16.12.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (3400)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Nokkuð hefur þegar verið rætt um till. þá til þál., sem hér liggur fyrir til umr. í dag. Hv. 7. þm. Reykv. (SK) fann hvöt hjá sér til þess að verja nokkrum tíma í að ræða þessa þáltill., þar sem hann telur sig mikinn vin sjávarútvegsins. En það sýnir, hve mikill áhugi hans er á þessum málum, að hann gengur eigi lengra en það að ætla ekki að beita sér á móti þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir.

Hv. 7. þm. Reykv. var að tala um mþn. í sjávarútvegsmálum, er starfaði fyrir nokkrum árum, en í framhaldi af starfi hennar voru sett l. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda. Og eftir því sem hv. 7. þm. Reykv. upplýsti, tók n. til meðferðar vélbátatryggingar og efling Fiskveiðasjóðs. En síðan hafa verið sett l. um hvort tveggja. Það er því rangt hjá þessum hv. þm., að ekkert hafi verið gert með till. þeirrar n. En væntanlega er mönnum það ljóst, e.t.v. að þessum eina hv. þm. undanteknum, að jafnmikil þörf er á að skipa n. til þess að athuga sjávarútvegsmálin nú, þó að önnur n. hafi starfað að nokkrum slíkum málum fyrir 10 árum síðan. Ný viðfangsefni eru alltaf að skapast og ný viðhorf, eins á þessu sviði sem öðrum. Og það ber vott um mjög tal;markaðan skilning á þörfum sjávarútvegsins, ef menn halda, að öll frekari athugun á þessum málum sé óþörf nú á tímum.

Hv. 7. þm. Reykv. kvaðst hafa nokkurn grun um það, að flutningur þessarar þáltill. væri hrekkjabragð, sem hann nefndi svo, sem beitt væri í þeim tilgangi að búa gröf einhverjum sjávarútvegsmálum, sem búið væri að flytja á Alþ. nú. Ekki nefndi þessi hv. þm. þó nein ákveðin mál, og er því ekki kunnugt, við hvað hann átti. En í sambandi við þessi ummæli hans vil ég vekja athygli á, að sum þeirra mála, sem flutt eru nú á hæstv. Alþ., eru svo lítið undirbúin, að full þörf væri á, að þau væru letur athuguð, áður en þau næðu að verða að l. Vil ég t.d. benda á frv. til l. um jöfnunarsjóð aflahluta, sem hv. 7. þm. Reykv. hefur flutt á nokkrum þingum. Hann hefur flutt þetta frv. á þessu þingi, en að vísu ekki fyrr en eftir að það mál var flutt, sem hér liggur fyrir til umr.

Þessu frv. hans hefur verið vísað til ríkisstj. á undanförnum árum með ósk um, að hún athugaði það mál og undirbyggi löggjöf um það efni. En sá hæstv. ráðh., sem hefur farið með sjávarútvegsmálin og fékk þetta frv. til meðferðar, hefur ekki, svo að kunnugt sé, virt það viðlits. Er þó frv. — og hefur verið — flutt af flokksbróður þess hæstv. ráðh. og stuðningsmanni. Bendir þetta ekki til þess, að sá fyrrverandi hæstv. ráðh. og flokkur hans, Sjálfstfl., hafi brennandi áhuga fyrir málinu. Þetta mál, hlutatryggingar, er eitt af þeim málum, sem væntanleg mþn. í sjávarútvegsmálum ætti að athuga. Finnst mér, að hv. flm. þess á Alþ. ætti að fagna því, að slík n. væri kjörin, m.a. til að athuga þetta mál, sem hann þykist hafa áhuga fyrir, en svo Iítilli vinsemd mætir hjá þeim flokki, sem hann fylgir.

Hv. 1. flm. þessarar þáltill. gerði svo rækilega grein fyrir efni hennar í upphafi umr. um hana, að ég sé ekki þörf á að ræða það frekar. Væntanlega láta engir hv. þm. það aftra sér frá stuðningi við þáltill., þó að ýmsir aðrir en þeir sjálfir hafi komið auga á, að nauðsyn er á að láta fram fara undirbúning í mþn. á þeim mörgu vandamálum, sem snerta sjávarútveginn og þörf er á að leysa svo fljótt sem verða má.