03.03.1943
Neðri deild: 70. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3460)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Jón Pálmason:

Það er ekki óeðlilegt, að skipulag þessara mála komi nú fyrir Alþ. Úr því að ekki hefur fengizt úr þessu skorið, þá er ekki nema eðlilegt, að eftir því sé gengið, því að þetta er mikið vandamál.

Ýmsir hafa talið óeðlilegt, að greiddar væru uppbætur á landbúnaðarafurðirnar. En eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, þá eru nú beztu markaðir þessara vara lokaðir um stund, og því er ekki nema eðlilegt, að ríkið hlaupi undir bagga með þessum atvinnuvegi. Enda er það ekki nema tilfærsla, því að öðrum kosti væri verðið bara hærra innanlands. .

En eins og hv. frsm. sagði, þá getur ekki gengið, að innlendi iðnaðurinn verði að kaupa hráefnin hærra verði en þau eru seld úr landi.

Um gærur er það að segja, að þær eru seldar með ákveðnu verði og hægt að miða við það verð. Aftur er vandasamara með ullina, af því að við höfum ekki verð á henni frá 1941 og 1942 og engar ákvarðanir hafa verið teknar um það. Það er því nauðsynlegt, bæði vegna iðnaðarins og landsins í heild, að fá ákveðið verð á ullina. Það væri heppilegra, að ríkið keypti ullina eða hún væri boðin út og geymd þar til eftir stríð, því að þá mun ekki þurfa að gefa miklar uppbætur með henni, því að þá stígur hún í verði. En varðandi iðnaðinn er nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvort hann á áfram að kaupa ullina að viðbættri uppbótinni eða ekki, og mundu þá verksmiðjurnar fyrst og fremst fá hana á lægra verði, því að mér finnst varla geta borið sig að selja þeim þessa vöru að viðbættri uppbótinni. En aðalatriðið er að fá úr þessu skorið, fá það hreint, en það verður ekki fyrr en fast verð fæst á ullina, með því að hún verði annaðhvort boðin til kaups fyrirtækjum, sem vildu liggja með hana, eða ríkið keypti hana til geymslu fram yfir stríð.