10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (3586)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. V.-Húnv. um það, hvort stj. telji sanngjarnt, að aðrar stéttir haldi sínum launum, er því til að svara, að síðan þessi sama fyrirspurn kom fram við fyrri umr., hefur orðið nokkur viðhorfsbreyt. við það, að stj. lagði fram dýrtíðartill. sínar. Þar kemur í ljós, hverjar hennar till. eru, og einmitt vegna þess, að hún hafði hugsað sér leið í dýrtíðarmálunum, var eðlilegt, að hún færi þess á leit, að opinberir starfsmenn héldu launum sínum, með þeirri skerðingu, sem dýrtíðarfrv. orsakar.

Um verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir 1943 get ég ekki svarað öðru en því, að það mál hefur ekki verið tekið til athugunar. Það hafa farið miklar umr. fram um verðuppbætur afurða 1942, og enn eru ekki liðnir af þessu ári nema 2 mánuðir, svo að ýmis málefni þarf að athuga, áður en tekin er afstaða til slíks. En ég tel víst, að þetta mál komi til umr. á Alþ., og að sjálfsögðu mun ríkisstj. taka það til athugunar, þegar hún sér sér fært.