18.12.1942
Sameinað þing: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3440)

38. mál, verkleg framkvæmd efitr styrjöldina og skipulag stóratvinnurekstrar

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Mörgum hv. þm. er það mikið áhugamál, að þessi þáltill. geti komizt til n. fyrir jól, og m.a. af þeirri ástæðu ætla ég ekki að gerast langorður um efni hennar. Enn fremur teljum við flm. till., að í grg. hennar séu tekin fram þau helztu atriði, sem til stuðnings mega verða þáltill., og þess vegna einnig af þeirri ástæðu er hægt að komast af með styttri framsögu en ella mundi. Þó vil ég á þessu stigi málsins láta fylgja þáltill. okkar nokkur orð.

Það er nú kunnara en frá þurfi að skýra í löngu máli, að þúsundir manna í landinu vinna nú, beint eða óbeint, hjá eða í sambandi við það setulið, sem í landinu dvelur. Og mjög margt fólk hefur skipt um bústaði, flutzt til, til þess að hafa hægari aðstöðu til að nota sér viðskiptin við eða vinna hjá hernum. Það er m.a. hægt að benda á eitt, sem sýnir ákaflega glögglega, hversu afkoma manna er nú orðið mikið byggð á þessum viðskiptum við setuliðið, með því að athuga verzlunarskýrslur landsins og gjaldeyrisjöfnuð. Verzlunarjöfnuðurinn er nú orðinn talsvert óhagstæður á hverjum mánuði. Eigi að síður safnast fyrir innieignir erlendis. Þetta stafar af því, hvað mikið fjármagn kemur inn í landið frá hernum. Og því fé er veitt inn í landið sem vinnulaunum eða notað af hernum í margháttuðum viðskiptum við landsfólkið. Það ætti að liggja öllum mönnum í augum uppi, að þegar herinn flytur á brott í styrjaldarlok, sem sjálfsagt gerist með nokkuð snöggum hætti, þá gerbreytist allt viðhorf í landinu viðkomandi viðskipta- og fjárhagsmálum. Hundruð og jafnvel þúsundir manna verða þá að leita sér að annarri atvinnu heldur en þeir hafa stundað um hríð, og margir verða áreiðanlega að draga saman eða hætta við ýmis fyrirtæki, sem að nokkru eða öllu leyti hafa byggzt á viðskiptum við herinn.

Nú er ljóst, að við gömlu atvinnuvegina í landinu, landbúnað, sjávarútveg o.fl., gætu fleiri haft atvinnu en nú er. En þó væri fásinna að ímynda sér, að allur sá fjöldi manna, sem um atvinnu verður staðfestulaus að styrjaldarlokum, geti að öllu leyti haft atvinnu við gömlu atvinnuvegina. Og þó að það sé nauðsynlegt, að svo margir sem kostur er á, hverfi aftur til þessara gömlu atvinnuvega, þá er þó víst, að það verður stór hópur landsmanna, sem verður hægt að fá til að vera við nýjar framkvæmdir, sem þörf er á.

Nú er álit okkar, sem flytjum þessa þáltill., að þetta sé ákaflega stórt mál og að það sé mjög nauðsynlegt, að Alþ. og þeir, sem hér eiga miklum skyldum að gegna í sambandi við þetta mál, geri sér í tæka tíð sem ljósasta grein fyrir því, hvaða afleiðingar brottför setuliðsins kann að hafa að þessu leyti, og séu viðbúnir að mæta því ástandi, sem þá verður. Enn fremur teljum við mjög stórt atriði, að menn geri sér sem gleggsta grein fyrir því, hvaða verkefni eigi að taka til úrlausnar, þegar hér kemur sögu, og að tekin verði fyrir þau verkefni, sem þjóðinni í heild er fyrir beztu, að séu leyst, en ekki af handahófi valin í flýti og þannig, að þessi mál verði svo illa undirbúin og hlaupið í að ráða menn í framkvæmdir þessar eingöngu til þess, að menn séu ekki iðjulausir og það sé hægt að fá átyllu til þess að greiða mönnum kaup. Við teljum, að það þurfi að leggja mikla vinnu í það að gera áætlanir og undirbúning að þessum framkvæmdum og velja þær með sjónarmið heildarinnar fyrir augum. Við drepum hér í grg. á aðeins nokkra málaflokka, sem okkur finnst, að eigi að koma til athugunar í fyrstu röð, þegar til þessara framkvæmda kemur. En þó ber engan veginn að líta þannig á, að sú upptalning sé eða eigi að vera tæmandi, heldur aðeins bending flm. um það, sem þeim finnst liggja beinast við á þessu stigi málsins. En fleira á vitanlega að koma til greina í þessu sambandi, og sumt, sem ekki liggur nægilega ljóst fyrir enn, til þess að það sé rætt.

Við flm. göngum út frá því, að það sé eðlilegt, að ríkið hafi talsvert af þessum framkvæmdum með höndum, ekki vegna þess, að við sjáum ekki, að það hlýtur að verða talsvert mikið framkvæmt af hálfu einstaklinga, heldur af þeim ástæðum, að við teljum ekki líklegt, að framkvæmdir einstaklinga verði fullnægjandi, og af því að viss verkefni eru, sem ríkið þarf að leysa og heppilegast er að byrja á, einmitt þegar hér verður komið sögu, að atvinnumál landsins verða þannig, að atvinnu vantar — og það sennilega snögglega — handa fjölda manna.

Við göngum út frá því, að sú n., sem hefur með höndum þessa rannsókn, athugi einnig fjárhagshlið þeirra af þessum málum, sem ríkinu er ætlað að hafa sérstaklega afskipti af. Við göngum út frá því sem sjálfsögðu, að framkvæmdasjóður ríkisins, sem nú er verið að safna í, verði að verulegu leyti til afnota í þessu skyni. En við göngum þess ekki heldur duldir, að eins og nú horfir um fjárhagsafkomu, þá muni þurfa talsvert meira fé heldur en líkur eru til, að verði í þessum framkvæmdasjóði, þegar að því kemur. Þá göngum við einnig út frá því, að hlutverk n. verði að líta eftir fjáröflunarleiðum, að því leyti sem framkvæmdasjóður ekki hrekkur til að standast kostnað við þær framkvæmdir, sem n. gerir áætlanir um og telur nauðsynlegt, að verði gerðar.

Flest af þeim verkefnum, sem nefnd eru í grg. þáltill., hafa verið rædd áður, a.m.k. á Alþ. og þó kannske enn meira utan þess, og ég ætla ekki að fara að telja þau upp nú. En á meðal þeirra eru verkefni, sem hafa verið mikið rædd, án þess að það hafi komið fram, hvort menn hafa ætlazt til, að einstaklingar eða félög leystu þessi verkefni. Þar vil ég nefna verkefni eins og bygging verksmiðja, t.d. áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju og verksmiðja í sambandi við sjávarútveginn og skipasmiðastöðvar. Þessi mál hafa öll verið rædd, og komið hefur fram áhugi á þeim. En það hefur ekki komið fram nein meginstefna um rekstrarfyrirkomulag þessara fyrirfækja eða hvort ríkið skuli reisa þau eða styðja að því, að þau verði reist. Þess vegna höfum við gert það að tillögu okkar, — því að við teljum það svo nátengt þessum verkefnum, sem ég hef nefnt, að ekki verði slitið frá þeim í athugun um þau, — að n. skuli gera tillögur um stóratvinnurekstur í landinu og afskipti ríkisins af þeim málum. Þetta er af því, að við töldum nauðsynlegt að athuga, hvort ríkið ætti að reka þau eða einstakir menn eða félög með stuðningi ríkisins. Þetta teljum við svo nátengt hinu verkefninu, að við teljum, að það verði með engu móti frá því slitið og eðlilegt, að þetta verði hvort tveggja — athuganir á þessum málum unnið af sama aðila, sömu mönnum og sömu stofnunum.

Þá höfum við einnig ætlað n. nokkru viðtækara starfssvið, — að endurskoða almennt fyrirkomulag á stóratvinnurekstri landsins. Ástæðan er sú, að við álitum, að það félli alveg inn í verkahring n. að gera till. um ný verkefni. Og þá fannst okkur eðlilegt, að n. væri falið að skapa sér skoðun um það fyrirkomulag, sem er á stóratvinnurekstri landsins, og athuga, hvort hún treystir sér til að gera till. um breyt. á þessum atvinnurekstri, sem gætu orðið til þess, að hann næði betur tilgangi sínum en hann hingað til hefur gert að dómi flm. þáltill. Enn fremur, að n. gerði sér grein fyrir því og léti skoðun sina í ljós um, að hve miklu leyti ríkisvaldið skuli beinlínis skipta sér af því, að þessu fyrirkomulagi sé breytt, eða að hve miklu leyti hún skuli aðeins gefa bendingar til þeirra, sem að þessum málum störfuðu, og raunar alveg sérstaklega má segja, að það vaki einnig fyrir flm., að þessi n. framkvæmi þessar rannsóknir og geri till. sínar með sérstöku tilliti til þeirra nýju fyrirtækja, sem líklegt er, að rísi upp eftir styrjöldina, og þeirrar endurnýjunar, sem væntanlega mun eiga sér stað í stóratvinnurekstrinum.

Ég skal fara aðeins örfáum fleiri orðum um það, hvers vegna við höfum álitið rétt, að n. fengi einnig þetta hlutverk. Það er ómögulegt annað en að menn hafi veitt athygli þeim stórkostlegu göllum, sem eru á stóratvinnurekstrinum, eins og hann hefur verið rekinn hjá okkur undanfarið. Einstaklingurinn er hjá fyrirtækinu eingöngu gegn kaupgjaldi og á ekki að neinu leyti afkomu sína undir því, hvernig rekstur fyrirtækisins gengur, og snertir það ekki að neinu leyti, hvernig afkoma þess er. Þetta fyrirkomulag er ekkert sérstakt fyrir Ísland, heldur er það svona yfirleitt. Það leiðir af fyrirkomulaginu sjálfu, að gagnkvæm tortryggni verður milli atvinnurekenda og verkamanna. Það leiðir af sjálfu sér, — og þarf ekki að fara langt til þess að finna dæmi um það úr okkar þjóðfélagi —, að verkalýðurinn er ákaflega ófús á að breyta launakjörum sínum til lækkunar, jafnvel þótt einstakir menn séu sannfærðir um, að það sé ákaflega erfitt fyrir atvinnuvegina að standa undir launagreiðslunum. Það er raunverulega eðlilegt, að verkalýðurinn sé ákaflega ófús á að breyta launakjörum sínum, og það er af mörgum ástæðum, — og þessi tregða er beinlínis af fyrirkomulaginu, eins og það er. El! verkamaðurinn finnur það ekki, að hann njóti þess sérstaklega, ef vel gengur, er hann tregur og vill ekki takmarka laun sin, þegar illa gengur, og venjan er sú, að þegar þannig er ástatt, að menn eru almennt sannfærðir um, að launagreiðslurnar séu hærri en atvinnureksturinn getur borið, þá geta verkamenn bent á það, að ekki er sjáanlegt, að atvinnurekendur líði í neinu eða þurfi að breyta lifnaðarháttum sínum í einu eða neinu, og það er ekki eðlilegt, meðan svo er, að launamenn eða verkamenn séu fúsir til að verða við óskum um lækkun launa sinna. Niðurstaðan hefur orðið sú, að jafnvel þótt menn hafi talsvert almennt verið sannfærðir um, að atvinnuvegirnir hafi þurft á því að halda, að launagreiðslunum væri breytt til lækkunar, þá hefur það ekki fengizt fram, verkalýðurinn hefur ekki viljað fallast á það. Þá hefur verið gripið til þess óyndisúrræðis að fella gjaldmiðil þjóðarinnar í verði, — að lækka krónuna. En skipulag, sem hefur það fólgið í sér, að málin hljóta að rekast í hnút með tiltölulega stuttu millibili og fella verður gjaldeyri landsins, — fyrirkomulag, sem það hefur fólgið í sér, er náttúrlega stórgallað, og hljóta allir að sjá, að það hlýtur að leiða af sér vaxandi vandræði, því að stöðug verðfelling á gjaldeyrinum grefur vitanlega undan því fjárhagskerfi, sem reynt er að byggja upp. Það er ekki lengra síðan en 1939, að við gerðum þetta, því að það ástand hafði skapazt þá, að það var nauðsynlegt vegna atvinnuveganna að lækka gjaldeyrinn. Þessi tortryggni verkalýðsins á stóratvinnurekstrinum er ekki óeðlileg, eins og er í pottinn búið, og það er eðlilegt, að launamenn sýni óvilja á að framkvæma slíka lækkun, þar sem engin trygging er fyrir því, að þeir fái að njóta góðs af, þegar betur gengur. Nákvæmlega sams konar kreppa og varð þess valdandi, að krónan var lækkuð 1939, er nú að koma, nema miklu stórkostlegri en nokkru sinni áður. Nú er allt að rekast í harðari hnút en við höfum þekkt til áður, og niðurstaðan verður sú, að meðan allt er í gamla horfinu, mun þessi gamla tortryggni skjóta upp höfðinu að nýju og erfiðleikarnir verða enn meiri en áður, nema eitthvað sé gert til þess að eyða þessari tortryggni. Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um, að það er ákaflega stórkostlegt nauðsynjamál að koma þeirri breytingu á í rekstrarfyrirkomulaginu, að þetta viðhorf geti breytzt, svo að verkalýðurinn eða þeir, sem vinna að framleiðslunni, njóti þess, þegar vel gengur, og þá mun það raunverulega sýna sig í viðhorfi þeirra til fyrirtækisins. Það mun verða allt annað sjónarmið í þessu máli, og þá mun það sýna sig, að auðvelt er að komast yfir þá atvinnukreppu, sem nú væri ómögulegt að komast yfir nema að grafa undan því fjárhagskerfi, sem við notum.

N. er ætlað að gera till. um, hvernig skuli komið fyrir í verulegum atriðum þeim rannsóknum, sem við flm. leggjum til, að gerðar verði. Það er augljóst, að það er mikið vandamál að skapa sér skoðun á þessu, og það er vandamál, hvernig það fyrirkomulag skuli komast á, sem menn telja nauðsynlegt. Þetta er nauðsynlegt, að sé rannsakað af fulltrúum Alþ., og það er ómögulegt að þykjast ekki sjá, hvað er að gerast í þessu máli, að það fyrirkomulag, sem við höfum í þessum málum, er gersamlega ófullnægjandi, og að það fyrirkomulag hlýtur að leiða til þess, að það fjárhagskerfi, sem menn þykjast byggja á, verði leyst upp bókstaflega í höndum manna, vegna þess að. þeir geta ekki komið fram þeim ráðstöfunum, sem gera verður til þess að halda þessu fjárhagskerfi í skorðum. Þetta er ekki hægt að mínum dómi nema með því að gera verulegar breyt., og ég lít svo á, að það sé hættulegt fyrir menn að berja höfðinu við steininn í þessum efnum og að það sé fullkomlega tímabært, að menn endurskoði þessi efni fordóma og hleypidómalaust, og að hafa fullkomlega opin augun fyrir þeirri reynslu, sem fengin er í þessu máli, því að hún talar skýrt sínu máli.

Þessi till. fjallar um að skipa 5 manna n. Nú kann einhver að segja, að það geti verið meira og minna rétt í því, sem sagt er um undirbúning framkvæmda í stríðslok og nauðsynina á að undirbúa þetta fyrirkomulag, hvernig það skuli vera og að hve miklu leyti ríkissjóður skuli hafa afskipti af því. Þessir sömu menn spyrja ef til vill: Er nauðsynlegt að bæta við enn einni n.? Er ekki hugsanlegt, að þessum undirbúningi verði komið við öðruvísi en að skipa enn eina n.? Það eru sumir menn, sem lýsa yfir því, að þeir hafi ekki trú á n. yfirleitt. Það er eðlilegt að hafa misjafna trú á n. eins og mönnum, en hitt er augljóst mál og reynslan hefur sýnt, að það er ekki hægt að undirbúa stórmál og koma við rannsókn í stórmálum án þess að skipa til þess sérstaka menn, og það er nauðsynlegt, að Alþ. skipi þá, og að í n. séu menn af öllum flokkum þingsins, svo að þeir flytji inn í n. þau mismunandi sjónarmið, sem eru á þingi um þessi mál. Það kemur of lítið af vel undirbúnum málum inn á þing, og það er ástæðan til þess, að þingstörfin ganga fremur seint og þm. tala mikið um það í sínum hópi, að æskilegt væri, að þau gætu gengið greiðlegar. Ein meginástæðan til þessa er sú, að stórmál eru of lítið undirbúin fyrir sjálft þingið. Þessum undirbúningi er bezt hægt að koma við í n., ekki sízt þegar þingið er jafnósamstætt og hér á sér stað. Þá er engin leið önnur til þess að undirbúa mál vel en að skipa mþn. í stærstu málaflokkana. Þetta vildi ég segja til þess að skýra það, að flm. þessarar till. töldu einmitt nauðsynlegt að flytja till. um að skipa mþn. Mér finnst það alveg út í bláinn að segja, að menn hafi ekki trú á n. Það er alveg eins hægt að hætta að hafa trú á mönnum, og við höfum ekki aðra leið til þess að undirbúa málið en að skipa n. í það, því að það er vitanlega ómögulegt að undirbúa þetta um þingtímann, hvorki í n. né af þinginu sjálfu. Það er ekki hægt að skila neitt líkum undirbúningi því, sem þetta mál hlýtur að krefjast.

Ég vil svo óska þess, að þetta mál fari til allshn. að lokinni umr. eða eftir að umr. hefur verið frestað, hvort sem er betur við eigandi.