26.01.1943
Efri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (3510)

121. mál, hæstaréttur

Bjarni Benediktsson:

Ég ætla ekki að pexa. Hv. 1. þm. Reykv. talaði um, að það væri óeðlilegt, að ýmsir embættismenn, t.d. lagaprófessorar, hefðu sum af þeim aukastörfum, sem ég minntist á. Ég vil ekki fara frekar út í það mál. En ég vil fá að upplýsa það, að eftir því sem ég bezt veit, og með þeim möguleikum, sem menn hafa á venjulegum tímum til að afla sér aukatekna, án þess í tekjuöflunarskyni að taka nokkur störf, sem hæpin megi telja, þá hygg ég, að lagaprófessor hafi í tekjum umfram eignatekjur komizt yfir tekjur hæstaréttardómara. Varðandi ýmsa aðra embættismenn vildi ég segja, að hv. þm. Str. gæti ef til vill gefið upplýsingar. Ég hef af því sagnir, að biskupinn hafi á síðustu árum fengið allmiklar kjarabætur, svo að laun hans séu nú hærri en laun þau, sem þetta frv. fer fram á. Fyrir nokkrum árum voru í blöðum talsverðar árásir á landlækni vegna aukastarfa, sem hann gegndi ekki, en fengi laun fyrir. Hann var ávíttur fyrir það, að hann vanrækti að hafa eftirlit með lyfjabúðum, enda þótt það væri hans starf. Á þeim tíma mun landlæknir með þessum aukatekjum hafa haft í kringum 15 þús. kr. í árslaun. Á sama tíma höfðu hæstaréttardómarar aðeins 8 þús. kr., sem síðar var hækkað upp í 10 þús. með því skilyrði, að þeir án sérstakrar þóknunar gegndu aukastörfum fyrir ríkisstj.

Það mun láta nærri, að forstjóri skipaútgerðarinnar hafi yfir 10 þús. kr. í árslaun auk fríðinda, lögreglustjórinn í Rvík um 9 þús. kr. í grunnlaun, og auk þess gegnir hann flugmálaráðunautsstarfi, svo að árstekjur hans munu ekki vera minni en 12 þús. kr. Svona mætti lengi telja. Ég kynni betur við, að hv. þm. Str. hefði hlustað á mig, svo að hann hefði getað leiðrétt mig, ef ég hef ekki farið með rétt mál, því að honum mun manna kunnugast um þetta. (HermJ: Ég skýrði frá þessu áðan). Nei, það var varðandi aðrar uppbætur. Ég var núna að tala um laun landlæknis, biskups og lögreglustjórans í Rvík. Um þetta hafa að minnsta kosti gengið sagnir. Nú hafa hæstaréttardómarar að vísu hærri laun en þeir höfðu, en það er sökum ýmissa verkefna, er skapazt hafa við veru hins erlenda setuliðs hér, og þar er því ekki nema um bráðabirgðaástand að ræða. Ég tel það hættulegt, ef embættismenn þurfa alltaf að eiga afkomu sína undir ríkisstj. á hverjum tíma, en það er stjórnfræðileg staðreynd, sem allir viðurkenna, ef svo er farið með dómendur, þá er sjálfum grundvelli þjóðfélagsins, réttarskipuninni, teflt í stórfellda hættu.