04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3525)

142. mál, vegarstæði að Skálum

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Ég get verið mjög stuttorður um þessa þáltill., því að rök fyrir henni eru tekin allgreinilega fram á þskj. 464, og fylgja henni upplýsingar um væntanlegt vegarstæði. Till. fer fram á það, að endanlega verði gerð ákvörðun um það, hvernig vegarstæðið skuli vera fyrir ytri hluta Langanesvegar, sem er 17 km vegalengd og ekki hefur verið unnið neitt að enn. Það eru uppi mjög ákveðnar óskir og rökstuddar um það frá sjómönnum, sem stunda útgerð að Skálum á Langanesi, að það þurfi að koma vegarsamband við Þórshöfn, og það yrði bezt gert með því að fullgera þennan Langanesveg. Yrði því um þetta fyrirhugaða vegarstæði þarna að gera fullnaðaráætlun um kostnað vegarins.

Ég sé ekki ástæðu til að vísa till. í n., en vænti þess, að deildin vilji samþykkja hana.