13.01.1943
Efri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (3409)

84. mál, menntamálaráð Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög og alls ekki blanda mér í viðskipti þeirra hv. þm. S.-Þ. og þess hv. þm., sem síðast talaði. Ég mun greiða þessu frv. atkv. til 2. umr. og n., hvað sem meira verður. Og ég geri það af því, að ég viðurkenni fullkomlega, að það ástand, sem undanfarið hefur ríkt í þessum efnum, er mjög bágborið, að ég ekki segi með öllu óviðunandi. Hins vegar get ég ekki varizt því, að mér finnst hjá hv. flm. vera farið að sumu leyti í kringum það, sem er kannske aðalatriði í hans augum og ýmissa annarra, sem líta svipað á málið og hann. Ég hygg, ef maður talar af fullkominni hreinskilni um þetta mál, að ekki sé svo mjög að ræða hér um deilu við menntamálaráð í heild eða óánægju með tilhögun á því, hvernig það sé skipað — ekki eins og sumpart störf hv. formanns menntamálaráðs (JJ) og þá ekki síður þau skrif, sem hann hefur látið eftir sér birta í sambandi við starfsemi ýmissa listamanna hér í landinu og um starfsemi menntamálaráðs. Ég hygg, að menn verði að gera sér grein fyrir því, að það er einmitt um þetta, sem ágreiningurinn er frekar en hitt, að það er Alþ., sem kýs í menntamálaráð, en ekki einhver annar aðili.

Ég veit, að það er rétt, sem hv. flm. segir um þing listamanna hér á s.l. hausti, það samþykkti till. um breyt. á l. um menntamálaráð í þá átt sem gert er ráð fyrir hér í frv. Hins vegar get ég ekki neitað því, að mér finnst þessi lausn, ef hægt er að kalla þetta lausn, mesta vandræðalausn. Ég fyrir mitt leyti tel, að það séu ekki hinar minnstu líkur til þess, að t.d. fulltrúi frá tónlistarmönnum eða leikurum sé, almennt skoðað, betur hæfur til að meta verk rithöfunda og myndlistarmanna heldur en hver annar maður. Og því hygg ég það tilefnislaust að setja þessa menn í ráðið til þess að meta verk rithöfunda og ákveða um það, hvaða málverk skuli kaupa í væntanlegt myndasafn ríkisins. Það má kannske segja, að þeir standi jafnt að vígi og aðrir borgarar landsins, en þeir standa þó ekki öðrum framar í þessu efni. Ég hygg því rétt, að hv. menntmn., sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar, athugi, hvort ekki væru aðrar leiðir fullt svo líklegar og þessi, sem hér er gert ráð fyrir, til þess að bæta úr því ástandi, sem við höfum búið við í þessu efni undanfarið.

Ég man ekki, hvort það hefur komið fram í þessum umr., en ég tel ákaflega hæpið, ef ekki óviturlega ráðstöfun, að tala alla persónustyrki út úr fjárl. Ég er þeirrar skoðunar, að það væri alveg eðlileg leið, að a.m.k. þeir listamenn og rithöfundar, sem Alþ. metur verða þess að vera á nokkurn veginn föstum launum, ættu að vera á 18. gr. Og ég álít, að ef sýna á manni sóma fyrir eitthvað í þessum efnum, sem Alþ. álítur þess vert, að ástæða sé til að viðkomandi maður haldi áfram á þeirri braut, þá sé fullkomin ástæða til að taka til athugunar, hvort ekki ætti að breyta um í þessu efni aftur. Manninum er sýndur mestur sómi og hvatning með þessu. Og Alþ. er eðlilegur aðili til þess að dæma um þetta, ef á að meta þetta þjóðinni til gagns. Nú viðurkenni ég það, að þegar litið er á þann skerf, sem hið opinbera leggur fram til þessara mála, þá er ekki eðlilegt, að allt það fé gangi til þeirra manna, sem eiga heima á 18. gr. Þess vegna er athugunarefni, hvort ekki sé rétt, að nokkru af þessu fé sé úthlutað með nokkuð öðrum hætti en að ákveða það á 18. gr.

Ég tók svo eftir hjá hv. flm., að hann í fyrri ræðu sinni, sem hann hélt hér, segði, að það gæti ekki gengið lengur, að Alþ. skipti sér ekki af málefnum listamanna. Ég verð að telja þetta alveg ómaklega mælt. Það verður ekki annað sagt, þegar litið er til annarra þjóða og ríkja, hvar sem er, en að Alþ. Íslendinga hafi lagt tiltölulega meira fram til þessara mála heldur en flest þau ríki, sem ég þekki til i. Og hv. þm. S.-Þ. hefur átt mikinn þátt í því, að svo hefur verið gert. Og sú löggjöf, sem hér gildir um menningarsjóð og starfsemi hans, er að ýmsu leyti mikils verð og merkileg. Og ég álít illa farið, ef það er ekki fullkomlega metið, sem gert hefur verið í þessu efni.

Ég tel það sem sagt mjög vafasamt, að þessi leið, sem hér er bent á, sé líklegust til úrbóta í þessu efni. En ég vildi beina því til hv. menntmn. til athugunar, hvort ekki væri vert fyrir n. að rannsaka, hvort ekki væri ástæða til, ef horfið yrði að því að taka aftur inn á 18. gr. þá menn, sem þar þættu eiga heima að dómi Alþ., að láta t.d. félag íslenzkra rithöfunda annaðhvort beinlinis úthluta því fé öðru, sem lagt yrði fram til rithöfunda, heldur en ákveðið er í 18. gr., eða þá a.m.k. gera till. um þá úthlutun til menntamálaráðs, ef það hefur það á hendi að úthluta þessu fé til þeirra annarra rithöfunda, sem ekki þættu verðir slíkrar viðurkenningar að vera settir á 18. gr. Nokkuð svipað þætti mér vel athugandi í sambandi við kaup listaverka.

Hér í þessu frv. er ætlazt til þess, að 4 félög listamanna í ýmsum greinum tilnefni menn í ráðið, og fulltrúar frá hverju einstöku félagi fjalli um öll þau mál, sem fyrir koma í menntamálaráði. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að það gætu verið stofnuð fleiri slík félög listamanna, sem gætu því eins vel kolnið til greina með að hafa fulltrúa í ráðinu, og ef svo væri haldið áfram, að hvert slíkt félag hefði fulltrúa í ráðinu, gæti svo farið, að fulltrúar frá Bandalagi íslenzkra listamanna hefðu meiri hluta. En það telur flm. þó ekki heppilegt.

Ég sé, að hv. flm. hugsar að ýmsu leyti eins og ég í þessu máli, því að hann segir í grg.: „Er þá ekkert eðlilegra en listamenn sjálfir fái íhlutunarrétt um sín mál, og gæti jafnvel virzt eðlilegast, að þeir hefðu þau algerlega með höndum.“ Ég skal viðurkenna, að þetta hefur þó nokkuð til síns máls, þannig að skipta t.d. rithöfundum í tvo flokka, þannig að í öðrum flokknum væru þeir rithöfundar, sem Alþ. beinlínis viðurkennir og telur þess verða að hafa fastar greiðslur til, sem væru þá settir í 18. gr. fjár l., en í hinum flokknum væru þeir, sem fá styrk sem eins konar uppörvun og hvatningu, menn, sem eru að byrja, og menntamálar að úthlutaði þeim þessum styrkjum. Einnig finnst mér það athugandi, að þessir 4 menn, sem störfuðu í menntamálaráði og væru fulltrúar bandalagsins, tækju þátt í störfum menntamálaráðs, þegar það starfar að sérmálum þessara félaga. Allt þetta vil ég benda á til athugunar fyrir hv. menntmn., og þar sem sú n. er skipuð svo áhugasömum mönnum eins og hv. 7. landsk. (KA), flm. þessa frv., sem hefur lagt allmikla vinnu í þetta mál, og hv. þm. S.-Þ., vænti ég, að sú n. taki þær ábendingar, sem ég nú hef gert, til athugunar. Hins vegar hef ég heyrt, að listamenn mundu telja sér það hálfgerðan bjarnargreiða, ef þeim yrði falið að úthluta þessu fé sjálfum, og það kann að vera nokkuð til í því. En ef þeir eða samtök þeirra á annað borð vilja gera einhverjar samþykktir, þá verða þeir að taka þeim afleiðingum, sem það hefur í för með sér. Og ég er ekki viss um, að með ákvæðum þessa frv. um val fulltrúa þeirra í ráðið verði stýrt fram hjá því skeri.

Ég get svo látið útrætt um þetta mál að sinni. En ég geymi mér rétt til þess að bera fram brtt. við frv. eða vera með brtt., sem fram kunna að koma síðar.