04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3520)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Skúli Guðmundsson:

Hv. 1. landsk. er sjálfsagt eins vel kunnugt um það eins og öðrum, að það vantar mikið á, að verkamenn hafi haft stöðuga vinnu fyrir stríð, því miður, enda mælti hann ekkert á móti því, sem var aðalatriðið í því, sem ég sagði, að tímakaupið segði ekki neitt til um tekjur verkamanna, heldur skipti það mestu máli fyrir þá, hve miklar tekjur þeir hafa yfir árið í heild.

En út af því, sem hv. þm. Hafnf. sagði, að línuritið, sem þm. hefðu fengið frá hæstv. ríkisstj. sýni nokkuð þær breyt., sem hafa orðið á tímakaupi og afurðaverði, þá er það, eins og ég hef tekið fram áður, algerlega villandi að bera saman hækkun á tímakaupi og hækkun á afurðaverði. Það, sem átti vitanlega að gera, var að safna skýrslum um tekjur verkamanna annars vegar og bænda hins vegar, bæði fyrir og eftir styrjöldina, og sýna svo með línuriti, hverjar breytingar hafa orðið þar á. Og ég er sannfærður um, að það línurit mundi sýna allt aðra útkomu en þetta.