26.01.1943
Efri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (3505)

121. mál, hæstaréttur

Gísli Jónsson:

Ég held, að mig og hv. 8. landsk. (PM) greini ekki svo mikið á í þessu máli. Hann vill setja launakjörin svona eins og fram er sett í frv. og fella burtu skattfrelsið. Ég hallast frekar að hinu, að hafa upphæðina lægri og halda skattfrelsinu til öryggis því, að hæstaréttardómarar hafi þá þessar tekjur, en fyrir því er engin trygging, ef það stendur ekki í lögunum, því að eins og kunnugt er, standa allir borgarar verjulausir fyrir þeim yfirgangi, sem Alþ. sýnir þeim í skattamálum. Það er meira að segja svo, að á síðustu tveim árum hafa skattalögin verið látin vinna aftur fyrir sig, svo að menn hafa ekki haft hugmynd um, hvernig útkoman yrði eftir að lögin yrðu gengin í gildi. En þau eru samin til þess að hirða allar tekjur landsmanna, eftir að vitað er, hverjar þær eru. Ég er alveg á sama máli og hv. 3. landsk. um það, að þetta skattakerfi er alveg óhæft.

Ég get lýst yfir fylgi mínu við þetta frv., ef ákvæðið um skattfrelsið verður afnumið. Hv. þ. landsk. talaði um, að reynslan sýndi, að nauðsynlegt væri að greiða sæmileg laun til þess að fá hæfa menn í slíkar stöður. Ég held, að það hafi alltaf sýnt sig, að með þeim launum, sem greidd hafa verið, hafa ágætir menn sótt um þessar stöður og það hefur, þrátt fyrir þessi launakjör, sem þeir hafa átt við að búa, verið eftirsótt að verða hæstaréttardómari. Svo er það dálítið einkennilegt, að á þeim tíma, þegar ríkisstj., Alþ. og allir taka höndum saman um að vinna á móti dýrtíðinni, að hækka þá laun ákveðinna embættismanna. Mér finnst ekki samræmi í þeim starfsaðferðum yfirleitt. Það er enginn vafi á því, að þetta er komið á það stig, að við getum ekki haldið áfram í sömu átt og á undanförnum árum. Við sjáum, að hinar miklu tekjur ríkisins eru horfnar og eru kannske ekki nógar fyrir þeim skuldbindingum, sem ríkisstj. hefur tekið á ríkið. Það þarf ekki annað en að sjá yfirlýsingu frá atvinnumálaráðh. í blöðunum í dag til þess að vita, að erfiðleikar eru framundan.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Str. sagði um laun sýslumanna og bæjarfógeta, er ég ekki sammála. Ég held, að það sé yfirleitt ekki nóg að launa menn, það þurfi líka að gera kröfur til þeirra, og það er víst, að það væri hægt að launa sýslumenn og bæjarfógeta betur, ef þeir ræktu störf sín sómasamlega, en þegar helmingurinn af tímnanum fer í annað, sem ekki kemur embættinu neitt við, og þeir láta viðvaninga vinna sín störf, þá er ekki von, að hægt sé að launa þá vel. Þetta á sér stað bæði í Rvík og utan Rvíkur, og það er ekki nægilegt að bæta kjör þessara manna, þeir verða líka að uppfylla þær kröfur, sem gera verður til þeirra. Það komst mikið á undir dómsmálastj. Hermanns Jónassonar, að ekki væri litið eftir því, hvernig menn ynnu fyrir sínum launum, og mikið er það búið að kosta ríkissjóðinn, að menn hafa verið á ferðalögum úti um allt land, þegar þeir áttu að sinna sínum embættum.

Ef þetta mál gæti orðið til þess, að teknar væru hér upp viturlegar umræður og samvinna um skattamál, væri ég með því. Það er ekki úr vegi að opna augu Alþ. fyrir þeirri fádæma heimsku, sem farið hefur verið inn á í þessum málum, því að það er vitanlegt, ef ekki er breytt til og farið inn á viturlegri stefnu, hrynur allt í rúst. Það er ekkert nema hrun framundan, ef haldið er áfram þeirri stefnu, sem framsóknarmenn hafa átt langmestan þáttinn í að koma á á undanförnum þingum.