03.03.1943
Neðri deild: 70. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (3513)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Þessar umr. hafa gefið mér tilefni til að segja nokkur orð. Því er haldið fram af hv. þm. Hafnf. (EmJ), að hækkun á landbúnaðarafurðunum 1939 hafi verið mjög ósanngjörn og ófyrirsynju. Hann heldur fram, að það hafi verið komið beint aftan að mönnum í þessu. Þá heldur hann fram, að það hafi átt sér stað hækkun á verði á innanlandsafurðum fram yfir það, sem iðnfyrirtæki hafa gert ráð fyrir. En ég vil biðja þm. að athuga þetta: Var ekki allt kjöt frá 1939 selt með sama verði óbreyttu til sláturtíðar 1940, nema í byrjun árs 1940 var hækkað fyrir rýrnun og frystikostnaði? Hvaða kíló af kjöti hækkaði 1939? Nefni hann mér eitt kjötkg á landinu, sem hefur hækkað árið 1939.

Þetta var tekið út úr l. um haustið. Það var ekki hækkuð ein einasta landbúnaðarvara, fyrr en kjötið haustið 1940 kom á markaðinn. Það er því ekki satt, að hækkanir á kaupi, sem urðu seinni part sumarsins 1940, hafi stafað af því, að kjötið í sveitinni hækkaði, því að sú hækkun varð ekki fyrr en um haustið. Hv. þm. sagði, að það hafi verið óréttlátt að hækka þessa vöru 1940, þó að kaupið hafi hækkað sumarið 1940, en svo á að vera sjálfsagt að hækka iðnaðarvörurnar, af því að ullin hækkaði. En hvað er nú ullin mikill hluti af verði iðnaðarvaranna, sem úr henni eru unnar? Ég get sagt hv. þm. það, að kaupgreiðsla er 78% af kostnaði við framleiðslu landbúnaðarafurða, og þó heldur hann því fram, að það, að kjöt og mjólk hækkuðu seint á árinu 1940, hafi verið óréttlátt. En af því að ullin hækkaði nokkuð í verði, þá á að hafa verið sjálfsagt að hækka fatnað þar á móti svo sem gert var.

Hv. þm. getur ekki bent á, að landbúnaðarafurðir hafi hækkað um einn einasta eyri, þangað til komu nýjar vörur á markaðinn, sem framleiddar voru með vinnuafli, sem greitt var eftir hinu nýja verðlagi. (EmJ: Hvort hækkaði meira?) Komi hann með skýrslur um það, hvað kaupið hækkaði í sveitinni, og þegar hann kemur með sínar skýrslur, þá kem ég með minar. Haustið 1939, þegar kjötverðið var 20 aurum lægra innan lands heldur en til Noregs, þá mátti ekki hækka það. Og við notuðum okkur ekki tækifærið, þegar verðið var ekki lengur bundið á þann hátt, heldur hækkuðum það ekki fyrr en haustið 1940.