10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (3601)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég vil aðeins skýra frá því, að ekkert hefur komið fyrir, sem orðið gæti þess valdandi, að horfið yrði frá þeirri stefnu, sem allir flokkar þingins hafa orðið sammála um. Telja þeir mál þetta eigi aðeins réttmætt, heldur og óumflýjanlegt, að það sé tekið til meðferðar.

Það þarf hvorki umsögn hv. þm. V.- Húnv. né annarra, sem kunnugir eru ástandinu í þessum málum. Það er vitað, að launakjör fjölda stofnana ríkisins eru svo bágborin, að því er minnkun að. Eftir að hagur ríkisins batnaði, varð ljóst, að til þess að þeir, sem unnu hjá því, sættu ekki verri kjörum en flestar aðrar stéttir þjóðfélagsins, varð að hækka laun þeirra. Ella hefði sú hætta legið nærri, að ríkið hefði misst vinnukraftinn þangað, sem kjörin voru betri. Þess vegna varð að grípa til þessa ráðs, því að annars hefði fólkið hlaupið úr stöðum sínum. Skil ég ekki, að hér hafi nein breyting á orðið nema þá sú, að lengur sé ekki svo mikil hætta á, að fólkið yfirgefi stöður sínar.

Eins og hæstv. forseti benti á, er hér ekki um breytingu á lögum að ræða, heldur framlengingu, þangað til búið verður að setja ný launalög í landinu, og er ætlazt til þess, að framlengingin nemi hálfu ári.

Það hefur ekki verið bent á, að hægt sé að komast hjá þessu. Ekki er hægt að koma með ný launalög fyrir þennan tíma. Ég vil ekki lengja mál mitt mikið, en aðeins taka það fram, að það yrðu mér ákaflega mikil vonbrigði, ef þetta samkomulag allra flokka á að rofna. Sé ég enga ástæðu til, að máli þessu sé frestað, því að það er búið að vera lengi á döfinni, og hef ég ekki heyrt, að fram hafi komið neinar upplýsingar, sem gætu haft áhrif á gang þess.