18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 1. kjördeildar (Skúli Guðmundsson):

Út af síðustu ræðu hæstv. forsrh. vil ég biðja hv. þm. að festa sér í minni, að hann segir, að síldarmjölinu hafi verið úthlutað á Snæfellsnesi eingöngu eftir fyrirfram gerðum pöntunum.

Í sambandi við ummæli hans um, að við höfum verið með róg út af síldarmjölsmálinu, vil ég segja honum, að það er full ástæða til, að þingið taki til athugunar og láti rannsaka allan feril hæstv. stj. í því máli, því að eins og menn vita, var því fyrst haldið fram af stj., að nóg væri til af síldarmjöli í landinu, en tveimur dögum eftir kosningar kemur tilkynning um það, að menn geti fengið einhvern víssan part af pöntunum sínum, ég held 60—70%. Það er því ástæða til að rannsaka þetta mál. Hvað hefur hæstv. stj. gert af mjölinu, sem hún sagði fyrir kosningarnar, að væri til? Hvað hefur hún gert af því, eða hefur hún látið sér sæma að fara með tilhæfulaus ósannindi í útvarpið fyrir kosningarnar?