10.03.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (3606)

135. mál, launabætur embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Gísli Sveinsson:

Hv. þm. Str. kom að því, að hann vildi láta fresta þessari till., þar til séð yrði, hvernig færi um dýrtíðarfrv. stj., enda þótt hann áður hafi játað, að samþykkt þessarar till. sé ekki annað en sjálfsögð framlenging á þeim launagreiðslum, sem fram fóru á síðasta ári og gerðu það að verkum, að þessir starfsmenn áttu að vera líkt settir og aðrir, og mætti þannig nokkuð jafna aðsteðjandi erfiðleika. Þess vegna er það, að það hefur ekki nokkra þýðingu, hvernig sem dýrtíðarl. verða afgreidd, í þessum skilningi, því að ef svo er, eins og hv. þm. hafa játað, að þetta hafi verið gert til þess að jafna metin, þá koma dýrtíðarráðstafanirnar jafnt niður á þær stéttir, sem hér er um að ræða, eins og alla aðra, sem hagsmuna eiga að gæta í launum og atvinnukjörum. Hitt mætti segja, að ýmsir hv. þm., eins og hv. þm. Str. og jafnvel hv. þm. V.-Húnv., sem hafa nú talað út frá líkri röksemdafærslu, gætu sagt, að þeir greiddu þessari þáltill. atkv. í því trausti, að ný launal. yrðu sett ekki síðar en á þessu ári síðla eða í byrjun næsta árs. Og það er einmitt það, sem skýrzt hefur við þessar umr., að það er það, sem á að verða. Þessi þáttur, sem hér er farið fram á að samþ., er aðeins um það, að þessar grunnlaunauppbætur verði látnar gilda út þetta ár. Og hvað tekur þá við, vita menn ekki. Till. nær ekki lengra. Og er þá nauðsynlegt að hafa eitthvað tilbúið til frambúðar um launamálin. Og við höfum ekki séð annað en að setning nýrra launal. væri það úrræði, sem hlyti að reka að og fyrir löngu hefði átt að vera framkvæmt Og hv. þm. Str. ber mikla ábyrgð á, að ekki var hafizt handa um það mál, þar sem hann sem fyrrv. ráðh. hafði allra ráðh. mest að segja um embættismenn og kjör þeirra, þar sem hann var í hinu æðsta ráðuneyti. Þetta hefur hann látið undir höfuð leggjast. Nú er vel, ef bráðabirgðastj. okkar gæti lagfært þetta. Og það er í því trausti, sem ég vænti þess, að þessir hv. þm. vilji vera með þessari þáltill., því að engin rök hafa komið fram gegn því, að nauðsyn sé á þessari framlengingu nú eins og á setningu hennar var nauðsyn á fyrra ári.