03.03.1943
Neðri deild: 70. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3516)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Skúli Guðmundsson:

Það má rétt vera, sem fram kom hjá hv. 1. landsk. þm. (SG), sem síðast talaði, að þessar umr. séu ekki bráðnauðsymlegar í sambandi við þá þáltill., sem fyrir liggur. En ég held, að það hafi einmitt verið hv. frsm. iðnn. (EmJ), sem leiddi þessar umr. af stað með tali sínu um uppbæturnar á landbúnaðarafurðunum, hátt verð á þeim vörum og annað slíkt í þeirri fyrstu ræðu, sem hann flutti um þessa þáltill.

Hv. 1. landsk. þm. sagði, að þegar atvinna óx í landinu, eftir að stríðið kom, hafi bændur farið að bjóða hærra kaup. Það má kannske orða það þannig, en ég held, að þeir hafi verið til neyddir að bjóða hærra kaup til þess að geta fengið fólk, því að um leið og atvinna óx hér, eftir að landið var hernumið, var vitanlega engin leið fyrir bændur að fá verkafólk nema fyrir stórum hærra kaup heldur en áður hafði greitt verið fyrir slíka vinnu. Afleiðingin varð þá sú, að bændur urðu að fá hærra verð á vörum sínum, til þess að búskapurinn gæti gengið áfram, annars hefðu þeir orðið að vinna svo að segja kauplaust við framleiðslu sina, og vil ég ekki gera ráð fyrir, að neinn ætlist til þess.

Þegar við gerum samanburð á kaupi verkamanna og á verði landbúnaðarafurða, þá hættir ýmsum við að líta aðeins á tímakaupið hjá verkamönnum eins og það var áður og eins og það er nú. Ég held, að okkur sé það kunnugt, að fyrir stríðið var tímakaupið, sem ákveðið var hjá mönnum hér, miðað við það og með tilliti til þess, að verkamenn hefðu ekki vinnu svipað því allt árið. Svo breyttist þetta, sem út af fyrir sig er ekki nema gott. Verkamenn hafa um skeið haft stöðuga vinnu, sem hefur orðið til þess, að árstekjur þeirra hafa hækkað margfalt meira heldur en tímakaupið. Og ég stend í þeirri meiningu, að það skipti meira máli fyrir verkamann, hvað heildartekjur hans eru heldur en hvað kauptaxtinn er hár á hvern klukkutíma, því að það er mönnum til lítils gagns að hafa háan kauptaxta, ef þeir ganga 1/3 hluta og kannske helming ársins atvinnulausir.

Ég tel, að til þess að fá þennan samanburð nokkurn veginn réttan, hefði þurft að gera athugun á því, hve miklar tekjur verkamanna voru fyrir stríð og hve miklar þær eru nú með því verði, sem nú er á landbúnaðarafurðum. Það er sá eini samanburðargrundvöllur, sem hér getur komið til mála. Og ef sá samanburður væri gerður, þá er ég ekki í nokkrum vafa um það, að það mundi koma á daginn, að verkamenn hafi yfirleitt fengið meiri hækkun á árstekjum sínum miðað við tímabilið frá 1939.

Hv. þm. Hafnf. sagðist vísa frá og heim til mín því, sem ég sagði um okur, sem ætti sér stað í ýmsum tilfellum í iðnaðinum. Þessi hv. þm. er nú forsvarsmaður iðnaðarins hér á Alþ. venjulegast, þegar þau mál ber á góma. Hann hefur a.m.k. ekki síður en aðrir haldið því fram, að það hefði verið óhæfilega hátt verð og miklar hækkanir á landbúnaðarafurðum. En ég held, að hann þurfi ekki að leita upp í sveitir til þess að finna hátt verð. Ég held, að hann geti fundið miklu meiri verðhækkanir nær sér hér í kaupstöðunum, ef hann vill athuga framkomu ýmissa iðnfyrirtækja hér, Þó að ég hafi ekki neina reikninga hér við höndina nú, þá væri hægur vandi að færa sönnur á það, sem ég nú sagði um þessa hluti.