10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (3590)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Jón Pálmason:

Ég verð að segja það, að mér finnst harla einkennilegt, að lagt skuli slíkt kapp á að afgreiða þetta mál eins og mér virðist nú gert vera af hálfu þeirra manna, sem eru málinu út af fyrir sig fylgjandi. Mér finnst í raun og veru ekki vera hægt að gera endanlega út um þetta mál, fyrr en fyrir liggja ákveðnar till. og ákvarðanir í dýrtíðarmálunum og þau mál hafa verið leyst á hv. Alþ.

Með till. þessari er farið fram á að tryggja uppbætur til embættismanna ríkisins, sem eru allir fastlaunaðir starfsmenn. En ég tel ekki ástæðu vera til þess að ákveða þessar uppbætur, fyrr en jafnframt hefur verið tekin ákvörðun um aðrar stéttir varðandi þetta atriði og séð verður, hver afkoma þeirra verður.

Hv. 2. þm. Reykv. gat þess, að atvinnuleysi væri nokkurt í landinu, og það er víst alveg satt, en stafar þó að nokkru leyti af því, að vetur hefur verið heldur harður í ár, og því má búast við, að afkoma verkamanna verði ekki eins góð í ár eins og síðastliðið ár, þó að hún þurfti ekki að teljast slæm.

Varðandi bændur og framleiðslu þeirra, þá er alltaf verið að vitna í þær milljónir, sem þeir hafa fengið vegna markaðsörðugleika. Ég hef alltaf litið á þessar uppbætur sem hliðstæðu við þær dýrtíðaruppbætur, sem allir vinnandi menn við sjávarsíðuna í þessu landa hafa fengið.

Af þeim rökum, sem ég hef þegar minnzt á, te l ég rétt að fresta því að taka ákvörðun um þetta mál. Ef það verður ekki gert, sé ég mér ekki fært að greiða þáltill. atkv. mitt nú við þessa umr.