11.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (3605)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Hermann Jónasson:

hv. þm., sem síðast talaði, sagði, að við mundum nú vilja láta þessar aukagreiðslur falla niður vegna þess, að nú teldum við það henta. En þessi rök falla alveg um sjálf sig, vegna þess, ef það hefði verið til þess að afla okkur vinsælda, að við töldum rétt að inna af höndum þessar aukagreiðslur, þá væri það á sama hátt til þess að afla sér óvinsælda að beita sér á móti slíkum aukagreiðslum nú. Þetta getur því ekki verið í þeim tilgangi, og þessi rök falla því um sjálf sig. En það vita allir þm., að slíkar aukagreiðslur, sem inntar eru af höndum, verða að lokum til þess að hækka taxtann. Það er búið að hækka laun prófessora við háskólann með aukagreiðslum, það hefur verið gert hjá prestum, kennurum, sýslumönnum, bæjarfógetum og hjá læknum. Allar þessar launahækkanir hafa farið fram með aukagreiðslum, sem ekki voru lagaheimildir fyrir. Ég er ekki að undanþiggja mig þeim hluta, sem ég á þátt í. En síðan eru grunnlaun hækkuð hjá öllum embættismönnum um 25–30% og uppbót greidd á það, og þá áttu auðvitað þessar aukagreiðslur að falla niður.

Hv. 2. landsk. vildi halda því fram, að ríkið mundi fá mikinn tekjuafgang á næsta ári, það væri því ástæðulaust að halda því fram, að ríkið gæti ekki staðið undir þessum greiðslum, og hann sagði, að ég hefði ekki rökstutt það, sem ég hefði sagt um þetta. Ég býst nú við, að flestir þm. séu sannfærðir um það, að það muni ekki reynast auðvelt að semja fjárl. fyrir næsta ár. Ég gæti trúað því, eins og lítur út fyrir með atvinnulífið, t.d. fiskveiðarnar, að staðhæfing hans um milljóna tekjuafgang sé nokkuð vafasöm, þó að óskandi væri, að svo vel færi. En það er alveg auðsætt, af reynslu okkar í atvinnulífinu, að þjóðartekjurnar geta ekki staðið undir launagreiðslum, sem komnar eru upp í 25–30 millj. kr.

Ég hef rætt við embættismenn, sem fordæma þessar aukagreiðslur, og ég er viss um, að fjöldinn af þeim teldi sér engan hag í því, að þessar aukagreiðslur væru inntar af hendi. Ég vil þá segja hv. 2. landsk. það, að það er ekkert annað en staðhæfing út í bláinn, að vísitalan sé rangt reiknuð út. En ef vísitalan væri að einhverju leyti röng, þá ætti vitanlega ekki að ákveða launamönnum einhvern slump, heldur ætti að endurskoða vísitöluna. En ég hef átt tal við menn, sem halda búreikninga, og þeir álíta, að vísitalan sé alveg rétt, enda er þetta nú fullyrðing, sem ekki virðist hafa við mikið að styðjast.

En það, sem ég ætlaði að segja að lokum, er út af þeim orðum hv. 2. landsk., að hér sé stöðugt verið með þennan sultartón vegna íslenzkra bænda. Þetta tal og þessi málfærsla í garð íslenzku bændastéttarinnar er að verða alveg óþolandi hér í þinginu.

Hv. þm. vita það vel, að það hafa ekki verið greiddar uppbætur á afurðir íslenzkra bænda undanfarin ár. Við vitum það vel, að styrkir, eins og t.d. jarðræktarstyrkurinn, hafa verið greiddir í Bandaríkjunum, sem er þó eitthvert bezta jarðræktarland heimsins, svo að þær greiðslur eru ekkert óvenjulegar.

Ég er líka alveg viss um það, að jafnvel í svo góðu landbúnaðarlandi sem Bandaríkjunum, mundi ekki vera hægt fyrir bændur þar að lífa af sinni framleiðslu, ef dýrtíðin væri þar komin á svipað stig eins og hún er nú hér í þessu landi. Að vera að tala um sultartón, í sambandi við þessi mál, þegar það er vitað, að bændur, með því verði, sem nú er á framleiðsluvörum þeirra á erlendum markaði, fá ekki nema helming af því, sem það kostar að framleiða vöruna. Þessar greiðslur, sem nú er verið að inna af höndum, eru blátt áfram skaðabætur, sem ríkinu er skylt að greiða fyrir það tjón, sem bændur hafa beðið af völdum dýrtíðarinnar. Eða hvernig haldið þið, að ástandið yrði hjá verkalýðsstéttunum, ef þær fengju ekki nema helming af því kaupi, sem þær þurfa til þess að geta lifað. En þetta er auðvitað sambærilegt við það, sem gerzt hefur hjá bændunum. Þetta er því ekkert annað en skaðabætur, sem ríkinu e r skylt að greiða bændum.