10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3589)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Einar Olgeirsson:

Ég lít svo á þessa þáltill., að með henni sé verið að tryggja starfsmönnum ríkisins sómasamleg laun í dýrtíð þeirri, sem nú er í landinu, og jafnframt að tryggja það, að ríkið megi áfram njóta starfskrafta þeirra. Og þennan skilning býst ég við, að hv. þm. setji yfirleitt í þáltill. þessa, enda er hún út frá því sjónarmiði ekki nema réttmæt. En einkennileg þykja mér ummæli hv. þm. V.-Húnv., og er eiginlega nokkuð nýstárlegt slíkt tal úr þessari átt, þau ummæli, sem hann viðhafði í sambandi við þessa þáltill.

Nú vil ég spyrja þann hv. þm., hvort það sé meining hans, að ríkið eigi að tryggja öllum mönnum í landinu minnstu eða lágmarkslaun. Ræða hans gefur mér fullkomið tilefni til þess að spyrja hann þannig, og ég vil vænta þess, að hann svari skýrt og afdráttarlaust, því að hér er um veigamikið atriði að ræða.

Eins og nú standa sakir, eru illar horfur með atvinnu í landinu. T.d. er á Siglufirði þó nokkurt atvinnuleysi, og einnig er farið að bera á hinu sama hér í Rvík. Ég vil því spyrja þennan hv. þm., hvort það sé hans meining, að öllum atvinnulausum verkamönnum sé séð fyrir einhverjum minnstu launum af hálfu ríkisins, á meðan enga vinnu er að hafa, sem þeir geti fengið. Annað en þetta verður tæpast hægt að álykta af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, ef hann á annað borð vill vera nokkuð samkvæmur sjálfum sér. Ég get varla ímyndað mér, að hann hafi aðeins haft bændur í huga, er hann talaði hér áðan, því að honum ætti bezt sjálfum að vera kunnugt um, að það geta fleiri átt við kröpp kjör að búa en bændur. — Hann hlýtur þó að muna eftir atvinnulausum verkamönnum á Hvammstanga, en þeir eru bara ekki aðeins þar, heldur í kaupstöðum og þorpum þessa lands. Hvað segir t.d. hv. þm. V.-Húnv. um þá verkamenn alla, er atvinnulausir hafa orðið af stöðvun hraðfrystihúsanna?

Með leyfi að spyrja: Er þetta einnig yfirlýsing Framsfl. eða bending hans um það, að flokkurinn sé að komast á þá skoðun að tryggja það, að verkamenn og aðrir þegnar þjóðfélagsins fái samsvarandi laun og embættismennirnir frá því opinbera? Ef svo er, þá kemur annað atriði og mjög þýðingarmikið til greina einmitt í þessu sambandi. Ef flokkurinn hefur í huga hina þjóðnýtandi ríkisrekstrarstarfsemi, þá ber einnig skylda til að ráðstafa framkvæmdunum og sjá um, að vinnan verði sem bezt hagnýtt í þágu ríkisins. Þá verður ríkið að hlutast til um allan rekstur atvinnufyrirtækja, að hann beri sig vel. Mér virðist, að þetta sé afleiðingin af yfirlýsingu hv. þm. V.-Húnv., og tel ég vel farið, ef hann stendur við hana.