanna og kaupa myndir, sem hengja á upp í væntanlegu listasafni íslenzka ríkisins. Eins og gefur að skilja er það vandasamt og ábyrgðarmikið verk, sem hér er um að ræða, og þar eð myndlistarþekking þeirra manna, er voru í menntamálaráðinu, og síðan hafa verið þar, var af svo skornum skammti, að helzt mætti líkja við, ef ólæsir menn hefðu á hendi kaup handa Landsbókasafninu. Listamennirnir báru fram þá eðlilegu kröfu, að einn þekktasti listamaður landsins, Ásgrímur Jónsson, væri fenginn til að vera með og leiðbeina, er gerð voru kaup fyrir ríkissafnið, en Ásgrímur Jónsson var, sökum þekkingar sinnar og samvizkusemi, manna færastur til að vera þessi leiðbeinandi. Þessari kröfu var samt neitað, og þess var heldur ekki langt að bíða, að vanmáttur og vanþekking menntamálaráðsins kæmi í ljós. Þeim, sem kallast geta lærðir myndlistarmenn, var að ýmsu leyti gefið í skyn, að þeim bæri að leggja frá sér þá menningu í listum, sem þeir höfðu aflað sér við langvarandi og erfitt nám í framandi löndum. Ýmsir helztu snillingar heimslistarinnar voru settir upp sem nokkurs konar grýlur, sem öllum þægum og örtugum listamönnum bar að forðast, en hinum og þessum mönnum, er fengust við að mála myndir í frístundum sínum, var hossað hátt af menntamálaráði Íslands, sem keypti verk þeirra engu að síður en hinna menntuðu listamanna.“

Og síðar í ávarpinu segir svo:

„Allar menningarþjóðir, að Íslendingum einum undanskildum, krefjast, að hálærðir menn á því sviði hafi á höndum kaup handa listasöfnum þeirra og viðurkenni skreytingar opinberra bygginga“.

Undir þetta skjal skrifuðu 14 myndlistamenn, eða flestir myndlistamenn okkar.

Síðan þetta gerðist hafa komið upp miklar deilur milli rithöfunda og menntamálaráðs m.a. í sambandi við úthlutun þess á styrkjum, sem Alþ. fól því á þingi 1939 úthlutun á. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það mál hér nú, nema tilefni gefist til. Hins vegar vil ég geta þess, að á fyrsta listamannaþinginu, sem haldið var í haust, kom fram einróma krafa um, að breytt yrði skipun menntamálaráðs. Vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa hér upp 1. grein í samþykkt listamannaþingsins, sem er svo hljóðandi:

„Listamannaþing 1942 lýsir yfir því, að það telur, að „Menntamálaráð Íslands“ hafi ekki, eins og það er nú skipað, reynzt fært um að fara með hagsmunamál listamanna eða önnur mál, er velferð þeirra varða, og skorar á Alþingi að gera sem fyrst nauðsynlegar breytingar á skipun þess og afskiptum hins opinbera af lista- og bókmenntastarfsemi, svo að tryggt sé, að hún geti notið sín frjáls og óháð“.

Þær till., sem bornar eru fram í þessu frv., eru alveg samhljóða við till., sem fram kom á listamannaþinginu um breyt. á skipun menntamálaráðs, þannig að í viðbót við þá 5 menn, sem Alþ. kýs, þá verði kosnir menn frá deildum Bandalags íslenzkra listamanna, einn maður frá hverri deild, en þær eru 4. Yrðu þá í ráðinu með því móti 9 menn. Sá árangur, sem hlyti að nást með því, ef þessi breyt. næði fram að ganga, er það, að þar hefði hver deild íslenzkra listamanna sinn fulltrúa í ráðinu. Myndlistamenn hefðu þá, eins og þeir hafa margóskað eftir, 1 mann, sem gæti verið ráðgefandi um val á myndum, sem keyptar yrðu til myndasafns ríkisins. Rithöfundar hefðu þá annan mann, sem væri fulltrúi viðkomandi úthlutun styrkja til þeirra, íslenzkir leikendur hefðu þá sinn mann og tónlistarmenn sinn mann í ráðinu.

Í fyrstu gæti virzt eðlilegt, að listamenn hefðu þessi mál einir með höndum, þau mál, sem listamennina varðar, og að ráðið yrði því skipað eingöngu listamönnum. En af því að Alþ. veitir þessa styrki, þykir ekki rétt að ganga svo langt, að Alþ. afsali sér afskiptum og yfirráðum yfir þessum málum, og ekki heldur, að Alþ. afsali sér meirihlutavaldi í þessum málum. Ef menntamálaráð er skipað svo sem hér er gert ráð fyrir, virðist svo sem Alþingi gengi svo langt í áttina til listamanna eins og listamenn geta bezt á kosið og hafa frekast gert kröfur um. Og skilst mér þá, að allir mættu vel við þessa breyt. una.

Að lokum vil ég Svo aðeins minna hv. þd. á það, að það getur ekki lengur haldið svo áfram, að Alþ. skipti sér ekki af málefnum listamanna. Það ástand, sem ríkt hefur undanfarin ár, sú deila, sem risið hefur upp milli listamanna og menntamálaráðs, er þjóðinni til smánar, og það er vansæmd fyrir Alþ., ef það sættir ekki þessa aðila og kemur ekki málum listamanna í það horf, að þeir geti við unað, þannig að öll afskipti af þessum málum geti verið þjóð og þingi til sóma. Það er beinlínis vansæmandi fyrir Alþ. að varpa frá sér allri ábyrgð í þessum málum yfir í hendur ráðs, sem þykir svo illa valið, eins og bezt hefur komið fram í ákærum listamanna, og láta það svo alveg afskiptalaust, hvað gerist í þessum málum. Hæstv. Alþ. verður að sjá, að hér þarf að koma breyting á. Og hvað viðkemur skipun menntamálaráðs, sem till. er um í frv., þá álít ég, að sú breyt. á skipun þess sé sá háttur, sem bæði hæstv. Alþ. og listamenn sjálfir gætu sætt sig við. Menningarmál þjóðarinnar kæmust þá á annan rekspöl en þann að eiga sífellt í deilum og stríði við þá menn, sem fyrst og fremst eru kosnir til þess að gæta hagsmuna þeirra.