03.03.1943
Neðri deild: 70. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (3458)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Það var snemma á þessu þingi, að iðnaðarnefnd barst bréf frá Félagi íslenzkra iðnrekenda fyrir hönd ullarverksmiðjunnar Framtíðinnar og klæðaverksmiðjunnar Álafoss, þar sem kvartað er undan þeirri meðferð, sem þessar verksmiðjur hafa orðið fyrir, og farið fram á, að þeim verði bættur að nokkru eða öllu sá skaði, sem þær hafa orðin fyrir á framleiðslu sinni vegna þál. um verðuppbót á útfluttar landbúnaðarvörur, er samþ. var 31. ágúst 1942.

Saga þessa máls er í stuttu máli sú, að þessar verksmiðjur hafa keypt hráefni til framleiðslu sinnar á þann hátt, að þær hafa lofað seljendum sama verði fyrir þessar vörur eins og þeir fengju fyrir útfluttar vörur af sama tagi. Fyrri hluta árs 1942 var vitað, að þessar vörur, sérstaklega ullin, voru í svo lágu verði erlendis, að þeir töldu sér fært að áætla, að þeir þyrftu ekki að greiða fyrir þessa vöru hærra en í hæsta lagi 10 kr. kg, þegar öll kurl koma til grafar. Með þannig áætluðu verði var verksmiðjustarfsemin síðan reiknuð og hráefni keypt. Var ekki borgaður út nema nokkur hluti þessa verðs, en svo um samið, að síðar á árinu, þegar fullséð væri, hvað fyrir vöruna fengist, yrði afgangurinn greiddur. Þegar kom fram á mitt ár, höfðu verksmiðjurnar keypt verulegan hluta af þeim hráefnaforða, sem þær töldu sig þurfa til ársframleiðslu, og höfðu unt leið ákveðið söluverð á framleiðsluvörum sínum með hliðsjón af þessu áætlaða kaupverði hráefnanna. En þá skeði það, að hér á Alþ. 31. ágúst 1942 er samþ. þáltill., sem gerir það að verkum, að verðið, sem bændur fá fyrir þessa vöru, þegar öll kurl koma til grafar, er svo miklu hærra en nokkrum hafði dottið í hug, að verksmiðjurnar bíða við þetta verulegan fjárhagslegan hnekki. Eins og ég sagði, höfðu þær reiknað með 10 kr. á hvert kg. En samkvæmt því verði, sem nú er bert, að bændur fá fyrir þessa vöru, sem mun vera um 18 kr. á hvert kg, er sýnt, að verksmiðjurnar þurfa að greiða 8 kr. á hvert kg af ull umfram það, sem þær hafa reiknað með. Nú er ársnotkun þessara tveggja verksmiðja um 30 þús. kg af ull. Greiðslan umfram það, sem þær reiknuðu með, er þá hvorki meira né minna en 1/4 milljón kr., sem bætist ofan á framleiðslukostnað þeirra, án þess að hlutaðeigendur hafi haft nokkra hugmynd um, — og einungis vegna þessarar ályktunar Alþingis. Formaður í Félagi íslenzkra iðnrekenda mætti í iðnaðarnefnd og skýrði málið fyrir hönd verksmiðjanna. Hann fór fram á það þar, að verksmiðjurnar yrðu gerðar skaðlausar af þessari ráðstöfun á þann hátt, að Alþ. samþ., að ríkisstj. greiddi þennan mismun. N. sá sér ekki fært með lítilli athugun að leggja til, að þessi leið yrði farin, heldur varð hún sammála um að leggja til, að þetta mál yrði rannsakað ofan í kjölinn af hæstv. ríkisstj., sem hefur miklu meiri og betri möguleika til þess en iðnn. Ríkisstj. legði síðan að rannsókn lokinni till. sína fyrir Alþ., sem þá tæki ákvörðun um, hversu þessum mönnum skuli bættur skaðinn, sem þeir óneitanlega hafa orðið fyrir.

Íslenzkur iðnaður hefur aldrei átt upp á pallborðið hjá hv. Alþ. Og þó hefur hann sannarlega ekki verið kröfuharður samanborið við aðra atvinnuvegi landsmanna. Ég skal aðeins nefna nokkur dæmi um það, hvernig Alþ. og ríkisvaldið hefur búið að honum. Kennslumálum iðnaðarins hefur verið sýndur svo lítill sómi, að það er alls ekki vansalaust, slett nokkrum hundruðum króna í einstaka iðnskóla á nokkrum stöðum í landinu. Að öðru leyti hefur þessum málum ekkert verið sinnt af Alþ. Og framlög ríkissjóðs til landssamtaka iðnaðarmanna hafa verið mjög skorin við nögl í samanburði við landssamtök sjávarútvegs og bænda, sem hvor um sig hafa tíu sinnum og tuttugu sinnum meira fé úr ríkissjóði til starfsemi sinnar en iðnaðurinn hefur. Þá hefur og í tollamálum verið í sumum greinum búið svo að iðnaðinum, að hann hefur orðið að greiða toll af hráefnum til starfsemi sinnar, en fullunnar vörur af sama tagi hafa verið fluttar inn í landið með miklu betri tollkjörum en hráefnin til framleiðslu í landinu. En þó virðist keyra um þvert bak, þegar íslenzkir iðnaðarmenn eiga að kaupa hráefni til iðnaðar fyrir tvöfalt eða þrefalt verð á við það, sem útlendar verksmiðjur kaupa fyrir. Það er vitað, að fyrir ullina flutta til útlanda fást fimm krónur og á sjöttu kr. kg. En ef íslenzku verksmiðjurnar eiga að kaupa fyrir 18 kr. eða meira kg, þá er svo að þeim, búið, að það getur enginn þm. horft upp á þessa íslenzku iðnrekendur á eftir. Ég vil segja, þegar þetta bætist við ofan á það, sem á undan er gengið, þá er ekki furða, þótt óánægja sé í hópi þessara manna og þeir leiti til Alþ. með kröfur sínar. Hér er þó að ræða um þá iðnaðarstarfsemi, sem sumir hv. þm. hafa borið uppi í sér, að ætti helzt að styðja, sú sem vinnur úr íslenzkum hráefnum. Það hafa verið bornar nokkrar brigður á, — og ekki að ástæðulausu með öllu —, að sumt af því, sem íslenzkur iðnaður tæki sér fyrir hendur að vinna, ætti ekki fullan rétt á sér og væri ekki samkeppnisfært. En það hefur þó verið haldið í það í lengstu lög, að iðnaður úr íslenzku hráefni ætli fyrst og fremst rétt á sér, og bæri að styrkja hann og efla. En hvernig er svo styrkurinn? Á þann hátt, að íslenzku verksmiðjurnar verða að kaupa hráefni til starfsemi sinnar með þreföldu verði á við það, sem erlendar verksmiðjur kaupa íslenzkar vörur fyrir.

Á sama tíma hefur innflutningur erlendrar vefnaðarvöru aldrei verið meiri en nú. Samtímis því, að íslenzkar klæðaverksmiðjur verða að kaupa hráefni sín á svona háu verði, þá fá hinir erlendu keppinautar hin sömu íslenzku hráefni á miklu lægra innkaupsverði. Það sjá því allir, að þessi starfsemi hlýtur að leggjast niður, ef þessu vindur fram, og það beint fyrir aðgerðir sjálfs Alþ.

Nokkru seinna en bréfið barst frá ullar- og klæðaverksmiðjunum, þá kom bréf frá súturum í sama dúr. Er þar bent á, að þeir verði að kaupa gærur á útflutningsverði að viðbættri verðuppbótinni. Er mér sagt, að margir þeirra séu nú farnir að kaupa gærurnar sútaðar frá Englandi, þær sömu gærur og við flytjum út, af því að það reynist ódýrara en kaupa hráefnið hér og vinna úr því. Er hér jafnvel reiknað með tolli. Það sjá allir, að þetta getur ekki gengið. Þetta er óþolandi ástand. Enda segja sútarar; að ýmist hafi störf þeirra mikið lagzt niður eða ekki sé hægt að stunda þau svipað og áður. Sama er að segja um verksmiðjurnar, sumar hafa nærri hætt störfum, en aðrar hafa dregið mikið saman seglin. Þessi iðnaður var að verða efnilegur og sparaði okkur að flytja út hráefnin óunnin, og jafnvel var orðið um nokkurn útflutning fullunninna vara að ræða.

Þá er það annað atriði. Hvernig verkar þessi verðlagspólitík á verð varanna innan lands? Það eru veittir tugir milljóna til þess að halda uppi verðlaginu. Það framlag verkar því beint til að gera vöruna dýrari. Það verkar á vísitöluna í öfuga átt við allar dýrtíðarráðstafanir stj. og annarra, sem vilja draga úr dýrtíðinni. Þetta er svo einstakt fyrirbæri, að hv. Alþ. hlýtur að sjá sóma sinn í að færa það til betri vegar.

Hin umræddu atvinnufyrirtæki hafa farið fram á, að þau þyrftu ekki að kaupa þessi innlendu hráefni hærra verði en útlendingarnir gefa fyrir þau. Þetta höfuðsjónarmið er sanngjarnt og eðlilegt og rétt að vísa málinu öllu til stj. til gaumgæfilegrar rannsóknar, og æskja þess, að hæstv. stj. gerði um það till. til hæstv. Alþ.

Það er ekki nema tvennt til, annaðhvort verður að færa þetta til betri vegar eða þessi iðnaður leggst niður. Það fyrirkomulag, sem nú viðgengst, á sinn þátt í verðhækkunaröldunni í landinu, en það mun þó vera sá öldutoppurinn, er menn sjá, að ekki dugir að láta brotna yfir sig.