26.01.1943
Efri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (3507)

121. mál, hæstaréttur

Bjarni Benediktsson:

Ég ætlaði aðallega að ræða um það, sem hv. síðasti ræðumaður talaði um, ráðherralaunin. Ég held, að þingið komist ekki hjá að gera sér ljóst, að laun þessara manna eru alveg óviðunandi. Hv. þm. Str. hefur lýst yfir því, að hann hafi í sinni ráðherratíð skaðazt á embættinu um tugi þúsunda króna. Ef við viljum halda íslenzka ríkinu sómasamlega uppi og láta þá menn, sem þar eru í fyrirsvari, vera nokkurn veginn frjálsa menn, sem ekki þurfa að vera forríkir eða steypa sér í skuldir að öðrum kosti, þá verður ekki komizt hjá að bæta úr þessu. Þess má geta, að það eru ekki einungis menn í forsrh.-embættum, sem orðið hafa að gefa með sér, heldur og aðrir ráðh. Ég tel, að, nú standi vel á fyrir þingflokkunum að bæta úr þessari hneisu, en til þessa hefur enginn flokkur þorað að gangast fyrir því af hræðslu við aðra flokka. Nú ætti þessu ekki að vera til að dreifa, því að nú er komin að völdum ríkisstj., sem er ekki fulltrúi neins sérstaks flokks. Ég tel, að um sé að ræða nokkurn veginn sams konar þörf á að bæta launakjör ráðh. og hæstaréttardómara. Ég er þakklátur hv. flm. frv., sem hefur reyndar verið tekið fremur dauflega hér í hv. d., og ég get ekki annað en látið í ljós undrun mína yfir því, að komið skuli hafa fram raddir um, að með þessu væri hallað á aðra embættismenn. Hv. 1. þm. Reykv. minntist t.d. á, að þetta væri ósanngjarnt gagnvart prófessorum lagadeildar. Ég þekki nú nokkuð þar til og get reyndar fallizt á, að þeir séu ekki mjög vel launaðir. En þó að það sé játað, ber þó ekki að neita því, að þar er aðstaðan mjög ólík því, sem er hjá hæstaréttardómurum. Sumpart liggur það í starfi lagakennaranna, einkum er þeir hafa verið lengi við það starf, og hafa þá mjög góða aðstöðu til að skrifa kennslubækur og slíkt, sem er alltaf nokkur tekjulind, þótt naumast geti það verið gróðalind. Auk þess mætti gera meira að því en verið hefur að láta lagakennara vera ráðunauta hins opinbera og veita þeim þá aukaþóknun fyrir. Þá veit ég ekki til, að í l. sé nokkur stafur, sem banni lagakennurum að stunda málflutningsstörf frekar en læknaprófessorum að stunda lækningar, en það gæti orðið þeim mikill ávinningur að hafa meiri aðgang að réttarsölunum en nú er. Lagakennarar hafa yfirleitt miklu betri skilyrði til að afla sér aukatekna en hæstaréttardómarar. Ef hinir síðarnefndu eiga að gegna starfi sínu sæmilega og vera fullkomlega óháðir, mega þeir ekki hafa önnur störf að rækja né eiga fjárhagsafkomu sína undir öðrum. Hv. S. landsk. gat þess, að ríkisstj. mundi hafa veit hæstaréttardómurum nokkra uppbót. Þetta mun vera rétt, og tel ég það sízt vítavert, heldur miklu fremur nauðsyn. En hitt er ófært, að hæstaréttardómarar þurfi hvert sinn að vera háðir geðþótta ríkisstj. um þetta eða um aukastörf til að geta lifað. Það hlýtur að hamla þeim í skyldustörfum þeirra. Ég vil ekki segja, að þetta hafi komið að sök. því að stj. þær, sem hér hafa setið að völdum um langa hríð, hafa ekki haft löngun til að misbeita valdi sínu í þessu efni. En það gæti komið að sök.

Það er rétt, að ýmsir aðrir embættismenn hér á landi eru illa launaðir, en sérstaða þeirra manna, sem hér ræðir um, er svo mikil og margvísleg, að þar kemur enginn samanburður til greina. Fyrst og fremst er hér um að ræða einhverjar mikilvægustu trúnaðarstöður ríkisins, og í öðru lagi hafa þessir menn ekki möguleika til að hafa aukatekjur nema að mjög litlu leyti, auk þess sem það er beinlínis óheppilegt, að þeir þurfi á slíkum tekjum að halda sér til framfæris. Það má með sanni segja, að embætti bæjarfógeta og sýslumanna séu yfirleitt illa launuð. En ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm. Str., sem er kunnugri framkvæmdarvaldinu en él,r, hvort ekki muni vera nokkrir embættismenn í þeim hópi, sem hafa 15000–20000 kr. árstekjur eða meira en gert er ráð fyrir í þessu frv., að hæstaréttardómarar hafi. Það er ekki óeðlilegt, að hæstaréttardómarar, sem hafa æðri embættum að gegna, hafi að minnsta kosti laun á við þá af þessum mönnum, sem bezt eru launaðir. Við verðum að hafa kjark til að greina hér á milli. Það er að vísu gott, að ekki sé óhæfilegur ójöfnuður milli manna, en það er svo í. öllum þjóðfélögum, líka þeim, sem ganga lengra í jafnaðarátt en talið er, að gert sé hér á landi, að þar er gerður munur á launum eftir því, hve starf er vandasamt. Það er til dæmis vitað um Rússland, þar sem a.m.k. í orði kveðnu hefur verið gengið lengst í jafnaðarátt, að munur á launakjörum opinberra starfsmanna er þar miklu meiri en hér. Ég er ekki að segja, að það sé til fyrirmyndar. En slíkur munur er, sem sagt, í öllum þjóðfélögum og er óhjákvæmileg nauðsyn.

Það er auðvitað hægt að segja eins og hv. 1. þm. Reykv., að mörg mál í þjóðfélaginu eru fremur aðkallandi en þetta. Með þeirri röksemd má í rauninni eyða öllum umbótamálum. En hann notaði þessa röksemd raunar aðallega í sambandi við fjölgun í dómnum. Hv. þm. taldi litla þörf að fjölga dómurum og kvað það hata gefizt vel, að þeir væru þrír að tölu. Ég get játað það, að hæstiréttur hefur frá upphafi reynzt vanda sínum vaxinn og að árásir þær, sem hann hefur orðið fyrir, hafa verið ástæðulausar. Það er satt, að síðan núverandi dómarar komu í dóminn, hefur verið hljótt um hann og þeir ekki orðið fyrir árásum, en það sannar ekki, að óheppilegt sé að hafa dómarana fleiri en þrjá. Ég tel, að þegar til lengdar lætur geti það orðið hættulegt fyrir tiltrú manna til dómsniðurstaðna, að mennirnir séu ekki fleiri en þrír. Þetta verður ljóst, ef menn reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig skipun dómsins muni verða eftir nokkur ár. Þar hafa nú um hríð setið þrír menn ágætir, einn nokkuð roskinn, en tveir á léttasta skeiði, um fertugt báðir, en búnir þó að sitja í dóminum hér um bil 8 ár. Segjum nú, að núv. ríkisstj. yrði nokkuð langlíf og embætti það í réttinum, sem núverandi hæstv. dómsmrh. gegndi áður, yrði veitt. Mætti þá búast við, að það hreppti maður á svipuðum aldri og þeir tveir dómarar, sem þar sitja nú. En halda menn, að það yrði heppilegt, að þrír menn á líku reki sætu í dóminum í 20–30 ár, án þess að hann endurnýjaðist? Þessir menn mundu hittast tvisvar eða þrisvar í viku og ræðast við, en hafa annars lítinn samgang við lífið og umhverfið. Ég er hræddur um, að sá réttur yrði brátt steinrunninn. Ég tel nauðsynlegt, að æðsti réttur landsins sé nokkuð fjölmennur, þó að ekki væri til annars en þess, að nokkur trygging fengist fyrir því, að hann endurnýjaðist á hæfilegum fresti og nýjum straumum eða nýju blóði yrði veitt þar inn. Ég vil ekki nota ljót orð í þessu sambandi, en það er alltaf nokkur hætta á klíkuskap og þröngsýni, þar sem fáir menn starfa saman um langt árabil. Þetta eru rök, sem lítið hefur verið hreyft, en ég tel skipta miklu máli. Þó að það sé rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að margt annað væri aðkallandi hér á landi, þar sem umbóta þyrfti við, vil ég halda því fram, að fjölgun dómara í hæstarétti er ekki lítilvægt atriði, ef hér á landi á að varðveitast heilbrigð réttargæzla.

Þess má geta, að ég er ekki alls kostar ánægður með sumt í frv., en get gert grein fyrir því við 2. umr.