03.03.1943
Neðri deild: 70. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3463)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Frsm. (Emil Jónsson):

Ég get nú verið þakkIátur þeim hv. þm., sem tekið hafa til máls, sökum þess að þeir hafa allir, jafnvel hv. þm. V.-Húnv. (SkG) og hv. þm. V.- Sk. (SvbH) talið rétt að samþykkja þessa till. Enda held ég, að með henni sé ekki stefnt í neinn voða. Það er alveg rétt, sem meðnm. minn, hv. 2. þm. Rang. (lngJ), sagði, að nokkur atriði í þessu máli þurfa ekki frekari upplýsingar við, og einmitt að nokkru leyti þess vegna höfum við farið þessa leið, eins og ég lýsti í fyrri ræðu minni. Þegar formaður íslenzkra iðnrekenda kom til okkar, reifaði hann fyrir okkur málið á svipaðan hátt og ég sagði áðan. En ef það er rétt, að þeir hafi átt kost á að kaupa ullina fyrir þetta verð, sem hann sagði, þá tel ég ekki rétt að ákveða verðupphæð til þeirra, aðeins legg ég til, að málið sé rannsakað ýtarlega og svo séu bætur ákveðnar sanngjarnlega á eftir. Það er það, sem till. fer fram á, og við allir nm. höfum orðið sammála um það, ásamt flestum, sem talað hafa, að þetta ástand er óverjandi að öllu leyti, að íslenzk framleiðslufyrirtæki skuli þurfa að kaupa innlent efni fyrir þrisvar sinnum hærra verð en erlendir keppinautar. Það verkar ekki til að halda niðri verðlagi í landinu, hvað sem líður afkomu einstaklinga, sem þessa atvinnu stunda.

Hv. þm. V.-Húnv. hélt fram, að aðbúnaður að okkar íslenzka iðnaði væri í bezta lagi. Það hefðu verið samþykktir tollar á innfluttar iðnaðarvörur og enn fremur innflutningshöft, og í skjóli þeirra hefði íslenzk iðnaðarframleiðsla dafnað, svo að þetta væri allt í bezta lagi. En honum vil ég segja það, að í ekki svo fáum tilfellum hafa tollar á innfluttum fullunnum vörum verið lægri heldur en tollar á hráefnum, sem þarf til að framleiða þessar vörur. Ef þetta er talinn hæfilegur aðbúnaður af hendi ríkisvaldsins, þá veit ég ekki, hvernig hann væri óhæfilegur.

Þá vil ég enn fremur segja, þótt í skjóli innflutningshaftanna þrífist iðnaður, sem þó hefði átt eitthvað erfiðara uppdráttar, ef innflutningurinn hefði verið frjáls, þá hafa innflutningshöftin líka skapað íslenzkum iðnaði mikil óþægindi, vegna þess hversu mikil vöntun hefur verið á öllum hráefnum, innflutningur þeirra ekki mætt þeim skilningi, sem ætla hefði mátt. Þá sagði þessi hv. þm., að hann vissi dæmi um ullarverksmiðju, sem gæti ekki fullnægt eftirspurn á þessum vörum. Má vera, að til séu þess dæmi, en hitt er líka til, að verksmiðjur, sem hafa framleitt íslenzkar prjónavörur og þess háttar, eru svo gersamlega hættar þessari framleiðslu, af því að það er ekki nokkur leið að selja þær með samkeppnisfæru verði við tilsvarandi vörur útlendar. Að iðnaðarmenn séu okrarar umfram aðrar stéttir þjóðfélagsins, því vil ég algerlega vísa heim til föðurhúsanna, og vil ég halda því fram, að þessi þm. geti fundið dæmi, sem nálgist fullkomlega þetta hugtak úr þeirri framleiðslugrein, sem hann þekkir sennilega miklu betur til en þessarar. Hv. þm. sagði þó með fögrum og göfugmannlegum orðum, að sjálfsagt væri að styðja þessa atvinnugrein og styrkja á alla lund, og er ekki nema gott um þau ummæli hans að segja. En það er ekki nóg að segja það og samþykkja svo l., sem gera ómögulegt að starfrækja þennan íðnað með sæmilegri útkomu, svo að hann getur orðið að stöðvast.

Við hv. þm. V.-Sk. þarf ég ekki að segja margt. Hann kvað þetta vera spegilmynd af íslenzkum atvinnuháttum yfirleitt. En honum vil ég benda á það, að þetta ástand er skapað af Alþ., og það er aðalatriðið fyrir mér í þessu máli. Það er fram komið með þeim samþykktum, sem gerðar voru á Alþ. 1941 og í ágúst 1942, án þess að þeir væru virtir viðlits, sem þessa atvinnu stunda. Þá sagði þessi þm. einnig, að það hefði aldrei staðið á bændastéttinni að stöðva dýrtíðarflóðið, frá þeim hafi komið sú eina viðleitni, sem sýnd hefur verið í þá átt. Ég vil minna hann á það, sem gerðist 1939. Þá átti að gera sameiginlegt átak af bændum og verkamönnum til að halda niðri verðlagi í landinu. Verkamenn stóðu við skuldbindingar sínar, en þeir, sem skárust úr leik og settu dýrtíðarflóðið af stað, það voru kannske ekki sjálfir bændurnir, heldur mennirnir, sem hafa kjörið sig til að vera forsvarsmenn bænda, sem skáru sig úr, og þá byrjaði flóðalda dýrtíðarinnar, sem síðan hefur verið að rísa hærra og hærra. Og ég ætla, að ég muni rétt, að það hafi eitt sinn verið ákveðið, að verðlag, verkakaup og landbúnaðarafurðir skyldu á vissan hátt fylgjast að. Þetta ákvæði var numið úr 1. fyrir atbeina Framsfl., og vegna þess hófst verðhækkun þessara vara. Ég skal svo láta þetta nægja, hér er aðalmálið það, á hvern hátt unnt verði að bæta úr vandræðum þessara framleiðenda. Málið er svo sanngjarnlega flutt af okkur í iðnn., að vonandi er, að d. sjái sér fært að samþykkja það og talið verði að athugun lokinni fært að gera viðeigandi ráðstafanir, til þess að þessi iðnaðarstarfsemi geti haldið áfram á sama hátt og hingað til, því að það teldi ég þjóðarskaða, að hún legðist niður.