26.01.1943
Efri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í C-deild Alþingistíðinda. (3504)

121. mál, hæstaréttur

Pétur Magnússon:

Ég held, að sú skoðun, sem hefur komið fram hjá háttv. þm. Barð. og háttv. þm. Str., sé orðin dálítið úrelt. Það hefur verið ákaflega þakklátt verk að sýna fram á það, að þjóðin hefði ekki efni á að launa embættismenn sína svo vel, að embættin væru lífvænleg. Það hefur verið ákaflega þakklátt verk að sýna fram á, að þjóðin búi ekki við betri kjör e n svo að embættismennirnir séu sízt verr settir en aðrir borgarar þjóðfélagsins. Þetta má kannske til sanns vegar færa, en hins vegar held ég, að öllum almenningi sé nú orðið ljóst, að það borgar sig beinlinis fyrir þjóðfélagið að launa a.m.k. þá embættismenn, sem eru í ábyrgðarmestu stöðunum, svo vel, að það sé nokkur trygging fyrir því, að hæfir menn fáist í þær. Reynslan hefur og sýnt það, að lagafyrirmælin eru ekkert aðalatriði í þessu efni. Ef embættin eru óhæfilega lágt launuð, verður að ganga fram hjá lagafyrirmælunum, til þess að unnt sé að fá hæfa menn í þau. Þetta mun hv. þm. Str. þekkja frá ráðherratíð sinni. Segi ég það honum eigi til ámælis, því að vafalaust er betra að fara krókaleiðir til þess að fá hæfa menn í embættin en að skipa þau óhæfum mönnum. Hins vegar væri æskilegast, að ekki þyrfti að fara krókaleiðir, heldur væri gengið þannig frá aðbúnaði embættismanna með löggjöfinni, að þeir gætu séð sómasamlega fyrir sér og fjölskyldu sinni af embættistekjum sínum. Ég skal játa, að þau laun, sem stungið er upp á hér í þessu frv., eru nokkru hærri en gerist um embættismenn og yfirleitt er greitt fyrir störf í þágu hins opinbera, a.m.k. eftir launalögum. Hins vegar er vitanlegt, að fjöldi manna, sem vinna hjá einkafyrirtækjum, hafa svona há laun og hærri, og það er nú svo, að menn, sem eru þeim hæfileikum búnir og hafa fengið þá menntun, að fært sé að gera þá að hæstaréttardómurum, hafa að jafnaði þá aðstöðu að geta hjá einkafyrirtækjum eða með einkarekstri aflað sér fjár, sem er miklu meira en samsvarar þeim launum, sem hér er talað um. Ég er þess vegna á þeirri skoðun, að það sé fullkomlega réttmætt að hækka laun þessara embættismanna, þannig að embættin þættu eftirsóknarverð.

Í síðari hluta I. gr. er hins vegar ákvæði, sem ekki er hægt að láta fara umræðulaust gegnum þessa l. umr., en það er um það, að hæstaréttardómarar skuli vera undanþegnir skatti. Þetta er ákvæði, sem að vísu er ekki nýtt, því að á hverju þinginu eftir annað eru fyrirtæki undanþegin skatti, bæði fyrirtæki hins opinbera og einkafyrirtæki. Þetta sannar það, að sú skattalöggjöf, sem við eigum við að búa, er óhafandi. Löggjöf, sem er þannig, að alltaf þarf að gefa undanþágur frá henni, er ófær. Við vorum hér áðan með eina slíka undanþágu, sem enginn ágreiningur var um, um undanþágu til Eimskipafélags Íslands h/f frá skattgreiðslum. Ég álít þessa undanþágu alveg sjálfsagða. Og af hverju? Það er af því, að skattalöggjöfin er þannig, að ef þetta fyrirtæki ætti að greiða skatt samkvæmt þeirri löggjöf, væri vonlaust um rekstur þess. Afkoma þess er misjöfn frá ári til árs. Ef það því ætti að láta meginhluta tekjuafgangs góðæranna í skatt, yrði enginn afgangur til að greiða tap vondu áranna. Það eru fjöldamörg fyrirtæki, sem það sama gildir um. En ef á að fara inn á þá braut að undanþiggja sérstaka flokka manna eða sérstakar stéttir skattgreiðslum, veit ég ekki, hvar það lendir. Það mætti sjálfsagt færa fullkomin rök fyrir skattfrelsi annarra flokka manna engu síður en hæstaréttardómara, og ég sé ekki, að sá samanburður, sem frsm. var að gera á hæstaréttardómurum og ríkisstjóra, nái tilgangi sínum. Nær lagi væri að gera samanburð hæstaréttardómurum og ráðherrum, og ef sá samanburður er gerður, þá sé ég ekki, hver rök mæla með, að hæstaréttardómarar séu fremur undanþegnir skatti en ráðherrar. Ráðherrarnir hafa sízt minni tilkostnað og enn þá síður möguleika til að afla sér aukatekna. Ég held þess vegna, að rétt sé að athuga þetta mál mjög gaumgæfilega. Ef skattalöggjöfin er óviðunandi, á að breyta henni. En það á að búa þannig að almenningi, að ekki þurfi að undanþiggja sérstök fyrirtæki og sérstakar stéttir manna skattgreiðslum. Það getur aldrei leitt til farsældar.