12.01.1943
Efri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (3388)

84. mál, menntamálaráð Íslands

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Það er nú nokkuð langt síðan ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli, og var það í framhaldi af umr. og ummælum, sem þá höfðu farið fram.

Ég vil í fyrsta lagi gera fyrirspurn til hæstv. forseta út af ummælum hv. þm. S.-Þ. Ég hjó í það, að hann talaði með nokkuð sérstökum blæ um tilgreinda borgara úti í bæ. Það er að vísu svo um hv. þm. S.-Þ., að það er ekki alveg óeðlilegt, að hann telji, að um sig geti gilt nokkuð sérstakar reglur, þar sem bæði er álit ýmissa manna, að þetta frv. sé einkanlega flutt honum til höfuðs, og meira að segja var hér einn fyndinn hv. þm., sem sagði, væntanlega með hliðsjón af því, sem hv. flm. sagði á dögunum út af öðru máli, að fallizt mundi verða á, að aðalbreyt. á menntamálaráði félli úr frv., ef boðið yrði, að Jónas Jónsson mætti ekki eiga sæti í menntamálaráði. Þá ganga og miklar sagnir um það, og hefur raunar opinberlega verið staðfest af hv. þm. S.-Þ. sjálfum, að vinir hans og flokksbræður hafi nýlega látið brenna upplag af því blaði, sem hann er við liðinn, beinlínis til þess að veita greinum hans frekari áherzlu og til þess að meira yrði tekið eftir þeim en ella. Og ef einnig er satt, sem fróðir menn segja, að einn af helztu vísinda- og fræðimönnum í landinu hafi nýlega ritað stóra bók um menningu Íslands, en hafi þurft að eyða drjúgum hluta af efni bókar innar í formála, sem stílaður er til hv. þm. S.–Þ., en hafi verið svo mikið niðri fyrir, að ekki hafi komizt allt í formálann, svo að höfundur hafi þurft að skrifa smáletraðan eftirmála til þess að koma að öllu því, sem hann þurfti að rita um Jónas Jónsson, — og ef loks er satt, sem fróðustu menn segja, að sjálfur hæstvirtur ríkisstjóri hafi í nýjársboðskap sínum varið drjúgum hluta ræðu sinnar í skeyti til þessa hv. þm., — ef þetta allt er rétt, þá er ekki nema von, að þessi hv. þm. telji, að um sig geti gilt aðrar reglur en um aðra hv. þm. og að hann megi líta á samborgara sína smærri augum en aðrir.

Samt vil ég spyrjast fyrir hjá hæstv. forseta, hvort það sé þinglegt eða okkur hinum sé það leyfilegt að kalla vel metna og vammlausa borgara „vesalinga“, eins og hv. þm. S.-Þ. gerði hér á dögunum. Þetta er fyrirspurn um þingsköp, sem ég geri vegna þess, að ég er ekki kunnugur því, hversu vel menn þurfa að gæta tungu sinnar hér í hv. d. til þess að hljóta ekki ámæli hv. forseta fyrir, og til þess að fá vitneskju um, hvort það mundi verða átölulaust, ef við hinir tækjum upp slíkt orðbragð um valinkunna menn eins og hv. þm. S.-Þ. hefur haft hér við þessar umr.

Ég skal annars ekki blanda mér í orðaskipti hv. þm. S.-Þ, og aðstoðarþingmanns hans, sem að vísu er kallaður landskjörinn, en mun vera sendur til eftirlits hv. þm. S.Þ.

Það voru ummæli í ræðu hv. flm., sem gáfu mér tilefni til þess að bera fram fyrirspurn, aðallega til þess að fá upplýst, á hvaða grundvelli þetta frv. sé flutt og á hvaða meginhugsun það sé byggt. Hv. flm. sagði, að hann teldi sjálfsagt og eðlilegt, að í menntamálaráði ættu listamenn einir sæti. Ég hjó í það, að hv. þm. sagði þetta tvímælalaust. Og hann taldi það alveg sérstaka tillátssemi við þingið, að hann léti það þó hafa rétt til þess að balda fulltrúum í þessu ráði. En mér skilst, að þessi ummæli geti ekki staðizt nema því aðeins, að frv. hvíli á þeirri hugsun, eða a.m.k. að hv. flm. telji þá hugsun rétta, að listirnar hafi gildi fyrir listamenn eina — listirnar séu atriði, sem listamönnum einum komi við, þær séu efni, sem þeir einir eigi að segja um og þeir einir hafi vit á. Ef það er ekki þessi hugsun, sem þarna stendur á bak við, get ég ekki skilið þessa skilyrðislausu fullyrðingu hv. flm. Nú hafði ég álitið, að listirnar hefðu því aðeins þýðingu, að þær hefðu þýðingu fyrir alþjóð manna og fleiri heldur en listamennina eina, og það væri það, sem gerði menn að listamönnum, að þeir gætu framleitt eitthvað, sem hefði menningarþýðingu fyrir aðra heldur en þá sjálfa. Það er margt, sem hver borgari gerir sér til dægrastyttingar, og það kann að hafa svo eða svo mikla þýðingu fyrir hann sjálfan ýmislegt af því, sem þó getur ekki talizt styrks vert eða athyglisvert, vegna þess að það hefur ekki neina almenna þýðingu. Mér skilst aðall listamannsins liggja í því, að hann veitir samborgurum sínum miklu meiri heldur en hann veitir sjálfum sér, jafnvel þó að líf hans kunni einnig fyrst að fá gildi við það, að hann getur unnið að list sinni. Ég hef þess vegna á þessu alveg gagnstæða skoðun við það, sem mér virtist koma fram hjá hv. flm. Ég lít þannig á, að gildi listanna fari eftir gildi þeirra fyrir almenning og alla alþýðu manna. Og ég er sannast sagt þeim mun meira undrandi yfir ummælum hv. flm., sem þau eru í algerri andstöðu við það, sem í sjálfum Þjóðviljanum var alveg nýlega haft eftir einum af listamönnum þeim, sem einna harðast hafa gengið fram í þeirri deilu, sem er ástæðan til þessa frv., að því færi fjarri, að listamennirnir litu svo á, að þeir einir hefðu vit á listaverkum, og ef þeirra málstaður væri túlkaður frá því sjónarmiði, þá væri það alveg misskilningur á því, hvað fyrir þeim vekti. En ég gat ekki betur skilið heldur en hv. flm. héldi fram þessari að mínu viti furðulegu kenningu, sem málsvari listamannanna svo eindregið afneitaði. Og afstaða manna til frv. hlýtur auðvitað að fara mjög eftir afstöðu til þessa sjónarmiðs.

Ef frv. er, eins og fram virðist koma, byggt á þessari meginhugsun, þá sýnist það vera mjög vanhugsað og illa frá því gengið, vegna þess að þá ætti að láta hverja listgrein ákveða algerlega sjálfa um öll mál, er hana varða, en ekki blanda þeim greinum saman þannig, að t.d. fulltrúi tónlistarmanna á eftir frv. jafnan að hafa atkvæði um málefni, er varða málaralist o.s.frv. Frá sjónarmiði hv. flm. er þetta náttúrlega hugsanavilla og horfið frá þeim grundvelli, sem hann vildi leggja með þessu frv. Enda virtist mér hv. flm. verða dálítið hræddur við þessa kenningu, þegar hann átti að fara að útfæra hana í einstökum atriðum og ekki þora að fylgja henni út í æsar. Ekki að síður ber frv. of mikil merki þessarar hugsunar til þess að þeir, sem um þetta eru á gagnstæðri skoðun við hv. flm., geti verið ánægðir með það.

Ég get fyllilega tekið undir þau ummæli hv. flm., að sá eldur og ófriður, sem um þessi mál hefur verið undanfarið, er öllum aðilum til ills og verður einhvern veginn að kveðast niður. Og það er sjálfsagt að taka tillit til réttlátra óska og tillagna listamannanna í þessum efnum, og má hvergi ganga á þeirra hlut. En það má þá ekki heldur ganga inn á sérkreddur í gagnstæða átt við það, sem nú er. Og umfram allt vil ég skjóta því til hv. flm., að hann má ekki gera allt of mikið úr hv. þm. S.–Þ. og ætla, að hann verði ekki unninn með venjulegum vopnum, heldur þurfi að girða fyrir áhrif hans með lagabreyt. og öðru slíku. Má að vísu skilja, að þessi hv. þm. sé all-dólgslegur í augum aðstoðarþm. hans. En okkur hinum virðist hann ekki svo ægilegur ásýndum, að við getum búizt við, að fjórum mönnum í n. ætti að vera ofraun að fást við hann, svo að fyrirfram væri hægt að slá föstu, að hann hefði sigur.

En í sambandi við þessa fyrir spurn og að nokkru leyti af tilefni, sem hv. þm. S.-Þ. gaf, þar sem hann fullyrti, að þetta frv. væri sprottið undan rótum, að mér skildist, alþjóðafélagsskapar kommúnista, og þeir hefðu fulltrúa hjá listamönnum, sem stæði að þessu frv., þá vildi ég spyrja hv. flm. að því (Rödd úr salnum: Hvort frv. væri frá alþjóðafélagsskap kommúnista), já (hló um leið), gjarnan má spyrja þess einnig, hvort þetta frv. væri flutt samkvæmt beiðni eða í samráði við alþjóðafélagsskap kommúnista og í öðru lagi það, sem ég hafði þó einkum ætlað að grennslast eftir, hvort það er flutt í samráði við þann félagsskap listamanna, sem stóð að listamannaþinginu á dögunum, eða hvort hv. þm. hefði tekið það upp hjá sjálfum sér að flytja frv. Það skiptir minna máli, en fróðlegt væri nú að vita það samt, hvort sá dráttur, sem hefur orðið á framhaldi þessarar 1. umr., væri e.t.v. runninn undan rótum annarshvors þessa félagsskapar, sem hér hefur verið vikið að, alþjóðasambands kommúnista eða listamannaþinginu, og þá hverra fulltrúi í þessu máli hv. flm. er, hvort hann er fulltrúi kommúnista eða þess góða skálds, sem gengið hefur hér um d. og nokkuð hefur þótt hafa hönd í lagga um framgang málsins.