03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (3389)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Sigurður Kristjánsson:

Ég tel rétt strax á þessu stigi málsins að láta a.m.k. í ljós ánægju mína yfir því, að það vottar hér ekki svo lítið fyrir áhuga á framgangi og þrifum útvegsmálanna. Það hefur nú verið talið af ýmsum mönnum hér, bæði hv. þm. og mönnum utan þings, að hagur landsins mundi velta að verulegu leyti á viðgangi sjávarútvegsins. Sammála hafa menn þó ekki verið um þetta. En það má segja, að það sé gleðilegt, að nú er svo komið, að jafnvel steinarnir eru farnir að tala og vitna um mikilvægi þessa máls, en sjálfsagt má svo að orði kveða um það, þegar framsóknarmenn gerast brautryðjendur um þrifnaðarmál sjávarútvegsins. Ég vil nú strax í upphafi taka það fram, að það hefur áður verið kostur á því fyrir þann hv. þingflokk, sem stendur hér að þessari till., að sinna þessum málum. Og það er ranghermi í grg. þáltill. og eins í framsöguræðu hv. frsm., að ekki hafi áður verið skipuð mþn. til þess að athuga hag sjávarútvegsins á svipaðan hátt og gert var viðkomandi landbúnaðinum, því að 'a Alþ. 1933 kom fram þáltill. og var samþ. um það að skipa mþn. í sjávarútvegsmálum. Og sú n. var skipuð. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þau atriði úr þáltill. þeirri, þar sem sérstaklega er bent á, hvað eigi að vera verkefni þeirrar n. að rannsaka og gera till. um. Þau verkefni voru:

„1. Að rannsaka og safna skýrslum um fjárhagsástæður og afkomuhorfur sjávarútvegsmanna um land allt.

2. Að undirbúa till. til úrlausnar á vandamálum útvegsmanna, einkum um ráðstafanir af hálfu hins opinbera til að firra þá vandræðum vegna yfirstandandi krepputíma.

3. Að athuga leiðir til þess að treysta letur en nú er sameiginlega hagsmuni vinnuþiggjenda og vinnuveitenda, þeirra er vinna að sjávarútveginum, bæði á sjó og landi, og gera tillögur til að draga úr fjárhagsáhættu útvegsins.

4. Að rannsaka skilyrði fyrir bættum og fjölbreyttari verkunaraðferðum.

5. Að gera till. um framkvæmdir til aukins markaðar fyrir fisk, fiskafurðir og aðrar innlendar framleiðsluvörur.

6. Að undirbúa rekstrarlánsstofnun fyrir bátaútveg landsmanna.“

Þessi þáltill. var flutt af þáv. og núv. hv. þm. Vestm. (JJós), af hv. þm. G.-K., sem nú er hæstv . forsrh. (ÓTh), þáv. þm. N.-Ísf., Jóni Auðuni Jónssyni, þáv. fyrri þm. Rang., Jóni Ólafssyni, af þáv. 4. þm. Reykv., Pétri Halldórssyni, og þáv. þm. Ak., Guðbrandi Ísberg. Þáltill. var samþ. og nefndin skipuð, og hún skilaði áliti, sem ég er með hér í höndum, og gerði margar till. Það vildi svo til, að Framsfl. hafði þá stjórn landsins með höndum og tók við þessum till. og átti kost á að framkvæma eftir þeim, eftir því sem honum hefði þótt nauðsyn til bera til eflingar sjávarútveginum.

Þessu hefur Framsfl. gleymt. Þessi mþn. sendi Alþ. m. a. fjögur tilbúin frv. með grg., eitt um skuldaskil útvegsmanna, eitt um vátryggingar opinna vélbáta, eitt um rekstrarlánastofnun fyrir sjávarútveginn og eitt um efling fiskveiðasjóðs. Auk þess lagði n. til ýmislegt viðvíkjandi markaðsleitun, verkunaraðferðum, svo sem niðursuðu á sjávarafurðum og ýmislegt fleira, sem ég skal nú ekki tefja tímann með að telja upp, en allt má sjá í áliti n. N. hafði rannsakað þessa þætti alla, sem tilgreindir eru í þáltill., safnað skýrslum, ekki aðeins um hag útgerðarinnar hér innan lands, heldur líka framleiðslu sjávarafurða í nágrannalöndunum, verkun þeirra, markaði fyrir þær og nýjar leiðir, sem farnar höfðu verið, einkum til þess að vinna meira verðmæti úr sjávarafurðum heldur en tíðkazt hafði og tíðkast enn hér á landi, og bent á leiðir til þess að feta í fótspor þeirra, sem lengra eru komnir í þessum efnum. — Frv. n. voru öll í þá átt að gera umbætur samkv. þessum rannsóknum og till. n. ýmsum, sem voru ekki í frumvarpsformi.

Engu af þessu var sinnt af Framsfl., sem þá hafði stjórnarforustuna og forseta þingsins líka. En eitt þessara frv., um vátryggingu opinna vélbáta, var lagt fyrir þingið af þáverandi ráðh. Alþfl. En hinum frv. var ekkert sinnt og ekkert af þessum málefnum tekið til meðferðar af ríkisstj., eða hún tók ekki forustu um þau að neinu leyti. En sjálfstæðismenn báru fram frv. um ýmis þeirra, — þau voru ýmist svæfð eða drepin.

Nú má vel vera, að það séu orðin sinnaskipti í þessum málum, sem væri mér og sjálfsagt fleirum mikið fagnaðarefni, og að þess vegna megi vænta meiri stuðning við þessi mál frá Framsfl. hér eftir en hingað til. En minna vil ég þó á það í þessu sambandi, að það hefur áður verið stjórnaraðferð Framsfl. í málum að drepa þeim á dreif, þegar þau hafa komið fram frá öðrum, með því að koma með ýmsar krókaleiðir. M.a., þegar hitaveitumálið fyrir Rvík var á ferðinni, þá var ekki sá leirpyttur á landinu, að ekki þætti sjálfsagt að rannsaka hann í botn, áður en hafizt væri handa um hitaveituna. Og mér dettur í hug, að till. um efling fiskveiðasjóðs muni hafa verið tilefnið til þess, að þetta mái kom fram.

Ég hef mjög takmarkaða trú á þessari nefndarskipun. Þó mundi mér ekki þykja sæma að vera móti því, að þáltill. þessi verði samþ., ef það yrði til þess að einhverju leyti að rannsaka hag útgerðarinnar og þær leiðir, sem hægt væri að fara til eflingar sjávarútveginum. En ég vil, að samþ. þáltill. verði á engan hátt til þess að tefja fyrir þeim málum sjávarútvegsins, sem fram hafa komið eða fram kunna að koma hér á hæstv. Alþ.