16.12.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (3410)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Hv. 2. þm. S.M. veitti að mér persónulegum aðdróttunum út af bílaútflutningsn., en ég vil vísa þeim ummælum heim til föðurhúsanna, því að meðan meðnm. mínir eru ekki undir áhrifum hans, taka þeir réttan málstað.

Hv. 2. þm. S.-M. hrakti ekkert af hinum þungu ásökunum, sem hann liggur undir út af andúð sinni til sjávarútvegsins. Hann reyndi aðeins að snúa út úr orðum mínum um samvinnufélög, og af hverju þau urðu að hætta rekstri. En það var af því, að það var engin peningastofnum til í landinu, sem vildi lána þeim fé. Ég vil spyrja hv. flm., hvort honum er ekki kunnugt um, hvernig fór um útgerð Haukaness, sem rekin var á samvinnugrundvelli og þurfti að hætta, af því að hásetarnir fengu engan hlut.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um fyrirspurn hv. 1. flm. Henni var að vísu svarað af hv. síðasta ræðumanni, en skal ég þó geyma mér að svara henni af minni hálfu, þar til við síðari umr. málsins, en ég ætla nú að leyfa mér að koma með fyrirspurn til hv. þm. og spyrja hann að því, hve marga þröskulda hann hefur í sinni ráðherratíð lagt fyrir sjávarútveginn á Íslandi. Ég get m. a. bent á eitt dæmi, er sýnir glöggt hug hans til þessara mála. Það var einstaklingur, er vildi reisa frystihús, en fékk eigi að flytja inn vélar o.fl., er nauðsynlega þurfti til þess að reka slíka starfsemi, sem hv. 2. þm. S.-M. vissi bezt sjálfur, að var hin ákjósanlegasta atvinnugrein fyrir landsmenn. Svo, þegar þessi maður gat aflað sér þessara véla innan lands og það virtist ætla að rætast úr þessu nauðsynjamáli þrátt fyrir andstöðu hv. 1. flm. þáltill., þá var þó hægt að koma því svo fyrir, að maðurinn gat ekki fengið timbur til þess að nota við byggingu frystihússins. Er þetta aðeins eitt dæmi um þær hindranir, er hann lagði fyrir sjávarútveginn, er hann var ráðh.

Það, sem ég lagði meginþungann á í ræðu minni og vil aftur leggja höfuðáherzluna á, er, að bak við þáltill. sé hið rétta hugarfar, en ekki það, sem áður hefur verið svo ofarlega í hugum þessara manna, að vilja traðka niður í skítinn þau mál, er sjávarútveginn varða, sem svo oft hefur verið gert af hálfu framsóknarmanna.