16.12.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (3414)

25. mál, milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Aðeins örfá orð. Það er aðeins til þess að vekja athygli á því, sem hv.

7. þm. Reykv. og hv. þm. Barð. sögðu hér áðan. Ég hafði gert mér vonir um, að þeir greindu nú frá helstu stórmálum á sviði sjávarútvegsins, sem Sjálfstfl. hefði komið í framkvæmd, er ég hafði skorað á þá að gera það. En það gerðu þeir bara ekki, og kom mér það á óvart, þar sem búast mátti við, að þeir, sem alltaf eru að tala og hugsa um þessi mál, gætu sýnt þá, að eitthvað lægi eftir þá í þessum málum. En þeim er vorkunn. Hv. þm. Barð. gerði ekki minnstu tilraun til að svara fyrirspurninni, en hv. 7. þm. Reykv. gat um 4 mál. En það er um þau að segja, að að minnsta kosti voru allir sammála um 3 þeirra, en um 4. málið var ekki annar ágreiningur en sá, hvenær hagur ríkisins yrði svo góður, að fært þætti að leggja til framkvæmda.

En þeir létu báðir undir höfuð leggjast að svara fyrirspurn minni um, hvaða stórmál þeir hefðu beitt sér fyrir og komið á, meðan þeir stjórnuðu.