12.01.1943
Efri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (3497)

99. mál, verkamannabústaðir

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af mér og hv. 6. þm. Reykv. og miðar að því að gera þá breyt. á l. um verkamannabústaði, að árlegt afgjald af lánum til byggingar verkamannabústaða verði fært niður í 3%. Lánsskilyrðin verða þó að öðru leyti óbreytt. Hér er gert ráð fyrir, að aðeins sé um að ræða viðauka við lögin og að gamla reglan um 4% árlegt afgjald verði óbreytt sem grundvallarregla, en að þetta verði aðeins bráðbirgðaákvæði, sem nái einungis til þeirra fjárhæða, sem greiddar eru úr sjóðnum, meðan vísitala kauplagsnefndar er 150 stig eða meira. Mér er ekki vel kunnugt um fjárhag sjóðsins og veit ekki um nauðsyn þess að gera ráðstafanir til tekjuöflunar. Ef til þess kæmi, að afla þyrfti sjóðnum aukinna tekna, væri hægt að leita upplýsinga hjá stjórn sjóðsins um fjárhag hans og þá einnig hægt að athuga, hvaða leiðir ætti helst að fara til tekjuöflunar.

Í grg. frv. er gerð ýtarleg grein fyrir því, hvers vegna það er flutt hér á þinginu, en þó þykir mér rétt að fara hér nokkuð yfir sögu.

Húsnæðisvandræðin hafa nú um nokkurt skeið verið eitt af helztu vandamálum kaupstaðanna, og hið opinbera hefur orðið að taka til sinna ráða til þess að ráða bót á þeim. Af hálfu Alþ. hafa helztu ráðstafanirnar verið í því fólgnar að setja reglur um notkun þess húsnæðis, sem til hefur verið í kaupstöðunum. Það mál er nú til athugunar af sérstakri mþn. En það er ekki fullnægjandi að hagnýta það húsnæði, sem til er, heldur verður einnig að gera sérstakar ráðstafanir til þess að örva byggingarframkvæmdir. lað mun að sjálfsögðu reynast erfitt að framkvæma hið fyrra, ef ekki verður byggt til þess að mæta fjölguninni, en það hefur ekki verið gert mikið til að örva menn til byggingarframkvæmda. Þá vil ég sérstaklega geta þess, að snemma á árinu 1941 voru framkvæmdir nær því stöðvaðar hér í bænum. Þá óskuðu byggingarfélögin, að athugaðir yrðu möguleikarnir á því, að framkvæmdir gætu haldið áfram, og hvaða ráðstafanir væri nauðsynlegt að gera til þess. Eins og ástæðurnar voru þá hjá félögunum, var bersýnilegt, að ekki væri kleift að hefja framkvæmdir að nýju nema með því, að vextir af lánum byggingarsjóðs yrðu lækkaðir úr 5%, þannig að mönnum yrði kleift að standa undir lánum sjóðsins. Alþingi samþykkti því árið 1911 að lækka vextina úr 5% niður í 4%, en lánaskilmálarnir skyldu að öðru leyti haldast óbreyttir.

Um þessar mundir var vísitala kauplagsn. innan við 150 stig og nokkur bjartsýni í mönnum um, að hún hækkaði ekki mikið á næstunni og jafnvel að takast mundi að stöðva þá dýrtíðina. En þetta fór mjög á annan veg, og er nú unnið að byggingum í mesta dýrtíðarflóði, sem við höfum haft kynni af. Vísitalan gefur þó ekki nægilega hugmynd um þá hækkun, sem orðið hefur. Það er að vísu svo, að sú hækkun, sem orðið hefur á kaupgjaldinu, kemur að nokkru leyti fram í vísitölunni, en það hefur einnig orðið allmikil óbein hækkun, sem m.a. stafar af því, að dagsafköstin eru nú orðin dýrari en nokkru sinni fyrr. Þessi hækkun hefur hleypt mjög fram kostnaðinum við allar byggingar framkvæmdir. Þó að þeir, sem kaupa íbúðir, geti staðið undir þessari hækkun, verður ómögulegt fyrir þá að standa undir þeim hluta kostnaðarins, sem hvílir á þeim í 42 ár.

Tilraun hefur verið gerð með það að hækka útborgunina úr 15% í 25% og lækka þannig eftirstöðvar þær, sem hin árlega afborgun reiknast af. Þetta hefur þó haft mikla örðugleika í för með sér, og er nú sýnt, að margir, sem búnir voru að festa kaup á íbúðum, verða að ganga frá kaupunum, ef ekki verður eitthvað að gert. Byggingarfélögin telja hins vegar mjög hæpið að láta menn ganga frá kaupunum, og er því þetta frv. borið fram að ósk þeirra. Ég vil taka það fram, að þótt í þessu frv. felist aðeins ein breyt., er langt frá því, að það sé sú eina breyt., sem þarf að gera á lögum þessum. Mér hefur orðið það ljóst sem formanni byggingarfélags, að það þarf að gera margar breyt. á þessu nú á næstunni. Ég hef unnið að undirbúningi þess að leggja slíkt frv. fram nú á þessu þingi, þótt það hafi ekki komizt í framkvæmd enn þá. En það er svo mikilsvert, að þessi breyt. nái nú fram að ganga, að það var sjálfsagt að leggja þetta frv. fram nú þegar, þótt í því fælist ekki nema eiri breyt.

Eitt af því, sem þyrfti að gera, er að flokka meðlimi byggingarfélaganna eftir efnum þeirra og ástæðum. Það eru nú um 1000 verkamenn í byggingarfélögunum hér í Rvík, og eru sumir þeirra þannig efnum búnir, að þeir þyrftu að geta eignazt íbúðir án þess að borga nokkuð út, aðrir gætu borgað út nokkra fjárhæð og hinir þriðju mundu geta greitt allmikið strax. Einnig þyrfti að stofna sparisjóð í sambandi við byggingarfélögin, þannig að meðlimir þeirra gætu lagt þar inn fé, meðan þeir væru að bíða eftir íbúðum sínum. En þessar breyt. eru nú í undirbúningi, og verður væntanlega tækifæri til þess að flytja þær hér í þinginu. Menn mega því ekki skilja þetta frv. svo, að það feli í sér þá einu breyt., sem gera þurfi á lögum þessum.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.