12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (3565)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Mér kom það kynlega fyrir sjónir, er hæstv. fjmrh. sagði, að till. þessi til þál., sem hér um ræðir, færi fram á heimild til þess að greiða embættismönnum og opinberum starfsmönnum launabætur til ársloka 1943. Hér er ekki um heimild að ræða, hel3ur fyrirskipun.

Ég vil nú renna augunum til baka til þess tíma, er hæstv. ríkisstj. kom til valda. Þá lýsti hæstv. fjmrh. yfir því, að hann vildi ráðast á dýrtíðina, og enn fremur sagði hann, að hver þegn þyrfti að taka á sig miklar byrðar, til þess að dýrtíðarflóðið yrði stöðvað. Þingheimur hefur beðið með óþreyju síðan í desember eftir því og búizt við á hverjum degi að sjá fram koma ákveðnar till. í dýrtíðarmálunum. Það hafa komið fram tvö frv. um þessi mál, sem hv. þm. líta svo á, að ekki leiði mjög til bóta. En síðan kemur fram eitt frv. frá hæstv. ríkisstj., sem hæstv. fjmrh. mælir sérstaklega með og stefnir beint í öfuga átt við allar þær ráðstafanir, sem sá hæstv. ráðh. hefur flutt tilmæli um utan þings og innan, og í öfuga átt við þær staðreyndir, sem þjóðin viðurkennir, að hæstv. fjmrh. hafi haft rétt fyrir sér, er hann staðhæfði, að hátt verð og miklir peningar yrðu ekki annað en vísið lauf á því gulltré, sem peningaflóðið er, og félli fánýtt til jarðar, ef ekki yrði snúið við. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda hæstv. ríkisstj. á, að nú standa fyrir dyrum á tímabilinu frá 1. apríl til 1. júlí ákaflega hörð átök milli atvinnurekenda annars vegar og atvinnuþiggjenda hins vegar, því að svo að segja allir samningar milli þessara stétta eru útrunnir ýmist 1. apríl eða 1. júlí á þessu ári. Og það er þegar staðreynd, sem viðurkennd er hér á Alþ. og margendurtekin af hv. 1. landsk. þm. (SG) og hv. 2. þm. Reykv., sem einna helzt þekkja til þessara mála hvað verkalýðinn snertir hér í Rvík og annars staðar á landinu, að nú þegar sé mjög mikið orðið af atvinnuleysi, einnig hér í höfuðstað landsins. Og það er alveg víst, að frá 1. apríl n.k. verða tekjur verkamanna og sjómanna í landinu miklu minni heldur en þær voru síðast liðið ár. Það verða kannske ekki lægri tölur, er gilda um mánaðarkaup og dagkaup manna, um það skal ég ekki segja. En það verða áreiðanlega miklu minni tekjurnar í heild, þar sem hins vegar verkalýðurinn fékk baráttulaust fram kröfur sínar í fyrsta skipti á Íslandi á síðasta ári, síðan farið var að berjast um kaup og kjör verkalýðsins. Og má hann harma það, að hann hefur látið leiðtoga sína leiða sig svo langt inn á þessa braut. Foringjar verkalýðsfélaganna eru að reyna að koma því inn hjá verkalýðnum, að þetta sé hin rétta braut. En þeir viðurkenna þessa staðreynd að víssu leyti, þegar þeir hvað eftir annað hér á Alþ. krefjast þess, að milljónir verði lagðar fram úr ríkissjóði til þess að framkvæma opinber verk, jafnframt sem þeir gæta þess, að laun í þeirri vinnu séu ekki lækkuð. Það þýðir ekki að neita þessum staðreyndum. Þær eru fyrir hendi, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Og ég vil þá spyrja: Í hvaða afstöðu stendur þá hæstv. ríkisstj., þegar hún með þessari till. fer að hafa afskipti af þessum málum, sem hæstv. fjmrh. talaði fyrir og hæstv. ráðh. og ríkisstj. hafa borið fram til að tryggja mönnum sömu laun og hinir aðrir hafa haft og þar með lækka laun vissra stétta, þegar fara eiga að verða átök um það, hvort verkalýðurinn í landinu á að lækka laun sín?

Það þarf ekki að ræða mikið um afkomu frystihúsanna. Hæstv. ríkisstj. veit vel, hvernig þeim málum er komið. Það þarf ekki heldur að ræða afkomu annarra atvinnuvega í landinu. Það vita allir, að a.m.k. nú frá nýári er verið að ganga á sjóði, sem einhvern tíma þrjóta. Og það verður ekki til þess að halda við framleiðslutækjunum, ef ekki verður komið í annað horf þessum málum en það að ganga sífellt á þessa sjóði.

Rökin, sem færð voru fram á sumarþinginu, þegar um það var að ræða að samþ. þá þáltill. um þetta mál, sem hér er um að ræða og lá þá fyrir, voru þau, ef þetta mál yrði ekki samþ., að þá hlyti ríkið þá áhættu, að þeir, sem fyrir ríkið starfa, færu frá þeim störfum og til einkafyrirtækja, vegna þess að þau borguðu betur. Og ég held, að núv. hæstv. forseti Sþ. hafi lagt ákaflega mikla áherzlu á það í hv. Ed. Nú eru þessi rök ekki fyrir hendi. Nú er ekki hætta á því, að nokkur embættismaður, sem árið 1943 getur tryggt sig með launum sínum samkvæmt þessari þáltill., láti sér detta í hug að fara úr stöðu sinni til þess að vinna hjá einkafyrirtækjum, sem öll eru að mæta þeim erfiðleikum, sem styrjöldin skapar.

Ég minnist þess, að hæstv. fjmrh. gat um það hér í ræðu sinni í gær, að það væri ekki viturlegt fyrir Alþ. að verja nú nokkrum upphæðum til opinberra framkvæmda, heldur væri skynsamlegra að láta mikið af þeim framkvæmdum bíða þar til síðar, m.a. allar þær framkvæmdir, sem þyrfti að kaupa til erlent efni. En ég vil leyfa mér að benda á, að hér er reginmunur á milli, opinberra framkvæmda annars vegar og þess hins vegar, sem hér er stefnt að. Opinberar framkvæmdir, þótt dýrar séu, leiða langoftast til þess, að hægt sé að bæta hag atvinnufyrirtækjanna og létta þar með undir með framleiðslunni, þar sem auknar launagreiðslur úr ríkissjóði hins vegar stefna í þveröfuga átt. Þær launagreiðslur eru alltaf fyrst og fremst byrði á framleiðslunni. Þess vegna undrar mig það meira, að þessi till. til þál. skuli vera komin frá hæstv. ríkisstj. Ég vildi því bera það fram, hvort hæstv. ríkisstj. vildi ekki nú fá þetta mál tekið af dagskrá til þess að athuga það nánar, til þess að till. gæti athugast í n. Þá sýndi ríkisstj. alvöru í því að vilja lækka dýrtíðina. Það væri í samræmi við það, sem ég sagði hér í desember í vetur, þegar ég sagði hæstv. ríkisstj., að ekki væri hægt að fá dýrtíð og verðlag niður í landinu nema með því að leggja byrðina vegna þess á alla þegna þjóðfélagsins og m.a. á launastéttina, hvort sem hún er í þjónustu ríkis eða einstaklinga. Það var þá ekki hlustað á þau mál. Og ég sé nú, að því miður hefur ekki sú alvara legið á bak við hjá hæstv. ríkisstj., sem hún lýsti í sínum hjartnæmu ræðum um áramótin, þegar hún lýsti stefnuskrá sinni í þessum málum.