11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (3490)

98. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. Barð. spurði, hvort ætlazt væri til þess, að hækkunin kæmi á þá aðila, sem nú greiða iðgjöldin. Já, við ætlumst til þess, en mér finnst gæta nokkurs misskilnings hjá hv. flm. um það, hverjir nú greiða iðgjöldin. Þetta á aðeins við um alþýðutryggingarnar, en ekki stríðsslysatryggingarnar. En ég tel, að taka ætti til athugunar, hvort ekki væri rétt að skipta þessari iðgjaldahækkun milli ríkissjóðs og atvinnurekenda, eins og stríðsslysatryggingagjaldinu. Vildi ég gjarnan hafa samvinnu við hv. allshn. um slíka athugun.

Hv. þm. benti á, að lífeyrisgreiðslur væru þegar að nokkru teknar upp í sambandi við stríðsslysatryggingarnar. Sú viðbót, sem sjómenn í millilandasiglingum eiga að fá, er ekki greidd út í hönd, heldur keyptur fyrir hana lífeyrir með samningum við eitthvert tryggingarfélag hér í bæ. Hins vegar getur það ekki verið almenn regla, að lífeyrisgreiðslurnar nemi ekki nema 6% af fénu, sem inn var lagt. Sé t.d. að ræða um unga ekkju, verður árgjaldið skiljanlega lægra en ef konan er 50 eða 60 ára. Það verður líka að telja, að ung kona eigi auðveldara með að sjá sér farborða. Það er vitanlega ómögulegt að setja nokkra reglu um það, hve miklu lífeyrir inn eigi að nema. Það verður að fara eftir aldri þess, sem á að njóta hans.